« Tekur Framsókn mið af kristnu siðferði eða ímynduðum fjölda samkynhneigðra?Beðið fyrir ófæddum börnum »

12.11.05

  17:44:42, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 987 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju

Ótæk rök fyrir kirkjulegri vígslu samkynhneigðra

Vökull talsmaður margra sem búa við skertan hlut í samfélaginu, séra Toshiki Toma, siglir léttilega fram hjá ótal vandkvæðum þegar hann mælir með kirkjulegri hjónavígslu samkynhneigðra í Morgunblaðinu 22. október. Erfitt á ég með að halda röklegum þræði í lestri greinarinnar, þ.e. að sjá hvernig eitt leiði af öðru eða styðji hvað við annað í þeim efnisbútum sem þar er stillt upp. Stefnan sem einkennir greinina er frjálslyndisguðfræði eða endurskoðunarhyggja í trú og siðfræði (revisionism), eins og nú er kallað. Engar brigður skulu á það bornar, að Toshiki er einlægur og vel meinandi, en það er engin trygging fyrir því að rata á rétta niðurstöðu, og verður hér leitazt við að sanna, að rök hans í greininni standist ekki.

Í stað þess að binda sig við orð Jesú Krists um þann vilja Guðs að stofna til hjúskapar manns og konu leggur Toshiki áherzlu á, að hjónabandið hafi verið "samfélagsleg venja löngu áður en kristin trú og menning kom til sögunnar" og formin verið "mismunandi eftir menningarheimum," t.d. séu "bæði fjölkvæni og einkvæni þekkt". Hverju breytir það um boðun Krists? Er Toshiki að segja, að fyrirmæli Jesú um einkvæni karls og konu lýsi bara skeikulli vitneskju? Jesús kenndi með guðlegu valdi og yfirsýn sem gaf honum rétt og aðstöðu til að tala til allra menningarheima og síðari tíma, umfram allt til kirkju sinnar. Þarf póstmódernísk afstæðishyggja að þrengja svo að kristnum presti á 21. öld, að hann velji að umbreyta Jesú sjálfum í afstæðishyggjumann? Eða á nú að reyna að hafa vit fyrir Kristi?

Eitt eru hæpnar hugleiðingar Toshikis um fjölkvæni, en ennþá skýrar talar hann um "kynjasamsetninguna í hjónabandi" sem "bundna við ákveðinn menningarheim." Toshiki predikar að samkynhneigðir eigi að fá að giftast hverjir öðrum og það í Þjóðkirkjunni. Meginátyllan er sú, að "kennisetning kristninnar er alls ekki óbreytanleg." Sú fullyrðing er bæði rétt og þó fyrst og fremst röng. Boðskapur Krists er sannleikur sem stendur um aldir, þótt hitt sé rétt, að mönnum gengur misvel að skilja hann og túlka, eins og bert er af ósamræmi í trúarsetningum ólíkra safnaða, þó fyrst og fremst um jaðaratriði kristinnar trúar. En engin ástæða er til að misskilja eða afbaka orð Jesú um hjónabandið í þessu samhengi; hér er einnig við postula hans að styðjast.

Þannig kenndi Jesús sjálfur: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: "Fyrir því skal maðurinn yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og þau tvö skulu verða eitt hold"?" (Mt.19.4–6; Mk.10.6–8). Kristur hefur því talað um kynjasamsetningu hjónabandsins og deginum ljósara hver vilji hans var.

Þessi eindregnu fyrirmæli eru forsenda ýmissa ummæla postulanna um hjónabandið (I.Kor.7.2 o.áfr., Ef.5.25 & 31, I.Þess.4.4, I.Pét.3.7). Þar við bætist, að blátt bann Gamla testamentisins (GT) við samförum karls við karl (3.Mós.18.22) er staðfest og ítrekað með notkun áþekkra hugtaka í bréfum Páls postula (I.Kor.6.9–11, I.Tím.1.8–11, sbr. Róm.1). Eins komumst við ekki hjá því að sjá, að í Róm.1.26b er lesbískum kynmökum hafnað.

En Toshiki vill ekki að þetta mál snúist um kennisetningar – "frekar um það hver hefur hugrekki til þess að stíga fram og hvenær til þess að leiða breytingarnar þar [í kristninni] í samræmi við aukinn skilning okkar og þekkingu á manneskjunni og réttindum hennar." – Þetta með hugrekki hinna breytingagjörnu er undarlega mælt í andrúmi pólitísks rétttrúnaðar þar sem fáir hafa þor til að standa gegn ýtrustu réttindakröfum samkynhneigðra. – Með "þekkingu á manneskjunni" á Toshiki sennilega við niðurstöður fræða um rætur og einkenni samkynhneigðar; en ég er hins vegar (eftir að hafa lengi kynnt mér þetta) á sama máli og Dan Browning í Chicago-háskóla: "Kristið fólk, bæði frjálslynt og íhaldsamt, er fáfrótt um vísindarannsóknir á samkynhneigð." Þetta á raunar við um fleiri en þá kristnu!

Aftur að þeim mannréttindum sem Toshiki vísaði til, að við höfum nú "aukinn skilning" á: Er hann ekki að ganga út frá því, sem hann ætti að sanna? Er þetta ekki vítahringur í rökleiðslu, sem margir þekkja undir heitinu 'begging the question'? M.ö.o.: Hann gefur sér, án þess að rökstyðja það, að kirkjuleg vígsla samkynhneigðra sé mannréttindi, og fær út þá niðurstöðu að kirkjunni beri að taka upp hjónavígslu samkynhneigðra!

Í leiðinni slysast hann til að sniðganga boð GT og NT um hjónabandið (opnar jafnvel dyrnar fyrir fjölkvæni) og lokar augunum fyrir ströngum viðvörunum GT og sjálfs kirkjuföður lútherskrar guðfræði, Páls postula, gegn kynmökum fólks af sama kyni. En kristnir menn – og það hlýtur þá líka að ná til Þjóðkirkjunnar – mega ekki óvirða heilaga Ritningu með annarlegri kenningu sem á sér þar alls enga stoð.

Nauðsyn bar til, að einhverju yrði svarað af þeim greinaskrifum sem herja á biblíulega grundvallaða stefnu kirkjunnar. Hitt er engu að síður mikilvægt að við reynum að hjálpa samkynhneigðu fólki af velvild og virðingu og sem mestum skilningi á þeim aðstæðum sem þar er við að glíma. Verður um það fjallað í annarri grein.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 2. nóvember 2005.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software