« Tómasarguðspjall og hin guðspjöllin fjögurHinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Heilagir konungar Norðurlanda »

31.10.07

  15:47:02, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 594 orð  
Flokkur: Ólafur Haukur Árnason

Páfi útnefnir patríarka Kaldeakirkjunnar í Írak kardínála

Eftir Ólaf Hauk Árnason

Þann 17. október síðastliðinn tilkynnti Benedikt XVI páfi um val sitt á 23 nýjum kardínálum. Athygli vekur að meðal þeirra er patríarki Kaldeakirkjunnar, en hún er kirkja margra kristinna manna í Írak, Íran, Sýrlandi og Líbanon. Hinn áttræði Mar Emmanúel III Delly, sem var kjörinn patríarki árið 2003, á að baki áratuga starf sem biskup í þágu kirkjunnar og kristinna manna í Mið-Austurlöndum. Hann er afar vel menntaður (með doktorsgráður bæði í heimspeki og guðfræði), talar reiprennandi sex tungumál og leggur mikla áherslu á góð samskipti við múslima.

Reyndar er sérstaklega athyglisvert að meistaraprófsritgerð hans í heimspeki fjallaði um rök Farabis, hins mikla islamska heimspekings (sem reyndar hafði kristna kennara), fyrir tilveru Guðs. En þótt Mar Emmanúel sé ekki öfundar verður að gegna slíku embætti á tímum sem þessum er gleðilegt að páfi skuli heiðra hann með þessari útnefningu, sem og kristna menn í Írak, sem um þessar mundir verða að þola skelfilegar ofsóknir í landi sínu í kjölfar ólögmætrar innrásar ýmissa vestrænna þjóða árið 2003.

Kaldeakirkjan er sá hluti hinnar fornu kirkju austurlanda sem tekið hefur upp fullt samband við Kaþólsku kirkjuna. Eftir kirkjuþingið í Efesus árið 410 klufu fylgismenn Nestoríusar, patríarka í Miklagarði, sig frá heimskirkjunni og flýðu eftir það margir hverjir til Persíu, þar sem þeim var tekið tveim höndum af Persakeisara. Á fyrri hluta miðalda áttu nestoríar (en það heiti hefur loðað við fylgismenn Nestoríusar frá klofningnum 410) mikið blómaskeið og ráku umfangsmikið trúboð í Asíu, allt til Kína á tímum Tang keisaraættarinnar (kirkjan hvarf reyndar frá Kína eftir ofsóknirnar sem hófust 845 og átti ekki afturkvæmt fyrr en á tímum mongólska heimsveldisins). Ýmsar þjóðir og þjóðarbrot í Mið-Asíu tóku enn fremur upp hið nestoríska afbrigði kristinnar trúar, t.d. Keraítar, og stundum er haft á orði að um aldamótin 800 hafi verið fleiri kristnir menn fyrir austan Damaskus en fyrir vestan hana.

Þótt ýmislegt bendi til þess að patríarkinn í Bagdad hafi bundist Rómarkirkju á nýjan leik á tímum mongólska heimsveldisins lokaðist leiðin brátt milli Evrópu og Bagdad þegar höfðingjar mongóla í Persíu köstuðu sinni fornu trú, játuðu Islam og kváðu niður starf vestrænna trúboða auk þess sem nestoríar sættu enn frekar ofsóknum. Það var svo á 16. og 17. öld að biskupar og leikmenn úr röðum nestoría tóku aftur að sækjast eftir sameiningu við Róm og árið 1830 var góðri skikkan loksins komið á málefni Kaldeakirkjunnar (en svo nefnist söfnuðurinn sem sameinaðist Róm). Samskipti hennar eru góð við nestoríska bræður sína, sem nota sama helgisiðaform og tala sama tungumál, sýrlensku, og er útlit fyrir að þeir sameinist einnig hinni kaþólsku kirkju á nýjan leik.

Þrátt fyrir að útlitið sé ekki bjart fyrir kristna menn í Írak, sem daglega sæta ofsóknum, morðum og afskræmingum, er von mín sú að kardínálaútnefning Mar Emmanúels III Delly verði þeim og öllum íbúum Íraks til blessunar.

(Áður birt á bloggsíðu Ólafs Hauks: http://oha.blog.is/blog/oha/ og birt hér með leyfi höfundar. Aths. RGB)

No feedback yet