« Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyðaBresk rannsókn leiðir í ljós að ófædd börn finna til »

06.04.06

  14:03:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 547 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Og þarna tóku margir trú á hann

Guðspjall Jesú Krists þann 7. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 10. 31–42.

Gyðingar tóku aftur upp steina til að grýta hann. Jesús mælti við þá: „Ég hef sýnt yður mörg góð verk frá föður mínum. Fyrir hvert þeirra verka viljið þér grýta mig?“ Gyðingar svöruðu honum: „Vér grýtum þig ekki fyrir góð verk, heldur fyrir guðlast, að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði.“ Jesús svaraði þeim: „Er ekki skrifað í lögmáli yðar: ,Ég hef sagt: Þér eruð guðir'? Ef það nefnir þá guði, sem Guðs orð kom til, - og ritningin verður ekki felld úr gildi, - segið þér þá við mig, sem Faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: ,Ég er sonur Guðs'? Ef ég vinn ekki verk Föður míns, trúið mér þá ekki, en ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að Faðirinn er í mér og ég í Föðurnum.“ Nú reyndu þeir aftur að grípa hann, en hann gekk úr greipum þeirra. Hann fór aftur burt yfir um Jórdan, þangað sem Jóhannes hafði fyrrum verið að skíra, og var þar um kyrrt. Margir komu til hans. Þeir sögðu: „Víst gjörði Jóhannes ekkert tákn, en allt er það satt, sem hann sagði um þennan mann.“ Og þarna tóku margir trú á hann.

Hugleiðing
Í Brekkukotsannál Halldórs Kiljans Laxness heyrði Álfgrímur litli klukku afa síns mæla: Elífð, eilífð! Hverjum glymur klukkan í þínum eyrum? Heyrir þú það sama váhljóð og Jeremía forðum, lesandi góður? „Já, ég hef heyrt illyrði margra – skelfing allt um kring: „Kærið hann!“ og „Vér skulum kæra hann!“ (Jer 20. 10). Heyrir þú ef til vill tímans óm eins og heimssöngvarinn mikli Garðar Hólm . . . „þegar heimurinn hefur gefið þér alt; þegar miskunnarlaust ok frægðarinnar hefur verið lagt á herðar þér og brennimarki hennar þrýst á enni þér, óafmáanlegu einsog þess manns sem varð uppvís að heimsglæp, mundu þá að þér er ekki athvarf nema í einni bæn: Guð taktu það alt frá mér – nema einn tón.“ Hver er þinn tónn, lesandi góður? Hvaða hljóð berst þér til eyrna úr þinni eigin lífsklukku á lífsins vegum. Ásakar þú þann sem kom til að færa þér líf fyrir HEIMSGLÆPINN mikla, að berjast gegn ógnarvaldi dauðans. Jesús er hinn fullkomni uppfræðari. Orð Guðs eru líf og kraftur fyrir þá sem trúa. Jesús sýnir okkur að við eigum að ganga veg lífsins og sannleikans í heilagleika: „Þér eruð guðir.“ Og hann smyr okkur krafti til að lifa til samræmis við guðspjöllin í gleði og bera honum vitni í heiminum. Hver er sá ómur sem þín eigin lífsklukka boðar þér? Er það válegur dynur Líkabangar [1] eða HINN EINI TÓNN LÍFSINS?

[1] Klukkan á Hólastað sem hringdi til útfarar.

No feedback yet