« Um nafnið „Rósakrans“Indland: Sex þúsund kristnir taka hindúatrú í fjöldaathöfn »

29.10.09

  20:37:14, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 358 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Pakistan: Ungur kristinn maður ásakaður um guðlast deyr í varðhaldi

Rome (AsiaNews). Guðlastslög Pakistans kveða á um fangelsi eða dauða þeirra sem lasta kóraninn eða spámanninn Múhameð. Nýlega lést tvítugur kristinn maður í Punjab í varðhaldi ákærður um guðlast. Síðan 2001 er áætlað að um 50 kristnir hafi látið lífið vegna þessara laga. Fjölskyldum er sundrað og þorp eyðilögð. Bæði kristnir og hófsamir múslímar þrýsta á um afnám þessara laga.

Andmælendur laganna segja að þau ýti undir mismunun gegn minnihlutahópum og „lögleiði“ ofbeldi gegn þeim. 12. sept. síðastliðinn var 20 ára gamall Robert Fanish Masih frá þorpinu Jaithikey í Punjab fangelsaður vegna guðlastsákæru. Daginn áður hafði múgur ofstækismanna safnast utan um kirkju staðarins og kveikt í henni auk þess að ræna tvö nærliggjandi hús.

Róbert var ásakaður að hafa „táldregið“ stúlku, tekið kóraninn úr höndum hennar og hent honum í burtu. Ákærandinn um guðlast var móðir stúlkunnar. Nóttina eftir fangelsunina dó svo Róbert í fangelsinu. Á höfði hans voru djúp stungusár eftir eggvopn. Stuttu síðar tilkynnti lögreglustjóri héraðsins að um sjálfsmorð hefði verið að ræða.

Kristnir leiðtogar svæðisins hafa hafnað þeirri skýringu yfirvalda sem sumir hverjir sáu lík mannsins fyrir jarðarförina. Mannréttindasamtökin HRCP (National Commission for Human Rights) hafa þegar skráð atvikið sem „löglegt manndráp“ og andmælt skýringum lögreglunnar.

Jarðarförin fór ekki friðsamlega fram. Lögreglan beitti táragasi á líkfylgdina að sögn til að koma í veg fyrir frekari óróa. Í nokkra daga á eftir var andrúmsloftið hlaðið spennu.

Ásakanir um guðlast leiða gjarnan til eyðileggingar heimila og kristinna þorpa. 30. júlí safnaðist 3 þúsunda múgur saman, réðist á og brenndi þorpið Korian í refsingarskyni fyrir guðlast. Hinn 1. ágúst réðst hópur ofstækismanna á þorpið Gojra, drap 7 manns, þar á meðal konur og börn. Fleiri atvik af þessu tagi eru þekkt: Kasur (júní 2009), Tias (apríl 2009), Sangla Hill (2005) Shantinagar (1997). Á þessum lista eru ekki bara kristnir heldur einnig aðrir minnihlutahópar.

Hófsamir múslímar á þingi Pakistans eru farnir að mótmæla þessu framferði. Fyrrum upplýsingamálaráðherra Sherry Rehman og Jameela Gilani bæði múslímar mótmæltu guðlastslögunum á þingi 6. október. Kristinn þingmaður hefur einnig mótmælt. Í ljósi þessa stuðnings hafa leiðtogar kristinna í Pakistan skipulagt ráðstefnu í Rawalpindi þrátt fyrir hótanir íslamskra grunnhyggjumanna (fundamentalista). 12. og 13. desember er svo ráðstefna skipulögð í Lahore til að ræða framtíð minnihlutahópa í Pakistan.

Heimild AsiaNews: http://new.asianews.it/index.php?l=en&art=16722

8 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér eru miklar fregnir sagðar af málum og illar, nema hvað nokkur von virðist þó skilin eftir um hægfara breytingar til góðs, sem samt er vitað, að muni mæta mótstöðu ofstækisafla.

Grunnhyggja – merkilega góð þýðing á fundamentalisma, skemmtilega tvírætt orð, en réttlætanlegt, nær gagnsæju merkingunni fullkomlega og er að mínu mati mun betra en sú óbeina “þýðing” sem algengust er, þ.e. “bókstafstrú".

Heilar þakkir, Ragnar. Ég hyggst vekja athygli á greininni á vefsíðunni Krist.blog.is.

30.10.09 @ 16:37
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Jón. Já þessi guðlastsmál Pakistana hafa verið af og til í fréttum enda viðurlögin við guðlastinu þung. Stjórnvöld virðast vera máttlítil gegn þrýstingi grunnhyggjumanna og Pakistan er nú sjálft orðið vettvangur bardaga milli öfgaafla og stjórnarinnar.

Þeir eru ófáir sem láta lífið nánast daglega í sjálfsmorðsárásum á saklausan almenning. Flestir þeirra eru að líkindum múslímar, hófsamt venjulegt fólk svo þeirra fórn í baráttunni við ofstækis- og ofbeldisöflin er líka mikil.

Varðandi þýðinguna, já mér datt þessi þýðing á fundamentalisma í hug fyrir nokkrum árum en ég held að ég hafi ekki notað hana fyrr en núna.

Takk fyrir vísunina á síðuna og bestu kveðjur.

30.10.09 @ 20:47
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Við verðum samt að muna að guðlastslög eru sett til að verja guðlastarann!

30.10.09 @ 21:37
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér svarið, Ragnar.

Svo þyrfti að mynda lýsingarorð af ‘grunnhyggja’. Að vísu myndi nafnorðið ‘grunnhyggjumaður’ smellpassa, en sem lo. væri ‘grunnhygginn’ heldur gróft! Orðið ‘grunnhugull’ mætti hins vegar nota!

30.10.09 @ 23:35
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hjalti: Ég sé ekkert við pakistönsku guðlastslögin sem bendir til að svo sé. Reyndar bendir þetta og fleiri tilfelli til að skrílræði ríki þegar kemur að ávirðingu um guðlast. Hér benda aðstæður til að ásökunin ein sé næg til að taka viðkomandi af lífi og ekki bara það heldur einnig skemma hús eða valda öðrum heilsutjóni.

Jón: Ég veit ekki hvort lýsingarorðsmyndin væri of gróf. Afleiðingar grunnhyggju í merkingunni fundamentalisti og grunnhyggju í hinni venjulegu merkingu sem andstæða djúphyggju eða íhygli eru í flestum tilfellum þær sömu. Tungumálið tekur stöðugum breytingum og aðlagar sig að nýrri merkingu orða sbr. orðið ’skjár’.

Athæfi þeirra sem hafna aðkomu skynseminnar að túlkun lagabókstafar eða því að taka beri tilltit til aðstæðna, túlkana eða lesturs í samhengi mega að sönnu eiga von á því að verða álitnir grunnhyggnir (í venjulegri merkingu sem andstæða djúphyggju eða íhygli).

31.10.09 @ 12:55
Athugasemd from: Hreggviður Jónsson
Hreggviður Jónsson

Kæru vinir! Þetta mál er aðeins smá hluti af ofsóknum Múslima gegn kristnum mönnum. Spurningin er aðeins, hvenær kemur þú til Íslands. Fyrst eru þeir hljóðlátir, en síðan krefjast Múslir sérréttinda í krafti trúar sinnar. Hvernig væri, að krefjast trúfrelsins í öllum Múslimaríkjum heimsins.

31.10.09 @ 14:39
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir sterkt svarið, Ragnar!

31.10.09 @ 16:32
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Hreggviður: Já að öllum líkindum er rétt hjá þér að kröfur um sérréttindi í krafti trúar á kostnað almennings eru handan við hornið. Í þessu efni er líklega farsælast að gæta jafnræðis milli trúarbragða. Annað myndi stangast á við mannréttindayfirlýsingar SÞ og Evrópusambandsins.

Þar sem útilokað er að öll trúfélög myndu viðurkenna yfirvald ríkisins yfir sér líkt og Þjóðkirkjan gerir þá sé ég enga aðra lausn á þessu en bandarísku leiðina, þ.e. að aðskilja ríki og trúfélög og tryggja að almannafé verði ekki notað í þágu trúfélaga eða trúarbragða, en tryggja jafnframt frelsi þeirra.

Guðlastslögin íslensku verða þá að víkja en í staðinn kæmi ákvæði sem jafnaðist á við “First Amendnment” Bandaríkjamanna. Í rauninni er mikilvægt að þessi lög fari sem fyrst því annað býður heim hættu á ólgu og óróa á borð við skopmyndaólguna.

Í Bandaríkjunum er jafnframt tryggt að trúarbrögð útiloki menn ekki frá borgaralegum embættum. Stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga mættu þá ekki nota almannafé í þágu einhvers trúfélags eða þiggja gjafir frá þeim.

Trúfélög gætu eftir sem áður rekið sínar stofnanir en þá án stuðnings frá ríkisvaldinu.

01.11.09 @ 09:25