« „Stúdíur“ jafnaðarmannaforingjans Jóns Baldvins Hannibalssonar í Guðs voluðum heimi. | Ítarlegri umfjöllun um Kristsrósakrans hins Alhelga Hjarta Jesú » |
Í opinberun þann 2. maí 1962 sagði Jesús við ungversku karmelsysturina Erzebet Szanto, hinn mikla boðbera hinnar lifandi elsku loga Kristshjartans: „Hjarta mitt er hinn varanlegi hvíldarstaður þinn. Ef þú vilt hvílast hér er það þegar veitt þér. Þú finnur það er það ekki? Hvíldu í mér svo að þú valdir mér ekki sárum vonbrigðum! Vertu sameinuð mér í elskunni og leiddu aðra til mín. Þú veist hversu fá við erum. Það tekur ekki langan tíma að ganga í kringum tjaldbúð okkar.“
Æðsti prestur hins gamla sáttmála var forgildi Krists eins og lesa má um í Hebreabréfinu:
„Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið Heilaga, þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn. Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs. Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni“ (Heb 10. 19-22).
Í gamla sáttmálanum bar æðsti presturinn fram ilmfórn sem hann tilreiddi á ilmfórnaraltarinu í hinu Heilaga áður en hann gekk inn í hið Allra helgasta fram fyrir náðarsæti arkarinnar. Það var þannig sem Kristur Jesú bar sitt eigið hjarta fram sem Guði velþóknanlega ilmfórn á fórnarhæð krossins til að friðþægja fyrir okkar eigin syndir. Þannig kveikti hann einnig loga elsku hins Alhelga Hjarta síns sem hann þráir að brenni sem skærast í sérhverju mannshjarta. Rósakrans hins Alhelga Hjarta Jesú er ein þeirra leiða sem glæða loga elsku Kristshjartans. En harðýðgi mannshjartans er slík að það hafnar þessari elsku.
Daginn eftir fyrri opinberun sína bað Jesú systir Erzbet að skrifa niður það sem hann hafði að segja:
Dóttir mín! Það er ég sem er beiningamaðurinn í landinu . . . Betl er óheimilt í landi þínu og það er einungis ég sem þarf að beiðast ölmusu. Ég reika hungraður úr einni götunni í aðra, úr húsi til húss, frá þorpunum til borganna í nístingskulda vetrarins og breyskju sumarhitans í slagveðrum og vindnæðingi. Enginn spyr mig: „Hvert ert þú að fara svona skelfilega á þig kominn?“ Hárið er samanklístrað í blóði mínu. Húðin á fótum mínum er flakandi sár vegna langrar göngu minnar á eftir ykkur. Ég rétti hönd mína sífellt fram og bið um hjálp. Ég geng frá einu hjartanu til annars og sjaldnast fæ ég neina ölmusugjöf. Jafnvel þá ljúka menn dyrum hjarta síns svo skjótt aftur að mér gefst enginn tími til að skyggnast inn í þau til að sjá hvað þar býr. Ég verð að hverfa á braut fullur auðmýktar og náðargjafirnar hlaðast upp í hjarta mínu vegna þess að enginn biður um þær.“
Menn (og konur) óttast að ljúka upp hjörtum sínum fyrir logandi elsku Kristshjartans. Hvers vegna? Sökum þess að þau óttast að hann svipti þau svo miklu sem er þeim dýrmætt: Hestamennskunni, dálætinu á bílnum eða þeim tíma sem kastað á glæ í margvíslegan hégóma. Þess vegna fara þau á mis við þá náð sem heil. Ágústínus (354-430) bað um forðum: „Drottinn minn! Gef að logi elsku þinnar megi brenna í sálu mér og verða að einum loga og brenna stöðugt á altari hjarta míns. Megi logi elsku þinnar brenna í sál minni og uppræta hana þannig að hinsti dagur lífs míns verði að degi sameiningar við þig að eilífu. Amen.“
Við skulum að lokum hlýða á hvað heil. Antoníus frá Padúa (um 1195-1231) – fransiskani og kirkjufræðari – hafði að segja um Kristselskuna:
„Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn.“ Guð „þinn“ er samkvæmt orðanna hljóðan og þetta er ein af ástæðunum til að elska hann enn meira: Við elskum það sem við eigum miklu meira en það sem stendur okkur fjarri. Drottinn, Guð þinn er sannarlega verður elsku þinnar. Hann varð að þjóni þínum svo að þú gætir tilheyrt honum og blygðast þín ekki fyrir að þjóna honum . . . Í þrjátíu ár varð Guð þinn að þjóni þínum vegna synda þinna til að hrifsa þig úr þjónustu djöfulsins. Þannig ber þér að elska Drottin, Guð þinn. Sá sem skapaði þig, það er hann sem varð að þjóni þínum þín vegna: Hann gafst þér að fullu og öllu þannig að þú gætir fært þig sjálfan sjálfum þér að gjöf. Þegar þú varst vansæll glæddi hann vellíðan þína. Hann gafst þér sjálfur svo að þú gætir fært sjálfan þig sjálfum þér að gjöf.
Þannig ber þér að elska Drottin, Guð þinn „af öllu hjarta“. Af því „öllu“ vegna þess að þú mátt ekki halda í neitt af sjálfum þér fyrir sjálfan þig. Hann þráir að þú gefist allur. Hann hefur keypt þig að öllu leyti með sér öllum svo að þú gætir orðið að eign hans: Þig allan fyrir sig einan. Þannig ber þér að elska Drottin, Guð þinn, af öllu þínu hjarta. Þú skalt ekki reyna að halda eftir hluta af sjálfum þér eins og þau Ananías og Safíra, að öðrum kosti kanntu að fyrirfarast eins og þau (spr P 5. kafli). Þú skalt því elska að öllu leyti en ekki að hluta vegna þess að Guð er ekki hluti einhvers. Hann sem er sjálfur fullkomlega heill í verund sinni þráir ekki hluta af verund þinni. Ef þú heldur eftir hluta af sjálfum þér, þá tilheyrir þú sjálfum þér en ekki honum.
Viltu þannig eignast allt? Gefðu honum það sem þú ert og hann mun gefa þér það sem hann er. Þannig áttu ekki lengur neitt í sjálfum þér, heldur muntu eignast hann allan í þér öllum.
Menn (og konur) vilja ekki eignast Krist Jesú allan í sér öllum vegna þess að það er eitthvað annað sem vegur þyngra í hjörtum þeirra og þannig knýr hann árangurslaust á dyr hjartna þeirra vegmóður og örmagna af þreytu eins og þegar hann settist niður við Jakobsbrunninn í Samaríu forðum. Mannshjartað er harðlæst andspænis elsku Kristshjartans.