« Leyf mér að lifa.Knútur Danakonungur »

09.04.08

  08:30:47, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 852 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Ólafur helgi Noregskonungur

Á Norðurlöndum voru það konungarnir sem stóðu fyrir kristnitökunni og studdu hana. Þriðji píslarvotturinn á konungsstóli þeirra landa var Ólafur II Noregskonungur, fæddur 990, og höldum við minningarhátíð hans á sama degi og hinna fyrri. Víkingaferðirnar, sem hann tók þátt í sem ungur maður, komu honum í snertingu við kristinn sið. Kristindómurinn hafði svo djúp áhrif á hann að hann lét skírast í Rouen (Rúðuborg), Frakklandi.

Árið 1015 sneri hann aftur til Noregs, sameinaði landið með hernaði og samningum og lét krýna sig til konungs yfir öllum Noregi. Samtímis studdi hann markvisst og styrkti kristilegt trúboð í landinu.

Ýmsum norskum ættarhöfðingjum féll illa of mikill strangleiki hans og pólitísk markmið, og skipulögðu ………

……… þeir uppreisn gegn honum ásamt með Knúti Danakonungi – sem þá ríkti líka í Englandi. Ólafur varð að flýja og fann sér hæli hjá skyldmennum í Rússlandi. Ólafur reyndi aftur að ná landi sínu á sitt vald en féll 29. júlí 1030 í bardaga við Stiklastað (norðaustanvert við Þrándheim).

Þegar friður var kominn á í öllum löndum Ólafs konungs, leitaðist hann við að útrýma með einhverjum hætti hjátrú og hjáguðadýrkun. Hann ferðaðist sjálfur um borgirnar og hvatti þegna sína til að opna augu sín fyrir ljósi gleðiboðskaparins, sem boðaður var af trúboðum sem voru í fylgdarliði hans. Víða lét hann rífa niður musteri sem reist voru hjáguðunum, neyddi þá sem frá höfðu fallið til hlýðni og refsaði þeim líkamlega. Heiðingjar reiddust þessum yfirgangi hans og kærðu hann fyrir Knúti II Danakonungi, hinum mikla. Þeir lýstu Ólafi fyrir Knúti sem harðstjóra sem reyndi að útrýma guðum þeirra, lögum og siðum og báðu hann að leysa sig úr þessum óbærilega þegnskap. Stjórnandi Englands og Danmerkur var auðunnari til stuðnings við málstað þeirra en hann ella hefði verið, þar sem hann hafði af tillitssemi við bróður sinn látið Noreg í friði en þóttist nú laus allra mála eftir andlát hans. Hann tók sér nú titilinn “konungur Noregs” sem uppreisnarmennirnir gáfu honum og skrifaði Ólafi konungi skipandi bréf, þar sem hann heimtaði að hann afsalaði sér krúnunni í sínar hendur. Ólafur gat ekki misskilið að nú væri óveður að skella á honum og hélt á náðir Omundar mágs síns, sem bauð honum aðstoð sína. Þeir bjuggu nú út hvor sinn flota með fjögur hundruð skipum til þess að ráðast á Knút. Vonir þeirra glæddust við það að Ulvo eða Wulfo, sem gengið hafði að eiga Estritu, systur Knúts, kom nú til liðs við þá með jafnmikinn liðsstyrk. Ólafur átti að sjá um Sjálandsstrendur en hinir áttu að sjá um aðrar. Knútur hélt til móts við þá með þúsund skipa flota og auk þess her á landi. Ráðist var á Omund en úrslit þeirrar orrustu voru óviss. Wulfo sýndi stríðskænsku sem varð honum til frægðar og sökkti nokkrum af þeim skipum sem stefndu til hans og kveikti í öðrum. En þegar Ólafur hafði þegar unnið sigur yfirgáfu hann sviksamlega Danir sem höfðu gengið til liðs við hann svo að sex hundruð skip komu Knúti nú til hjálpar og þar með voru úrslit bardagans ráðin. Ólafur var flæmdur burt úr ríkjum sínum, flýði til Svíþjóðar og þaðan til Rússlands, á náðir Jaroslavs konungs sem giftur var systur hans.

Þegar Ólafur helgi komst á snoðir um að valdsmenn í ríki hans áttu í útistöðum hver við annan og flestir vildu skora á hann að koma aftur heim í ríki sitt, fór hann til Norðurlanda þar sem Omund mágur hans tók á móti honum með innilegri ánægju. Hann safnaði nú að sér fjölmennum her til þess að ná konungstign sinni aftur í sínar hendur. en í orrustu sem háð var 29. júlí 1030 nálægt Stiklastað í nágrenni Þrándheims, var hann svikinn og lét þar með líf sitt. Hann hafði þá verið konungur í sextán ár.

Ólafur helgi var jarðsettur í Þrándheimi. Árið eftir lét Grímkell biskup heiðra hann opinberlega í kirkju sinni og lýsti yfir píslarvætti hans.

Ólafur er sýndur á myndum í herklæðum síns tíma með ríkisepli, veldissprota og bikar; bryntröll og stríðsöxi (það voru þau vopn sem urðu honum að bana). Undir fótum hans liggur oft dreki með mannshöfuð og kórónu (hin sigraða heiðni). Hann er verndardýrlingur Norðmanna.

Grein þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í júlí / ágúst 2005.

No feedback yet