« Sigurviss bæn fyrir ófæddumÍ sjálfsvald sett – eða undir leiðsögn Drottins? »

12.03.06

  19:44:28, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 984 orð  
Flokkur: Trúarbrögð í innbyrðis samskiptum og við veröldina

Óráðsstefna danskra 'tjáningarfrelsismanna'

Grein birt í Morgunblaðinu 12. febrúar 2006

Göran Persson, forsætisráðherra Svía, sýndi hyggindi og gætni fyrir hönd þjóðar sinnar með því að kalla sendiherra múslimaríkja til fundar við sig, lýsa velvild sinni og virðingu og þvo hendur Svía af strákapörum danska Jótlandspóstsins og kristna blaðsins Magazinet í Noregi. Þetta gerði hann á sama tíma og hægrimaðurinn óvarkári Anders Fogh Rasmussen neitaði að þiggja boð sendiherra sömu ríkja um fund til að ræða málið – "tjáningarfrelsið" væri ekki til umræðu! En Anders ætti ekki einungis að halda fund, heldur láta í snatri semja frumvarp til laga sem banni heimskuleg uppátæki sem ögra trúartilfinningu margra múslima – hvað sem "hefðum okkar í skopmyndagerð" líður.

Halda mætti, að danski forsætisráðherrann hafi verið með óráði að vilja ekki biðjast afsökunar á ögrun Jótlandspóstsins. Mörg evrópsk blöð vega reyndar í sama knérunn, sbr. France Soir með fjölda slíkra mynda, og þó eru múslimir 6 milljónir á franskri grund og engin vitglóra í því að æsa suma þeirra upp á móti sér. Ritstjóri Die Welt gekk svo langt að réttlæta eigin birtingu á myndinni með því, að "rétturinn til guðlasts" væri hluti af vestrænu lýðræði! (Mbl. 2/2). Það er þó í engu samræmi við vestræna lagahefð, þ.m.t. íslenzka allt frá þjóðveldisöld.

Nú heyrast jafnvel raddir um að birta beri mynd þessa í öllum íslenzkum fjölmiðlum, en það væri hið mesta ábyrgðarleysi. Sú yfirlýsing var til fyrirmyndar hjá Sigmundi Erni Rúnarssyni, að NFS-stöðin myndi ekki birta þessi þarflausu, ögrandi 'gamanmál'. Aðrir tala um að "við eigum að kaupa danskt," og Danir sjálfir berja sér sumir hverjir á brjóst og tala um að sniðganga vörur frá Arabalöndunum, brenna jafnvel Kóraninn á Ráðhústorginu! Það var nú mest í nösunum á þeim, því að enginn mætti svo á torgið, þegar stóð! Hverjum halda menn að yrði mest ágengt í því hatursbáli sem upp af þessu gæti risið? Ímynda særðir Danir sér, að þeir geti launað fyrir sig í sömu mynt í Arabalöndunum og setið síðan sáttir að kalla?

Umburðarleysi múslima eða viðkvæmni í þessum málum er kunnara en frá þurfi að segja, en sú ákvörðun danskra stjórnvalda að telja sig ekki þurfa að biðjast afsökunar á myndbirtingunni er algert ábyrgðarleysi sem nú kemur þeim sjálfum í koll, þegar eldur er lagður í norræn sendiráð í Miðausturlöndum og vígasveitir hafa í hótunum við Dani.

Sumir telja þó Dani vel mega launa fyrir sig, eftir að krossfáni þeirra hefur verið brenndur, 1000 störf glötuð, 23 milljarðar danskra króna í útflutningstekjur farnar í súginn, menn þeirra hraktir úr Arabalöndum o.s.frv. Menn geta hugsað þetta þannig, ef þeir setja sér Dani fyrir sjónir sem einn þjóðarlíkama sem geri bara það sem hann lystir á markaðstorgi hins algera frelsis – til skoðanaskipta og athafna, vöruvals í verzlunum, framkomu gagnvart múslimum o.s.frv. og umfram allt til tjáningarfrelsis. Menn geta sagt, að þetta sé sanngjarn krókur á móti bragði. Ef hinir, hátt á annan milljarð múslima, svara fimm milljóna smáþjóðinni með algeru verzlunar- og viðskiptabanni, þá geta sömu menn síðan setzt niður og reynt að kannast við þau viðbrögð sem eðlilegt pendúlslögmál þessa markaðar skoðanaskipta og endurgjalds 'í fríðu'. Þannig geta menn þá reynt að réttlæta fyrir sjálfum sér framkomu Jótlandspóstsins, ef þeir meðtaka afleiðingar hennar. En vel að merkja kemur ritstjórn blaðsins ekki til með að taka ábyrgðina á því, ef dönsku blóði verður úthellt, sem allt eins getur átt sér stað austur í Indónesíu eins og í Marokkó, Nígeríu eða Kaupmannahöfn. Við getum ekki, lítandi á ástandið eins og það raunverulega er, hugsað bara um rétt Dana þarna sem þjóðarheildar né einstaklinga til tjáningarfrelsis til hvers sem er, því að með léttúðugri, ögrandi framkomu sérlundaðs og trúlega guðsafneitandi ritstjóra í hættulegum heimi er verið að stefna mannslífum saklausra einstaklinga í voða. Það eru engin stjórnmálaleg hyggindi að horfa fram hjá því, hve langt margir öfgamenn islamista eru reiðubúnir að ganga, sé þeim ögrað. En kannski sumir öfgahægrimenn (ég er ekki að tala um ráðamenn) horfi beinlínis opnum augum fram á þann fórnarkostnað margra Evrópuþjóða, en yppti öxlum og séu einmitt að leita sér að tilefni til að láta sverfa til stáls við múslimi og reka a.m.k. alla, sem ekki eru þegar orðnir evrópskir ríkisborgarar, á brott úr álfunni. Það væru þá stjórnmálarefjar í ætt við það sem nazistar tíðkuðu í sókn sinni eftir yfirráðum í Weimarlýðveldinu.

En múslimum mun halda áfram að fjölga hér í álfu, og meðan Evrópu-þjóðirnar þrjózkast við að viðurkenna eigin sjálfsútþurrkunarstefnu með allt of fáum fæðingum og óheftri flóðbylgju fósturvíga, í andstöðu við kristna trú og siðferði, þá verður fátt til bjargar gömlu kristnu Evrópu frá þeim örlagadómi sem yfir henni hvílir, áður en öld þessi rennur skeið sitt á enda.

orðið sem smellt er á

Rúv og Stöð 2 í gær og í Mbl. í dagVændi á Íslandi? Nei takk!
Ágúst Ólafur Ágústsson (einnig HÉR)

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution CMS