« Er kirkjusókn og trúariðkun holl?Jólasjónvarpið - hugsað upphátt »

30.12.07

  13:44:15, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 400 orð  
Flokkur: Páfinn, Jólin

Páfi fordæmir vopnagný og ofbeldi

Í Urbi et orbi (til borgarinnar og heimsins) boðskap sínum á jóladag fordæmdi páfi m.a. síendurtekna beitingu vopna á hinum ýmsu ófriðarsvæðum heimsins sem og hryðjuverk og ofbeldi. Sjá hér: [Tengill]

Segja verður að boðskapur páfa er sem fyrr tímabær og þarfur. Ef horft er á hina vestrænu menningu þá verður að viðurkenna að vopnadýrkun og ofbeldisdýrkun er áberandi, sumir myndu segja of áberandi. Afþreyingarefni, bæði tölvuleikir og myndefni byggir gjarnan á ofbeldi og vopnabeitingu til að byggja upp spennu. Oft - allt of oft er réttlætið sýnt sem afleiðing af vopnabeitingunni. En friður dauðans er ekki það sama og hinn sanni friður hjartans sem byggir á innri sátt og fyrirgefningu.

Ef til vill er það lýti á hinni vestrænu menningu hve sofandi hún er gagnvart þessum birtingum ofbeldis. Í Bandaríkjunum eru tíðar skotárásir í skólum mikið áhyggjuefni og ekki er það síðra áhyggjuefni að dæmi eru um þetta hér á Norðurlöndum. Skotárás sem varð á þessu ári í finnskum skóla og lokun sænsks skóla á dögunum vegna hótunar um árás eru alvarleg áhyggjuefni. Segja má að ofbeldisdýrkunin sé ekki aðeins að eyðileggja orðstír Vesturlanda út á við vegna hernaðarins í Miðausturlöngum heldur er hún farin að grafa undan undirstöðum sjálfs þjóðskipulagsins en það byggir eins og kunnugt er á sem bestri upplýsingu og menntun allra. Skólastarf eins og annað starf þarfnast friðar og sáttar því ósáttir og friðlausir menn munu ekki nema mikið sér til gagns.

Börn sem hafa nánast allt sitt líf horft á afþreyingarefni eða leikið sér í tölvuleikjum þar sem vondu gaurarnir deyja og friðurinn og spennufallið kemur sem afleiðing þess eru skiljanlega undirsett þessum hugsunum og ef fleiri vandamál bætast við þá getur útkoman að öllum líkindum orðið slæm - jafnvel hættuleg.

Hér þarf því að staldra við og þeir sem trúa á hinn kristna frið þurfa að þora að standa fast á því að það sem þeir trúa á beri að varðveita - þar á meðal er friður og sátt í samfélaginu og frelsi undan ofbeldisótta.

No feedback yet