« Lífsmenning ljóss og elsku eða dauðamenning?ALLAH MEHABA (Guð er kærleikur) »

08.02.06

  09:44:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 847 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Panhagían (Hin Alhelga)

Þegar hl. Silúan frá Aþosfjalli (1866-1938) var ungur maður var hann sterkbyggður og stæðilegur. Iðulega sat hann á þorpskránni og að eigin sögn gat hann hesthúsað þremur brúsum af vodka á kvöldi, án þess að verða meint af. Að minnsta kosti taldi hann sér sjálfum trú um þetta. Svo kom hún, Panhagían, Guðsmóðirin, óvænt til hans og sagði við hann byrstri röddu: „Mér fellur það illa, Simeon (þetta var skírnarnafn hans) hvernig þú hagar þér!“

Eftir að hafa gegnt herþjónustu í lífvarðadeild tsarsins í St. Pétursborg með sóma, snéri hann heim þar sem hann dvaldist í viku með fjölskyldu sinni, áður en hann hélt til Aþosfjalls þar sem hann dvaldi alla ævi sem munkur og varð afar helgur maður.

Þetta er einungis eitt af óteljandi dæmum um það hvernig Panhagían vakir yfir velferð okkar ásamt englum sínum. Kæri lesandi! Ef þú horfir yfir farinn veg muntu sjálfur finna fjölmörg dæmi úr eigin lífi þegar þér var bjargað óvænt og á síðustu stundum úr lífshættu. Þetta geturðu þakkað henni, Himnadrottningunni.

Þannig hefur hún stundum einnig bjargað mínu eigin lífi. Eitt sinn gerðist þetta þegar ég var ungur maður. Ég dvaldi í framandi landi á suðrænum slóðum og varð yfir mig ástfanginn í stúlku. Þetta var fönguleg stúlka, fríð sínum, skemmtilega og greind. Síðan rofnaði upp úr sambandinu eins og gengur og gerist og ég viðurkenni fúslega, að ég var dálítið daufur í dálkinn fyrstu vikurnar á eftir.

Eitt kvöldið, þetta var um helgi, fór ég á þorpskrána og hellti í mig kynstrunum öllum af gini og bjór. Að sjálfsögðu varð ég dauðadrukkinn og þá skaut þeirri hugmynd upp í kollinum, að líklega væri best að binda enda á þetta allt saman. Það er nú einu sinni svo, að á þessum aldri látum við iðulega stjórnast meira af hormónunum en almennri dómgreind.

Þegar kránni var lokað gekk ég þannig út á akur ekki fjarri sem hallaði niður að fögru fjallavatni. Nóttin var mild og blíður sumarblærinn lék um mig frá fjöllunum í grenndinni. Þá ákvað ég skyndilega að ákalla Panhagíuna og bað hana að birtast mér. Þannig leið dágóður tími og aldrei kom hún. Síðan sofnaði ég.

Morguninn eftir þegar ég rankaði við mér var ég dálítið argur út í hana fyrir að hafa ekki látið sjá sig. Nokkrum vikum síðar rann allt í einu upp fyrir mér ljós. Hún hafði bjargað mér með þessari trú minni! Ef mér hefði ekki liðið í brjóst þar sem ég beið hennar þarna á akrinum, er ekki gott að vita, hvað hefði gerst.

Heilaga María, Guðmóðir, bið þú fyrir oss nú og á dauðastundu vorri!

Þannig mun hún vaka yfir okkur með englum sínum, blessuð Himnadrottningin, á dauðastundinni, og eftir að við erum sofnuð. Þið skulið ekki leggja eyra við boðskap „spekinga“ nýaldarsinnanna sem lýsa ljósinu svo fögrum orðum sem heillar þá strax eftir að við sofnum. Það er nú einu sinni svo, að djöfullinn bregður yfir sig ljósengilslíki (2 Kor 11. 14). Við verðum krafin um ávöxtinn af talentu lífs okkar.

Öll verðum við að fara í gegnum tollstöðvarnar eða slæmu gistihúsin hennar hl. Teresu frá Avíla. Hvað ætli gerist þá þegar djöflafylki græðginnar leiða þeim sem létu heillast af glýju gullsins á jörðu alla sína gimsteina, gull og glóandi steina fyrir sjónir? Ætli þeir hlaupi ekki eftir þeim eins og á jörðinni. Skyldu hómósexualistarnir bregðast við með öðrum hætti en á jörðinni, þegar djöflafylki lostans leiðir þeim fallegu strákana sína fyrir sjónir. Nei, við erum söm og áður og þar sem fjársjóðir okkar eru verður hjarta okkar að eilífu.

Þá er hollt og gott að ákalla Guðsmóðurina eins og við gerðum á jörðinni. Þetta munum við einnig gera vegna þess að hvað annað getum við gert?

Alhelga mey og Guðsmóðir, bjarga okkur!

Það mun hún vissulega gera eins og á jörðinni og hylja okkur í verndarhjúpi sínum og engla sinna. Þannig getum við snúið heim af fyllsta öryggi. Það er þetta sem kirkjan kallar hana: Beata Virgo de Perpetuo Succursu (Blessaða Mey hinnar sínálægu hjálpar).

Lát mig kvölum krossinn verja,
Kristí dauða fyrir mig erja,
að ég njóti náðar hans!

Svo þegar lík mitt liggur í moldu
ljóss mín hljóti önd á foldu
hæsta gleði himna ranns.

No feedback yet