Langafasta stendur yfir, það er tími sjálfsafneitunar, ef vel á að vera, og ekki aðeins í mat og drykk. Gjafmildi er þörf, og lestur í Ritningunni og guðrækileg íhugun gagnast opnum huga.
Hér er birtur í fyrsta sinn á netinu fallegur sálmur Guðbrands Jónssonar, rithöfundar og prófessors að nafnbót, en hann var sonur Jóns Þorkelssonar, magisters, dr. í ísl. fræðum, þjóðskjalavarðar (skáldsins Fornólfs), merkra ætta, og faðir Loga lögfræðings, fyrrv. frkvstj. St Jósefsspítala í Landakoti.
Guðbrandur var mikilvirkur rithöfundur og annálaður essayisti og hélt oft útvarpserindi um ferðir sínar og hugðarefni, og eru til allnokkur greinasöfn hans á bókum, t.d. Gyðingurinn gangandi, Að utan og sunnan og Sjö dauðasyndir. Ennfremur er hann höfundur mikillar ævisögu Jóns biskups Arasonar, sem út kom hjá Hlaðbúð á fjögurra alda ártíð herra Jóns og sona hans Ara og Björns, sem allir Íslendingar eru komnir af, en Guðbrandur var kaþólskur.
Mun fleira mætti skrifa um Guðbrand, sem var vel þekktur maður á sinni tíð, en vindum okkur að sálminum, sem er þýddur (frumhöfundur H. Vejser), en vel gerður og kom höf. þessara lína á óvart þennan sunnudag, því að fyrr hafði ég ekki séð kveðskap eftir Guðbrand, en sunginn er hann við fallegt lag:
Guðs lýður, krossins tak þú tré
trútt þér á herðar, þótt hann sé
þungur að bera, þessi raun
þiggur margföld og eilíf laun.
Í laun þér veitist vegsemd ein,
að verða´ að Kristí lærisvein;
speki og þróttur vaxa víst,
veita mun þér af slíku sízt.
Tak þér á herðar Herrans kross,
hljóta munt þá hið æðsta hnoss:
félag og sæta samanvist
sífellt við Drottin Jesúm Krist.
Hún var falleg athöfnin þennan nýliðna þriðjudag, þegar 16 kaþólskir prestar á Íslandi með biskupinn þann sautjánda héldu hátíðlega messu í basilikunni, eins og Kristskirkja er einnig kölluð, eftir að Jóhannes Páll II páfi útnefndi hana sem slíka í heimsókn sinni hingað, og er það virðingarnafn meiri háttar kirkna. Kirkjugestir, aðrir en prestarnir, voru a.m.k. 45, mikill meirihluti leikmenn, en einnig allmargar reglusystur.
Þetta var falleg athöfn, með biskupinn okkar góða sem aðal-celebrant (þ.e. þann sem leiðir altaris- og helgiþjónustuna), en séra Edward Booth, enski presturinn í Stykkishólmi, predikaði og sagði m.a. frá heil. Tómasi af Aquino. Predikun hans mun verða aðgengileg í íslenzkri þýðingu von bráðar.
En messan var í tengslum við reglulegan synodus (prestafund) kaþólska biskupsdæmisins, sem fram hefur farið þessa daga.
Næsta sunnudag er kyndilmessa, ein af hinum aldagömlu Maríumessum ársins. Allir fá kerti í hönd við komuna í kirkju, og það er falleg stund í samfélagi trúaðra þegar ljósin eru tendruð. Einnig er fólk hvatt til þess að taka með sér kerti til að fá þau blessuð, til notkunar heima, og eins lét sóknarpresturinn séra Patrick vita af því við messu sl. sunnudag, að kirkjan þiggi kertagjafir frá fólki til notkunar í þjónustunni.
Það var fögur og hrífandi stund í dómkirkju Krists konungs í gær, þegar í helgigöngu presta og leikmanna var borin inn ný Messubók kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, raunar sú eina í fullkominni mynd, og lögð á altarið. Biskup okkar, Pétur Bürcher, stýrði athöfninni og sjálfur forseti Íslands viðstaddur, einnig megnið af prestum biskupsdæmisins, enda eru þeir með synodus þessa dagana. Biskupinn, séra Jakob Rolland og séra Patrick Breen fluttu ávörp, og fagurlega spilaði kaþólsk nunna á fiðlu – og systurnar sungu fagra hymna, síðast Regina Coeli (Himnadrottningin) sem margir tóku undir.
Meðal þess, sem séra Jakob vék að í ávarpi sínu, var hin gleðilega fjölgun kaþólskra hér á landi, en tala þeirra hefur ... [frh. neðar]
Í nýrri Kilju Egils Helgasonar, endursýndri í gær, átti hann mjög gott viðtal við dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, sem staðið hefur fyrir víðtækum uppgreftri rústa Skriðuklausturs á Austurlandi, fyrsta heildar-uppgreftri klausturs á Norðurlöndum. Vegna þess að klaustrinu og hjúkrunar-húsnæði þess var einfaldlega lokað með siðaskiptunum og ábúendur á jörðinni (oft sýslumenn) tóku sér búsetu í bæjarhúsunum þar, þá hefur húsaskipan þarna, þótt grotnað hafi niður, varðveitzt í óbreyttri mynd að öðru leyti en því, hvernig náttúran braut þetta niður.
Konungur lagði undir sig þessa klausturjörð eins og allar aðrar, ...
HÉR má sjá athöfn sem fer fram árlega á skírdag í Vatíkaninu og allvíða í kaþólskum kirkjum: þvegnir fætur manna, gjarnan af biskupi og í þessu tilfelli af páfanum sjálfum, Benedikt 15, sem er nýkominn heim úr vel heppnaðri ferð til Mexíkó og Kúbu, en hann verður hálfníræður 16. þessa mánaðar. Þessi árlega athöfn er í minningu þess, að Jesús þvoði fætur lærisveinanna á skírdagskvöld, daginn fyrir krossfestingu sína.
Togstreitu milli fjárframlaga til kirkna og til fátækramála verður oft vart. En rétt eins og menn geta sannarlega eytt fé sínu til áhugamála, félagasamtaka, íþróttaiðkunar, menningarmála og uppbyggingar á slíkum vettvangi – oft jafnvel af skattfé allra, þannig er ekkert fremur hægt að amast við frjálsum framlögum manna til byggingar dómkirkju eins og til dæmis þessarar nýendurreistu í Izhevsk í Udmurtíu austur við Úralfjöll. Kirkjuhúsin eru til þess að halda utan um hina trúuðu og iðkun trúar, þar nærist hún, tjáir sig og byggist upp til að geta gefið af sér, fyrst í fjölskyldunni, en einnig út til náungans.
24. júlí 1896: "Nunnur komu til landsins, í fyrsta skipti síðan fyrir siðaskipti. Þær voru fjórar og settust hér að til að annast hjúkrun og vitja sjúkra. Þetta var upphaf starfs St. Jósefssystra í Reykjavík og Hafnarfirði."
Þetta gerðist 22. júlí 1929: "Landakotskirkja í Reykjavík var vígð með mikilli viðhöfn, en það gerði Vilhjálmur van Rossum kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa.
Síðustu athugasemdir