Inntak lífsverndarstefnunnar – eftir föður Paul Marx, O.S.B. »

20.04.13

  12:20:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 420 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Orígen (um 185-253), prestur og guðfræðingur: Hugleiðing

„Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra,  svo að Faðirinn vegsamist í Syninum.“

Orígen (um 185-253), prestur og guðfræðingur.

Ég tel að sá sem er í þann veginn að hefja bænina ætti að fara afsíðis og undirbúa sjálfan sig og þannig verða árvökulli og virkari í allri bæninni. Hann ætti að hrekja allar freistingar og truflandi hugsanir frá sér og minna sjálfan sig eftir fremsta kosti á þá Hátign sem hann nálgast og það sé óguðrækilegt að nálgast hann af hirðuleysi, seinlæti og virðingarleysi. Hann ætti að snúa baki við öllu hið ytra. 

Origen, prestur og guðfræðingur
Þannig ætti hann að hefja bænina: Að hefja sálina til hæða líkt og um hendur hans væri að ræða og beina huga sínum til Guðs í stað augnanna. Hann ætti að hefja skilning sinn frá jörðu og láta hann standa frammi fyrir Drottni í stað þess að standa þar sjálfur. Hann ætti að láta allar misgjörðir þeirra sem gert hafa á hlut hans vera fjarri, með sama hætti og hann vill að Guð víki frá honum allri vanþóknun hans í garð, ef hann hefur drýgt óréttlæti og syndgað gegn náungum sínum eða gert eitthvað með meðvituðum hætti sem stangast á við rétta dómgreind. 

Þótt unnt sé að láta líkamann vera í mörgum stöðum, þá ætti hann ekki að draga í efa að sú staða að hefja hendurnar og augun til himins sé æskilegri en allar aðrar vegna þess að þannig verður líkaminn tákn um það sem er sálinni við hæfi sem sjá má á líkamanum. Ég á við að þessa stöðu ber að tileinka sér og þannig útiloka öll truflandi áhrif umhverfisins. Stundum er við hæfi að biðja sitjandi við ákveðnar aðstæður . . . eða jafnvel að leggjast niður . . . 

Að krjúpa er nauðsynlegt þegar einhver ætlar að mæla gegn syndum sínum frammi fyrir Guði vegna þess að hann beygir sig til að öðlast græðslu og fyrirgefningu. Okkur verður að vera ljóst að þetta táknar þann sem hefur hrasað og er orðinn hlýðinn, eins og Páll segir: „Þess vegna beygi ég kné mín fyrir Föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu“ (Ef 3. 14-15). Þetta er kallað andleg knébeygja vegna þess að sérhver vera sem er til á að falla fram fyrir Guði þegar nafn Jesú er nefnt og auðmýkja sig fyrir honum. Postulinn virðist víkja að þessu þegar hann segir: „Til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði Föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn“ (Fl. 2. 10).

(Bænir 31. 2-3 (Classics of Western Spirituality).

No feedback yet