« Nýr umhverfisvávaldur: Eituúrgangur frá getnaðarvarnalyfjum – eftir Colin Mason [1]Það er í Kristselskunni sem Ritningarnar ljúkast upp fyrir okkur í Heilögum Anda »

03.08.07

  08:38:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1152 orð  
Flokkur: Hugleiðingar, Bænalífið

„Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra“ (Mt 13. 58)

Fyrirsögnin hér að ofan er komin úr guðspjalli dagsins (3. ágúst). Þar er greint frá því að Jesú predikaði í samkunduhúsinu í ættborg sinni. Og menn undruðust speki hans og vald jafnframt því sem þeir trúðu honum ekki. Svo er enn í dag. Við getum sagt að nú sé það kirkjan sem sé ættborg Jesú og að menn þekki til tilvistar hans, en trúi ekki á orð hans og boðskap. Þetta er sökum stærilætis hjartna þeirra sem er uppspretta allra synda og afneitunar á Guði. Orðið synd þýðir sundrung, að sundra samfélaginu við Guð og þar með Jesú sem er Guð. Og sjálfur sagði hann: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu“ (Mt 28. 18).

Einn þáttur í þessu valdi hans er að fyrirgefa syndir og hann fól kirkju sinni þetta vald á hendur: Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni“ (Mt 18. 18). Þetta er skriftavaldið sem kaþólskir prestar hafa til að fyrirgefa syndirnar í skriftum. Ef skriftabarnið meðtekur „fyrsta orðið“ sem kemur af vörum skriftaföðurins eins og það sé komið frá Guði sjálfum, liggur vilji hans ljóst fyrir.

Stærilátar sálir hata þetta vald, rétt eins og óvinur hjálpræðis okkar, hinn fallni verndarkerúbi. Þær eru „filii iriae,“ börn reiðinnar! Eitt sinn heyrði ég mann nokkurn segja: „Ég tel mig vera ágætlega kristinn mann, en um leið og ég heyri minnst á vald og algildan sannleika fyllist ég reiði!“ Hann hafði glímt við áfengisvandamál áratugum saman. Slíkt má rekja til hins hulda stærilætis hjartans. Sjálfur hef ég heyrt ofurölva menn hvað eftir annað gráta vegna eigin gæsku. Þeir segja að þeir séu misskildir og drekki vegna þess að allir séu vondir við þá sem í rauninni standi öllum öðrum mönnum (og konum) framar fyrir gæsku sakir. Í slíka blindni leiðir stærilætið mannssálina.

Ég veit einnig til þess að menn hafa fengið lausn, verið leystir undan ofurvaldi áfengissýkinnar við skriftir. Þetta voru einstaklingar sem drukkið höfðu frá sér allar eigur sínar, fyrirtæki og fjölskyldur, konu og börn. Ég þekki jafnvel dæmi um lúterska menn sem báðu um að fá að skrifta hjá kaþólskum presti, menn sem höfðu glímt við ólæknandi áfengissýki áratugum saman. Þetta er vegna þess að þeir horfðust í augu við synd sína og játuðu hana frammi fyrir Guði, það er að segja auðmýktu sig og snéru þannig baki við hinu hulda stærilæti hjartans.

Stærilæti hjartans er eins og svartur dúkur eða blæja sem byrgir sálinni alla sín til Guðs. Teresa frá Avíla líkti nærveru Drottins í djúpi mannsverundarinnar við tæran kristal Og hún bætti síðan við: En hvernig getur sólin (Guð) uppljómað þennan kristal ef við byrgjum hann með svörtum klæðisdúk syndarinnar?“ Það er ekki einungis hin raunverulega áfengissýki sem er ummerki syndarinnar. Fjölmargir aðrir eru ofurölvi af auðæfa oflæti, valdafíkn og hroka mennskra hugsmíða. Hinir heilögu feður og mæður kirkjunnar líktu syndugum manni þannig við kófdrukkinn mann. Það er í skriftunum sem hinum svarta klæðisdúk syndarinnar er svipt af kristalnum þannig að ljós Guðs getur uppljómað hann að nýju eins og í heilagri skírn.

„Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.“ Stærilætið er gleggstu ummerki vantrúarinnar og Drottinn gerir ekki kraftaverk í stærilátum sálum. Það er mikill leyndardómur þegar Almáttugur Guð opinberaðist í holdtekju sinni á jörðu íklæddur lítillæti auðmýktarinnar. Hann sem er Almáttugur Guð birtist sem maður á jörðu. Þetta beinir athyglinni að þeirri staðreynd að það er um valdaröð eða tignarröð að ræða í tilhögun Guðs: Valdapýramída. Efstur í þessum valdapýramída er Guð og síðan koma tignarraður englanna, eða með orðum heil. Kýrillosar frá Jerúsalem:

Að þessu loknu minnumst við á  . . . alla sköpunina, hina vitrænu og óvitrænu, þá sýnilegu og ósýnilegu: Englana (angelon), Erkienglana (archangelon), Dyggðirnar (dynemenon), Tignirnar (kyrioteton), Valdanna (archon), Herradómanna (exousian), Hásætanna (þronon), Kerúbanna (cheroubion) með margar ásjónur. Í reynd endurtökum við ákall Davíðs: „Ég vil vegsama Drottinn alla tíma“ (Sl 34. 2). Við minnumst einnig á Serafana (seraphion). [1]

Þetta er sá sannleikur sem kirkjan minnist á fyrir gjörbreytinguna í öllum sínum messum á jörðu. En þegar Drottinn Jesús kemur í holdtekju sinni til jarðar umbylti hann þessum „valdapýramída.“ Þetta er sú mesta bylting sem gerð hefur verið á jörðu: „Lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar“ (Mt 11. 28). Nú er það hógværð lítilláts hjarta sem skipar öndvegið. Almætti og vald Guðs opinberast nú í auðmýktinni. Þetta er sannleikur sem allar stærilátar sálir hata heilshugar, rétt eins og hinn fallni verndarkerúbi sem var varpað af himnum ofan sökum hroka síns. Og Drottinn sá þetta með eigin augum: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu“ (Lk 10. 18).

Allur blasir þessi sannleikur við sjónum við boðun hinnar blessuðu Meyjar. Hún lýtur vilja Guðs að fullu og öllu og hinn eilífi getnaður Orðsins nær fram að ganga: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum“ (Lk 1. 38). Hún trúir og því gat Drottinn gjört mörg kraftaverk sökum trúar hennar. Við stærilátar sálir vil ég segja þetta: Iðrist synda ykkar og játið og lærið af Drottni: „Lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ Þannig er óvinurinn brotinn á bak aftur í tælingum blekkingariðju sinnar í djúpi mannshjartans.

Vafalaust munu greinar eins og þessi verða til þess að mér verði skipað á bekk með mætum guðfræðingum við úthlutun „Ágústínusarverðlauna“ vantrúarmanna annað árið í röð. Ég er stoltur af slíkri vegsemd því að það segir mér einungis að ég sé á réttri braut á lífsins vegum.

[1]. Fyrirlestrar um hin kristnu sakramenti.

1 athugasemd

Jón Valur Jensson

Hér er talað af virðingu um sáttagjörðar- og helgunarþjónustu prestanna, sem enginn skilningur virtist á á þessari vefslóð: http://halkatla.blog.is/blog/halkatla/entry/276482“, og allaði það fram svar mitt þar: http://halkatla.blog.is/blog/halkatla/entry/276482/#comment522442 , en þetta var vel að merkja vefslóð sem endurtók gagnrýnislaust árásir Tolstoys á rétttrúnaðarkirkjuna rússnesku, m.a. vegna Maríudýrkunar hennar, íkonanna, bænaiðkunar og ýmislegs annars. Á þessu sviði var Tolstoy greifi harla andkirkjulegur.

03.08.07 @ 14:46