« Fjöldi kaþólskra í Noregi og athyglisvert blogg um tíðabænirÞögn ei meir - af lífsverndarbaráttu Vestanhafs »

14.07.12

  18:14:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 525 orð  
Flokkur: Pílagrimsferðir, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Helgir staðir á Íslandi

Önnur pílagrímsferð Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar

Önnur pílagrímsför Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar á Snæfellsnesi var farin miðvikudaginn 11. júlí 2012. Ekið var á einni rútu af stærstu gerð, smárútu biskupsdæmisins 'Bonibus' og nokkrir voru á einkabílum. Pílagrímar sunnan og austan af landinu lögðu af stað frá Landakoti og var stansað við Maríukirkju þar sem fleiri bættust í hópinn.

Veðrið var eins og best varð á kosið, sól og blíða og vart sást ský á himni. Í rútunni leiddi séra Patrick Breen rósakransbænir og sálmasöng. Komið var að Hellnum skömmu eftir hádegi. Þangað komu svo á svipuðum tíma pílagrímar norðan af landinu. Ekki er gott að segja nákvæmlega hve margir voru samankomnir þarna en líklega höfum við verið á bilinu 80-100 manns. Við lindina var svo lesin heilög messa og leiddi herra Pétur Burcher Reykjavíkurbiskup athöfnina.

Önnur pílagrímsferð Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar
Maríustyttan við Maríulind
Önnur pílagrímsferð Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar
Þáttakendur í pílagrímsferðinni til Maríulindar 2012
Önnur pílagrímsferð Kaþólska biskupsdæmisins til Maríulindar
Prestarnir ásamt Pétri biskupi

Hér inni í bloggfærslunni eiga að sjást þrjár myndir úr pílagrímsferðinni. Á þeirri fyrstu er Maríustyttan, á þeirri næstu er mynd tekin af stórum hópi pílagríma sem stillti sér upp eftir messuna og á þeirri þriðju eru biskupinn og prestarnir að undirbúa messuna. Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær.

Fyrir messuna var dreift bæklingi til viðstaddra svo þeir gætu fylgt athöfninni eftir. Á annarri síðu bæklingsins stóð:

Samkvæmt munnlegri helgisögn á Guðmundur Arason góði biskup að hafa komið að lindinni árið 1230 og þá birst honum og fylgdarmönnum hans alsæl María Guðsmóðir í fylgd þriggja engla og boðið honum að helga lindina sem hann gerði... Hér er um að ræða eina af fáum birtingum Maríu meyjar á Norðurlöndum og jafnvel þá einu ef frá er talið þegar María mey birtist heilagri Birgittu frá Svíþjóð.

Á þriðju síðu bæklingsins var tveggja síðna pistill "Samantekt um Gvendarbrunn á Hellnum í Snæfellsnessýslu" með heimildaskrá og eru heimildirnar taldar hér aftar.

Í predikun sinni þakkaði biskupinn þátttakendum fyrir komuna og sagði að allar sóknir biskupsdæmisins ættu fulltrúa sinn í ferðinni. Ég tók ræðu biskupsins ekki upp og get því ekki haft orðrétt eftir honum en meðal þess sem hann minntist á efnislega var að hann bað viðstadda og heilaga Guðsmóður um fyrirbænir fyrir kaþólsku kirkjunni á Íslandi og um heim allan að takast myndi að leiða til lykta hin erfiðu mál sem varða kynferðislega misnotkun.

Eftir athöfnina við lindina var haldið að Hellnum og snæddur hádegisverður á hótelinu. Þaðan var haldið að Arnarstapa þar sem gert var stutt stopp. Síðan var haldið áleiðis til Reykjavíkur. Í rútunni leiddi séra Patrick rósakransbænina og síðan var sungið á íslensku, pólsku og filippseysku málunum cebuano og tagalog. Glatt var á hjalla og var ekki annað að heyra á ferðafólkinu en að mikil ánægja væri með ferðina.

Heimildir sem vitnað er í, í samantekt bæklingsins sem dreift var í messunni:
Sæbjörn Valdimarsson, "Blekkingar undir Jökli", Morgunblaðið 1. des. 1998, bls. 62 og "Hellnar í hálfa öld", Lesbók Morgunblaðsins 11. júlí 1998, bls. 6.
Guðrún J. Bergmann, "Örnefni undir Jökli", Morgunblaðið 12. des. 1998, bls. 59.
Kristinn Kristjánsson, "Hellnar fyrr og nú", Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998, bls. 11.
Vegahandbókin, Ferðahandbókin þín (2004), s. 271.
Helga Halldórsdóttir frá Dagverðará, "Lífslind Hellnamanna", Öll erum við menn, Reykjavík 1986, bls. 365-368.
Ólafur Lárusson, "Guðmundur góði í þjóðtrú Íslendinga", Skírnir 1942 bls. 121.
Sýslu og sóknalýsingar Hins Íslenska bókmenntafélags, Snæfellsnes, Reykjavík 1970 bls. 128 og 81-116.
Biskupa sögur, gefnar út af Hinu íslenska bókmenntafélagi, Fyrsta bindi Kaupmannahöfn 1858 bls. 546.

RGB.

No feedback yet