« Annað lítið dæmi um árvekni Heilags AndaUm hið andlega brúðkaup Krists og sálarinnar »

16.02.06

  10:37:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 399 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Örlítið um handleiðslu Heilags Anda

Hér að framan (í athugasemdum við Tübingenmennina) er minnst lauslega á útgáfu hins Íslenska biblíufélags af Nýja testamentinu frá árinu 1981. Mig langar að koma á framfæri eftirfarandi frásögn sem tengist þessari útgáfu. Frásögnin er falleg og leiðir okkur einfaldlega fyrir sjónir hvernig Heilagur Andi vakir sífellt yfir velferð kirkju sinnar á jörðu.

Það var séra Hreinn Hákonarson sem annaðist lokafrágang verksins og prófarkalestur fyrir prentun, en Biblían var prentuð í Prentsmiðju evrópsku Biblíufélaganna í Stuttgart. Í byrjun janúar 1981 þegar ég kom heim í mat í hádeginu fannst mér ég vera knúinn til að hringja í séra Hrein og bjóða fram aðstoð mína. Hann tjáði mér að verkinu miðaði svo vel áfram að engrar aðstoðar væri þörf, en til öryggis skrifaði hann nafn mitt og símanúmer niður. Á þessum árum vann ég enn við kortagerð, áður en ég lét heillast af hinni himnesku landafræði.

Síðan liðu einir þrír mánuðir án tíðinda. Þá var það þegar ég kom heim í mat, þetta var á mánudegi rétt eftir klukkan tólf, að síminn hringdi í sama mund og ég kom inn úr dyrunum. Þetta var séra Hreinn. Hann tjáði mér að nú hafði aldeilis horfið til verri vegar. Biblíufélagið hefði átt von á kortapakka frá United Bible Societies, en hann hefði týnst á leiðinni. Þeir hjá Flugleiðum í New York væru búnir að leita að honum dyrum og dyngjum, en hann væri einfaldlega týndur. Nú steðjaði mikill vandi að höndum því að Biblían ætti að fara í prentun á laugardagsmorguninn og ef þetta drægist á langinn, yrði ekki unnt að prenta hana fyrr en að ári liðnu sökum anna í prenstmiðjunni.

Í sem fæstum orðum unnum við eins og „óðir menn“ við að teikna kortin dag og nótt. Ég sá um teikningarnar, séra Hreinn um prófarkalesturinn og prentsmiðurinn beið síðan og tók prentfilmurnar jafnskjótt og kortin komu úr prófarkalestrinum. Þau voru tilbúin á hádegi á föstudegi!

Dýrð sé þér Drottinn í kirkju þinni, ásamt Föðurnum og Heilögum Anda að eilífu.

No feedback yet