« Ritningarlesturinn 19. september 2006Ritningarlesturinn 18. september 2006 »

18.09.06

  09:00:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 978 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín" (Jh 12. 32)

Í dag heiðrar kirkjan minningu heil. Jósefs frá Cupertino sem var fransiskani. Hann var tekinn í tölu heilagra 1767 og í rannsókninni sem fór á undan þessari ákvörðun eru skráð 70 tilvik um svif (levitation) hans. Hann varð víðfrægur fyrir þessi svif en í hans huga voru þau þungur kross að bera og glæddu auðmýkt hans, þolgæði og hlýðni ríkulega. Í tíðagjörðabók fransiskanareglunnar fyrir þennan dag þegar kirkjan heiðrar minningu hans má lesa: „Um fram allt annað þarfnast Guð vilja okkar sem við þiggjum sem óverðskuldaða náðargjöf frá Guði í sköpuninni og megum nota sem okkar eigin eign. Þegar maðurinn leggur rækt við dyggðirnar er það sökum hjálpar náðar Guðs þaðan sem öll gæska kemur.“

Heil. Jósef var afar bænheitur og þeir sögðu að Fjallræðan hefði verið næring hans og hann notaði þessa „einstæðu gjöf Guðs – viljann – til að lofa og vegsama Skapara sinn og Guð. Guðfræðingar skilgreina svifin sem KRAFT ELSKU GUÐS, að kraftur hennar sé svo mikill að hann dragi sköpun sína bókstaflega til sín með líkamlegum hætti. Padre Pio sem einnig var fransiskani komst einnig í kynni við þetta afbrigði elskunnar í tvíbirtingum sínum, eins og þegar hann saung messu í San Giovanni Rotondo, jafnframt því sem hann hlustaði á skriftir í Péturskirkjunni í Róm. Vafalaust er þó Maria de Agreda (1602-1665), spænsk nunna, einna frægust fyrir svif sín og tvíbirtingar. Þeir sögðu að frá 1620 til 1631 hafi hún farið í meira en 500 ferðir til ýmissa índíánaættbálka í Ameríku, án þess að yfirgefa nokkru sinni klaustur sitt.

Þegar spænsku trúboðarnir tóku að boða indíánunum í Ameríku trú, þá höfðu þeir þegar fengið trúfræðslu hjá „bláu konunni“ sem þeir töluðu sífellt um. Spænskur landfræðingur sem dvalið hafði langdvölum í Nýja heiminum fór á fund Maríu og bað hana að lýsa staðháttum sem hún gerði með svo ítarlegum hætti að hann kannaðist við staðina af lýsingum hennar, rétt eins og Padre Pio hafði talið þrepin í nýju kirkjunni í Pietrelcina án þess að vera viðstaddur vígslu hennar í holdi. Stundum var sérgáfa heil. Jósefs frá Cubertino misnotuð, jafnvel af hans eigin bræðrum. Þetta gerðist meðal annars þegar þeir höfðu byggt nýjan klukkuturn og þurftu að koma níðaþungri klukku sem vóg rúmlega eitt tonn fyrir í turninum. Hægasta leiðin var að láta heil. Jósef bera hana upp sem hann og gerði. Að sjálfsögðu varð ábótinn ævareiður þegar honum bárust þessar fréttir og ávítaði bræðurna harðlega fyrir þetta athæfi.

Heil. Jósef frá Cubertino notaði hinn frjálsa vilja sinn til að lofa og vegsama Guð lifenda í öllu sínu lífi. Hversu ólík er þessi afstaða ekki þeirri sem veraldarhyggjan (secularism) grípur til sem beinir heift sinni gegn Guði sökum eigin mistaka. Öll endurspeglast þessi afstaða í ummælum eins fremsta stjórnmálaleiðtoga Íslendinga á tuttugustu öldinni, Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hann viðhafði í viðtali í Blaðinu:

„Það er fáránlegt að halda því fram að trú á hið góða sé útilokuð nema algóður Guð sé þarna uppi. Líttu á þessa veröld. Tugþúsundir barna deyja úr hungri á degi hverjum. Hundruð milljóna saklausra eru fórnarlömb ofbeldis, fátæktar og sjúkdóma. Það gerist í heimi þar sem við höfum þekkingu, kunnáttu, tækni og fjármuni til að leysa þetta. Ef Guð er almáttugur þá stýrir hann þessum heimi. Ef hann er almáttugur og algóður og þetta er hans niðurstaða þá er ég guðleysingi.“


Árinni kennir illur ræðari! Veraldarhyggjunni er um megn að horfast í augum við eigin verk og því snýst hún í magnvana bræði gegn þeim Guði sem er uppspretta allrar gæsku. Veraldarhyggjan misnotar þann frjálsa vilja sem Guð gaf henni í gjöf og fremur óhæfuverk á jörðinni.

Í ritningarlestri dagsins lesum við orð hundraðshöfðingjans: „Ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt.“ Hversu ljúft er það ekki þegar hann kemur undir þak sálarinnar í Evkaristíunni. Og þá gerist undrið mikla: Hrifin. Við lítum á kl. og hún er þrjú. Að örskammri stund liðinni sem okkur finnst ekki vera nema örfáar mínútur blasir staðreyndin við sjónum. Klukkan er ekki 3.03 heldur 17. 30. Við vitum að við höfum verið þarna uppi, að við höfum komist í snertingu við uppsprettu allrar gæsku og miskunnar. Eftir slík svif tekur það sálina mörg ár, já áratugi, að gera sér ljóst hvers hún varð aðnjótandi: Þetta er sökum gnægta þessarar gæsku. Þetta gerist þegar við tileinkum okkur afstöðu heil. Jósefs frá Cubertino: „Drottinn, minn og Guð, ég er þess ekki verður að þú komir undir þak mitt.“ Vegurinn til Guðs er vegur auðmýktarinnar og þar er engin illska til. Hún er einungis til á þeirri jörð sem logar í mannvonsku græðgi, stærilæti og heimtufrekju. Þannig rætast orð Drottins til fulls: „Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín" (Jh 12. 32). Nú er þetta sem í skuggsjá, en þá verðum við séð af hinum Alsjáandi að eilífu.

No feedback yet