« 98 ára gamall biskup læknast af Covid-19 | Karmelsystur gefa út tvo geisladiska með aðstoð Jónasar Sen » |
Sum nútíma snjallúr innihalda smáforrit sem minna fólk á að slaka á í erli dagsins og gera róandi öndunaræfingar. Í þessu sambandi má minna á að sambærilegar öndunaræfingar í trúarlegum tilgangi eru vel þekktar í hinni kristnu trúarhefð.
Jón Rafn Jóhannsson sem lést á árinu 2018, meðlimur í leikmannareglu Karmels, landmælingamaður, kortagerðarmaður og mikilvirkur þýðandi rita af trúarlegum toga skrifaði til dæmis árið 2006:
„Mig langar að segja ykkur frá ákalli til hins Alhelga hjarta Jesú sem ávallt er unnt að grípa til í erli dagsins og þegar illar hugsanir og freistingar sækja á okkur. Það er svona:
Alhelga hjarta Jesú, miskunn!
Þegar við öndum að okkur segjum við: Alhelga hjarta Jesú. Síðan nemum við staðar í hjartanu nokkur andartök, og segjum síðan með útönduninni: Miskunn! Þannig streymir miskunn hans yfir líkama okkar, sál og anda. Þetta hefur gefist mér, bersyndugum manninum, afar vel. Öll verðum við iðulega að kjósa á milli góðs og ills á pílagrímsgöngu okkar á jörðinni. Slík áköll hjálpa okkur til að ganga Veg lífs og hlýðni boðorða Drottins."
Sjá pistil Jóns í heild sinni hér: [Tengill].