« RUE DU BAC Í PARÍS 1830: OPINBERUN ALDARSKEIÐS HINNA TVEGGJA HJARTNA (2)Upphaf opinberananna í Medjugorje »

29.12.06

  05:56:52, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4050 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

TEPEYACHÆÐIN Í MEXÍKÓ 1531: MÓÐIR NÝRRAR HEIMSSKIPUNAR (1)

Guadalupe

Það var í hinu blóðþyrsta ríki asteka sem Guðsmóðirin birtist í desember árið 1531 sem boðberi nýrrar heimsskipunar. Þetta var í Tlaltelco, örskammt frá sjálfri höfuðborginni Tenohtitlan (síðar Mexíkóborg), þar sem prestar hins heiðna siðar vígðu hof helgað stríðs- og sólguðinum Huizilopochtli árið 1487 eða einungis fimm árum áður en Spánverjar komu til Nýja heimsins. Við víglu musterisins skipaði astekakeisarinna Auitzotl að 20.000 stríðsföngum væri fórnað goðinu til heiðurs á einum og sama degi. Fórnardýrið var lagt á stein og hjartað rifið úr því lifandi. Þetta var alsiða þegar hof voru vígð. Eitt slíkt hof stóð á Teypeyachæðinni sem helgað var steinhöggorminum mikla Quetzalcoatl.

Það var einmitt fram hjá þessari rúmlega fjörutíu metra háu hæð sem hinn 57 ára gamli nahuatl indíáni Syngjandi örn lagði leið sína til kirkju fransiskanatrúboðanna í Tlaltelolco einn kaldann vetrarmorgunn í þessum desembermánuði. Hann var í hópi þeirra fyrstu sem tóku hina nýju trú ásamt fósturföður sínum sjö árum áður þegar Spánverjar lögðu landið undir sig. Þeir fósturfeðgarnir fengu nöfnin Juan Diego og Juan Bernardino við skírnina.

Þegar hann nálgaðist hæðina þennan hryssingkalda laugardagsmorgunn þann 9. desember árið 1531 nam hann staðar þegar honum barst það sem hann taldi vera fuglasöngur til eyrna, sem var óhugsandi á þessum tíma árs. Skyndilega sá hann ljómandi ský sem huldi hæðina og heyrði þýða kvenrödd kalla til sín: „Juan! Juan Diego! Junaito! Juan Diequito!“ Hver sem hún svo var, þá varð hann að klífa hæðina og þar sá hann mexíkanska stúlku, um það vil fjórtán ára gamla og einstaklega fríða sýnum. Klæði hennar voru undursamlega fögur og ljóma stafaði frá henni. Stúlkan ávarpaði hann á hans eigin mállýsku: „Nopiltzin, campa tiauh? - Juan, minnsta og ásfólgnast barna minna! Hvert ert þú að fara?“ Juan svaraði: „Frú mín og barn, ég er að fara í messu í Tlalteolco og hlýða á útlistun guðspjallanna.“ Stúlkan svaraði:

Kæri litli sonur. Ég elska þig og vil að þér sé ljóst hver ég er. Ég er María ætíð mey, móðir hins sanna Guðs sem veitir líf og viðheldur því. Hann er skapari allra hluta. Hann er alls staðar. Hann er Drottinn himins og jarðar. Ég vil að teocali (musteri eða kirkja) verði reist hér þar sem ég ætla að auðsýna þjóð þinni og öllum þeim sem leita ásjár minnar af einlægni miskunn mína í verkum þeirra og sorgum. Hérna vil ég sjá tár þeirra. Ég mun hugga þá og þeir munu öðlast huggun. Farðu nú til Tenochtitlán (Mexíkóborgar) og segðu hans hágöfgi byskupinum frá öllu sem borði hefur fyrir þig.

TIL FUNDAR VIÐ BYSKUPINN

Nú hófst atburðarás sem er einstæð í sögum kirkjunnar. Juan varð þegar í stað við bón Guðsmóðurinnar og fór til Tenochtitlán til fundar við byskupinn sem gekk ekki þrautalaust fyrir sig vegna þess að hann tilheyrði óæðri stétt asteka. Að lokinni langri bið auðnaðist honum loks að ná fundum Juan de Zumárraga byskups sem tók honum ekki óvinsamlega og hlýddi af alúð á frásögn hans og auðmýkt indíanans snart hann djúpt og hann lauk viðtalinum með því að heita því að íhuga atburðin og Juan væri heimilt að koma hvenær sem væri að nýju til að ræða betur þennan boðskap „Nuestra Señora.“

Þreyttur og hungraður snéri Juan Diego heim þetta kvöld og þegar hann kom að Tepeyachæðinni varð hann þess áskynja að hin blessaða Mey beið hans þar í kvöldhúminu. Juan kraup niður frammi fyrir henni og greindi henni frá viðbrögðum byskupsins. Hin blessaða Mey sagði við hann: „Hlustaðu litli sonur. Ég gæti sent fjölmarga. En þú ert sá sem ég hef útvalið til að gegna þessu hlutverki. Farðu því í fyrramálið aftur til byskupsins. Segðu honum að það sé hin blessaða Mey sem hafi sent þig og endurtaktu þá ósk mína, að ég þrái að kirkja verði reist á þessum stað.“

BYSKUPINN BIÐUR UM TÁKN

Í bítíð næsta morgun hraðaði Juan Diego sér til Tlaltelolco til að hlýða á messu hjá franciskanatrúboðunum og að messu lokinni hélt hann þegar til byskupssetursins. Byskupinn varð undrandi að sjá hann svo skjótt aftur en hlustaði þolinmóður á frásögn hans og tók að sannfærast um að eitthvað mikilvægt gæti falist að baki frásagnar þessa einfalda indíána. Að lokum varpaði byskupinn fram þeirri hugmynd að Juan gæti beðið hina blessuðu Mey um tákn sem sanna myndi að það væri í raun og veru hún sem stæði þessu öllu að baki. Enn snéri Juan beint til hæðarinnar og kraup niður frammi fyrir Guðsmóðurinni og greindi henni frá því að byskupinn hefði krafist einhvers tákns af hennar hendi. Guðsmóðurin svaraði: „Allt í lagi, litli sonur. Komdu aftur í dagrenningu. Ég mun gefa þér tákn honum til handa. Þú hefur þegar lagt á þig mikla fyrirhöfn fyrir mínar sakir og ég mun launa þér. Farðu í friði.“

FÓSTURFAÐIR JUANS ALVARLEGA SJÚKUR

Samtímis þessu veiktist fósturfaðir Juans af illkynja hitasótt, þannig að hann mætti ekki á umsömdum tíma á þessum mánudagsmorgni, heldur varði hann tímanum til að hlúa að frænda sínum. Á þriðjudagsmorgni varð Juan ljóst að hverju stemmdi og sannfærðist um að frændi hans myndi ekki lifa þennan dag að kveldi. Það eina sem hann gat eins og nú var komið var að hlaupa til Tlaltelolco til að sækja prest til að veita frænda sínum smurnarsakramentið. Hann ákvað að fara nú austanmegin við Tepeyachæðina til að forðast Guðsmóðurina sem hafði kallað til hans frá vesturhlíð hæðrarinnar. En þetta bar engan árangur! Hún varð þegar í stað áskynja um ferða hans og innti hann eftir því hvað um væri að vera: „Fyrirgefðu mér! Frændi minn er að deyja úr hitasótt og bað mig um að sækja prest til að veita sér hinstu smurningu. Loforð það sem ég gaf þér um að hitta þig hér í gærmorgun og færa byskupinum táknið var ekki innantóm orð, en frændi minn veiktist.“ Hin sæla Guðsmóðurin svaraði:

Litli sonur minn. Þú skalt hvorki vera áhyggjufullur eða óttasleginn. Er það ekki ég sem stend hér sem er móðir þín? Ert þú ekki í skugga verndarhjúps míns? Frændi þinn mun ekki deyja núna. Á þessu andartaki hefur hann læknast til fulls. Þú þarft því ekki að sinna erindi þínu lengur og getur því sinnt mínu í friði. Farðu upp á hæðina og taktu blómin sem eru þar og færðu mér.

TÁKN HINNAR BLESSUÐU MEYJAR: KASTALÍURÓSIRNAR

Til samræmis við náttúrulögmálin gátu engar jurtir staðið í blóma á þessum tíma árs. Þegar Juan fikraði sig upp hæðina, þá blöstu við sjónum hans Kastalíurósir í freðinni moldinni og daggardropar drupu af blöðum þeirra og besta aðferðin til að varðveita þær í þessum hryssingskulda var að sveipa þær í „tilma“ sínu – síðri sláarkápu sem astekar báru og bundu iðulega um háls sér til burðar. Og það var einmitt þetta sem Juan gerði á þessu andartaki. Þegar hann snéri að nýju til Guðsmóðurinnar, þá var hún ekki alls kostar ánægð með það hvernig hann hafði komið þeim fyrir í sláarfaldinum. Hún raðaði þeim umhyggjusamlega í vönd og batt síðan neðri sláarhornin á „tilma“ Juans um háls honum. Að þessu loknu sagði hún við hann: „Þú sérð, litli sonur, þetta er táknið sem ég sendi byskupinum. Segðu honum að nú hafi hann fengið táknið um að hann eigi að reisa kapelluna sem ég óska mér á þessum stað. Láttu engan sjá það sem þú berð nema hann. Haltu um slána þar til þú hefur náð fundum hans og sagt honum, hvernig ég hindraði för þína þegar þú varst að sækja prestinn til að veita frænda þínum hina hinstu smurningu og fullvissaði þig um að hann hefði öðlast heilsu að nýju og hvernig ég sendi þig til að týna rósirnar og hvernig ég raðaði þeim að nýju með þessum hætti. Minnstu þess, litli sonur, að þú ert minn trúfasti sendiherra og nú mun byskupinn trúa öllu því sem þú greinir honum frá.“

KRAFTAVERKIÐ

Við sjáum Juan Diego fyrir okkur sem lifandi sáttmálsörk þar sem hann hraðaði sér til seturs byskupsins, eins og hin blessaða Mey hraðaði sér til fundar við Elísabetu mágkonu sína um fjallendi Júdeu forðum daga og bar skrúðblóm skauts síns til Elísabetar, hinn ljúfa ilm endurlausnarinnar, sem nú lék um hina grófu þræði í tilma Juans og barst út til sköpunarinnar. Þjónar byskupsins urðu einnig furðu lostnir þegar Juan kom til biskupssetursins og gátu vart trúað sínum eigin augum. Nú voru einnig nokkrir af nánustu samstarfsmönnum byskupsins viðstaddir og forvitnir að sjá þennan sjánda sem byskupinn hafði greint þeim frá.

Túlkur biskupsins, Juan Gonzáles,þýddi það sem Juan hafði að segja um atburðina á Teypeyachæðinni orð fyrir orð. Síðan leysti Juan Diego slána og blómin féllu í hrúgu á gólfið. Byskupinn hafði risið á fætur og allir viðstaddra þustu fram til að sjá þetta undur. Það var einmitt á þessu andartaki sem Juan varð ljóst að athygli allra beindust að honum en ekki blómunum. Sjálfur byskupinn og allir viðstaddra – meðal þeirra hinn nýskipaði landstjóri Mexíkó – féllu á kné sér í lotningu frammi fyrir þeirri undursamlegu mynd sem nú birtist á tilma Juans þegar sláin féll honum að fótum. Það sem Juna hafði sjálfur séð með eigin augum á hæðinni var nú greipt í allri sinnu undursamlegu fegurð á tilma hans.

Juan Diego leit sjálfur furðu lostinn á þessa undursamlegu ímynd sjálfrar Guðsmóðurinnar eins og hún hafði birst honum á Teypeyachæðinni, mynd sem má sjá enn í dag 450 árum síðar fyrir ofan háaltari Nýju kirkjunnar í Guadalupe í Mexíkóborg á tveimur grófofnum klæðisbútum sem unnir voru úr magueyjurtinni og mælast vera 160 x 100 sentímetrar. Þessi kirkja hefur orðið að fjölsóttasta pílagrímastað heimsins sem dregur til sín 20 milljónir pílagríma árlega. Það sem blasti við sjónum Juan de Zumárraga byskups var mynd hinnar blessuðu Meyjar sem umvafin er gullnum ljóma sem kemur úr hjúpi sem umlykur hana eins og skel (mandala). Hún lítur höfði aðein til hægri og augun beinast niður á við og greina má augnasteinana. Skykkjan sem hylur höfðuð Guðsmóðurinnar og nær allt til fóta er grænblá að lit með bryddingum úr skíra gulli prýddum gullnum stjörnum. Sjálfur kyrtillinn er rósrauður að lit ívafinn einstaklega fögru blómamynstri. Undir fótum hinnar blessuðu meyjar má sjá vaxandi hálfmána sem kerafi eða serafi heldur uppi, augljóslega í gleðihrifum.

FRÉTTIRNAR BREIÐAST ÚT

Fréttin af þessum atburði breiddist eins og eldur í sinu um alla borgina og næsta morgunn var helgimyndin borin í skrúðgöngu til dómkirkjunnar af fagnandi manngrúanum. Um hádegisbilið fór byskupinn ásamt fylgdarliði sínu og Juan Diego til Teypeyachhæðarinnar og byskupinn ákvað þegar í stað að láta reisa þar kapellu til bráðabirgðar. Að þessu loknu bað Juan leyfis að fara heim vegna þess að honum var mikið í mun að sjá frænda sinn. Leyfið var fúslega veitt enn byskupinn krafðist þess að Juan yrði veitt heiðursfylgd til Tolpetlac, heimaþorps Juans. Þegar þangað kom þyrptust þorpsbúar að þegar þeir sáum slíka virðngarmenn birtast í þorpinu sem var fágæt sjón. Juan gladdist mjög þegar hann sá að frændi hans var kominn til fullrar heilsu að nýju og þegar hann greindi honum frá því sem borði hafði að höndum kom það gamla manninum ekki á óvart.

FRÁSÖGN JUAN BERNADINO

Eftir að frændi hans var horfinn á braut til þess að ná í prestinn var svo mjög dregið af Juan Bernadino að hann gati ekki komið jurtaseyðinu niður sem frændi hans hafði lagað fyrir hann og Juan Bernadino fann að hin hinsta stund nálgaðist. Skyndilega fylltist kofinn ljósi og forkunnarfögur kona birtist honum ljómandi af gæsku. Hann fann hvernig hitinn hvarf eins og dögg fyrir sólu og þegar hann skreiddist fram úr fleti sínu féll hann þessari himnesku sýn til fóta. Konan greindi honum frá því hvað hafði borið fyrir frænda hans og sagði: „Nefndu mig og ímynd mína Santa María de Guadalupe.“ Síðan hvarf hún honum sjónum. Þetta var fimmta opinberun Guðsmóðurinnar í Nýja heiminum.

MISSKILNINGUR SPÆNSKA TÚLKSINS

Juan de Zumárraga byskup varð undrandi þegar túlkur hans færði honum þessar fréttir þar sem nafnið Guadalupe stóð ekki í neinu beinu sambandi við Mexíkó fyrir utan þá staðreynd, að Kristófer Kolumbus hafði beðið á þessum fjarlæga pílagrímastað Maríu Guðsmóður áður en hann lagði upp í hina sögufrægu sjóferð sína.

Ástæðan sem lá þessu heiti að baki fólst í því að spánski túlkurinn hafði misskilið orðið „tecoatlaxopeuth“ á indíánamállýskunni, en á henni þýðir te „steinn,“ coa „dreki,“ tla ákveðna greini nafnorðsins og xopeuth að „troða undir fótum“ eða „merja.“ Guðsmóðurin var að gefa til kynna að hún myndi kremja höfuð astekagoðanna undir fótum sér, en skelfilegastur þeirra var hinn fiðraði höggormur Quetzalcoatl sem krafðist árlega mikilla mannfórna. Hún var að leggja áherslu á spádóm sjálfra Ritninganna: „Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Þú skalt merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess“ (1M 3. 15).

Það er þessi höggormur sem er nefndur Satan í Opinberunarbókinni, „þessi gamli höggormur, sem er djöfull og Satan“ (Opb 20. 2). Þetta var skiljanlegt vegna þess að á mállýsku indíána eru hvorki unnt að finna hljótáknin G eða D fremur en R. Þegar spænski túlkurinn heyrði Juan Bernadino bera fram orðið „tecoatlaxopeuth,“ þá hljómaði það í hans eyru sem Guatlashupe.

MÓÐIR IPALNEMOHUAMANI (ÞESS SEM VEITIR EILÍFT LÍF)

Þegar Guðsmóðurin kynnti sig í fyrstu opinberuninni á Tepeyachæðinni sem „móðir hins sanna Guðs sem veitir líf og viðheldur því“ skírskotaði hún til atviks sem höfðaði mjög til astekanna og átt hafði sér stað 100 árum áður þegar astekakonungurinn Texoco lét reisa turn sem hann helgaði hinum „ókunna guði, skapara allra hluta og verndara alls lífs,“ guði sem bar enga mynd og nefndur var Ipalnemohuamani, „honum sem veitir öllu líf.“ Hin sæla Guðsmóðir opinberaði sig sem móður þessa guðs astekanna. Þetta hafði gífurleg áhrif: Á sjö ára tímabili frá 1532-38 meðtóku 8 milljónir asteka skírn. Bróðir Toribo de Benavento greindi meðal annars frá því að á fimm dögum hefðu 14.500 indíánar komið til trúboðsstöðvar hans til að meðtaka hina helgu smurningu.

FYRSTA OPINBERUN NÝRRAR HEIMSSKIPUNAR HINS ALHELGA HJARTA JESÚ OG HINS FLEKKLAUA HJARTA MARÍU

Í Mexíkó stóðu tvær fjandsamlega fylkingar manna andspænis hvor annarri: Óvígur her spænsku landvinningamannanna annars vegar og hins vegar fjölmennar hersveitir blóðþyrstra astekanna. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef til lokaorrustunnar hefði komið: Spánverjarnir hefðu gengið milli bols og höfuðs á astekunum. Þetta voru grófgerðir og ruddafengnir landvinningamenn sem svifust einskis í taumlausri græðgi sinni eftir gulli. En þegar fréttirnar af þessu mikla kraftaverki tóku að berast út féllu þessir vígreifu konkvistadorar til fóta Drottni sínum og lögðu sverðin til hliðar.

Þetta er í fyrsta skiptið í mannkynssögunni sem Guðsmóðurin opinberaði hina nýju heimsskipun hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa Hjarta Maríu sem að lokum mun leggja Satan að velli, staðreynd sem er í fyllsta samræmi við opinberanir hennar í Gamla heiminum sem hófust í Rue de Bac í París árið 1830, upphaf þess sem guðfræðingar hafa nefnt aldursskeið hinna tveggja hjartna: Hins Alhelga hjarta Jesú og hins Flekklausa hjarta Maríu. Opinberunin í Mexíkó talar því einnig til okkar nútímamanna þar sem dauðamenning veraldarhyggjunnar fer hamförum um heimsbyggðina og virðist verða á góðri leið með að ganga af kristindóminum dauðum í taumlausri græðgi sinni eftir efnislegum gæðum.

Face_of_virgin

LEYNDARDÓMUR TILMA JUAN DIEGO

Vísindamenn hafa rannsakað „tilma“ Juan Diego ítarlega. Ending „ayate“ trefja er talin vera í hæsta lagi 20 ár, en það voru þær sem voru notaðar þegar kápan var ofin. Þrátt fyrir þessa staðreynd hefur klæðið varðveist í 450 ár. Í eitt hundrað ár hékk klæðið óvarið í röku loftinu yfir altari kirkjunnar í Tepeyac yfir kertum sem ósuðu hundruðum saman. Ótaldar hendur hinna trúðuð hafa farið um það höndum og árið 1921 sprakk öflug sprengja beint undir því og þrátt fyrir þetta hefur klæðið varðveist fullkomlega.

Öllum þeim sem rannsakað hafa klæðið með vísindalegum aðferðum ber saman hvað varðar þessa einstæðu eiginleika þess sem rennir stoðum undir hinn himneska uppruna þess. Síðari tíma rannsóknir hafa einungis rennt enn frekari stoðum undir þessa staðreynd. Einhver athyglisverðustu niðurstöðurnar eru þær sem Dr. Charles Wahlig, sjónfræðingur og einn helsti sérfræðingana um Gadalupe, komst að raun um, sem grundvallast á lögmálum mannsaugans. Þegar sjáöldur Guðsmóðurinnar á klæðinu eru stækkuð, þá má greina þá menn sem voru viðstaddir á byskupssetrinu í Tenohtitlán á því andartaki sem myndin varð til.

Prófessor Philip Callahan, lífeðlisfræðingu frá Háskólanum í Flórída, rannsakaði hið helga klæði í maímánuði árið 1979 með infra-rauðri ljósmyndatækni, aðferð þar sem greina má allar viðgerðir, yfirrmálningu og jafnvel frumdrög listamanna. Í skýrslu sinni komst hann svo að orði: „Rannsóknin á helgimyndinni reyndist verða einhver athyglisverðasta stundin í öllu mínu lífi . . . Ég upplifði sömu undarlegu tilfinninguna og þeir sem rannsökuðu hið helga klæði frá Torínó. . . Hvað mig varðar, þá tel ég tilvist myndarinnar vera kraftaverk.“ [1]

TÁKNRÆNN BOÐSKAPUR KLÆÐISMYNDARINNAR

Boðskapur hálfmánans sem Guðsmóðirin stendur á sem tákn liggur einnig ljóst fyrir. Tunglið varpar engu ljósi frá sér sjálft, heldur endurvarpar einungis sólarljósinu, sem í þessu tilviki er hið óskapaða ljós Sjödægrasólarinnar miklu. María Guðsmóðir er ekkert af sjálfu sér heldur endurvarpar þeim dýrðarljóma sem Sonur hennar hefur gefið henni hlutdeild í. Tunglið gefur ávallt til kynna að það er háð öðrum ljósgjafa. En það skírskotar jafnframt ætíð til kveneðlisins og háttbundina breytinga og þar með til endurnýjunar og vaxtar. Tunglið er ávallt tákn sjálfs lífshrynjandans:

Fyrirbrigði sem vex og minnkar og hverfur með öllu, fyrirbrigðis sem er háð hinum alheimslögu lögmálum þess verðandi og lífs og dauða. Tunglið, líkt og maðurinn búa yfir eðli sem er hryggilegt. . . en þessi dauði . . . er ekki endanlegur . . . Hið ævarandi afturhvarf til upphafs síns og þessi stöðugu endurtekning gerir tunglið að himinhnetti sem skírskotar fyrst og fremst til hrynjanda lífsins . . . Það stjórnar öllum þeim sviðum náttúrunnar sem skírskota til háttbundinnar endurtekningar, til vatns, regns, jurtalífs og frjósemi [2]

Hálfmáninn er þannig tákn þróunar frá lífi til dauða og frá dauða til lífs: Tákn lífs upprisunnar. Það er með þessum hætti sem Guðsmóðurin opinberar hlutverk sitt í hinni guðdómlegu ráðsályktun sem móðir alls lífs náðarinnar í tilhögun hinnar Alhelgu Þrenningar. Við sjáum hana hér í hlutverki sínu sem Drottningu alheimssköpunarinnar sem rís upp yfir kerúbana þar sem hún situr við hægri hlið Sonar sína sem gimsteinn alls sköpunarverksins og Drottning englanna.

MIÐLARI ALLRAR NÁÐAR

Það er hlutverk hinnar alsælu Guðsmóður að vera miðlari (Mediatrix) allrar náðar og þessi helgimynd leggur áherslu á hlutverk hennar sem meðendurlausnara sem hinnar nýju Evu, að svar það sem hún gaf við boðunina skírskoti til alls mannkynsins í heild, eða, svo að við grípum til orða hl. Tómasar Aquinasar: „Sem hún gaf í stað alls mannkynsins.“ Þegar hún ól Son sinn af sínu eigin holdi, þá varð hið andlega brúðkaup milli Orðs Guðs og mannssálarinnar mögulegt og þannig varð hún það sem Píus páfi XII nefndi Mediator Dei. Þegar við nálgumst hana í leyndardómi trúarinnar endurtekur sami leyndardómurinn sig og átti sér stað á byskupssetrinu í Tenochtitlán í desember 1531: Hún greypir sína eigin ímynd í okkar eigin hjörtu.

Áhrifin eru ætíð hin sömu: Guðsgjörning okkar. Dýrðarfegurð sú sem við getum séð á klæðum Guðsmóðurinnar á helgimyndinni í Guadalupe tekur að ljóma í okkar eigin hjörtum í eilífri fæðingu Orðsins! Eða með orðum hinna heilögu feðra: Undursamleg er fegurð þeirrar sálar sem laugast hefur í dýrlegu og háheilögu blóði Drottins í leyndardómi skírnarinnar!

[1] Með hinum ítarlegu rannsóknum sínum hafa vísindamenn sýnt fram á að engin frumdrög er að finna á klæðisbútunum tveimur. Ímynd hinnar blessuðu Meyjar er greypt í efnið með vörpun frá ofurorkusviði (ef til vill því sama og vísindamenn hafa mælt í opinberunarkapellunni í Jakobskirkjunni í Medjugorje) sem menn bera ekki enn skyn á. Þetta kallar ósjálfrátt fram í hugann ímynd hinnar heilögu ásjónar Drottins og vörpunina á líklæðunum frá Torínó.

[2] Cheavlier, J. og Alain Gheerbrant, The Penguin Dictionary of Symbols, Penguin Books, Harmondsworth 1987, bls. 134.

Frásögnin er byggð á: Delaney, John J., A Woman Clothed with the Sun, Doubleday, New York, 1990 og Johnston, F., The Wonder of Guadalupe, Augustine Publishing Comapany, Devon, 1981.

No feedback yet