« Fréttatilkynning frá Kaþólsku kirkjunniBenedikt páfi biður fyrir fórnalömbum hryðjuverkanna í Noregi »

01.08.11

  12:43:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 337 orð  
Flokkur: Trúarleg tónlist og textar, Trúin og menningin

„Óttastu ei“ - nýr íslenskur texti við þekktan erlendan sálm

Sumir lesenda kannast kannski við sálm sunginn á ensku sem heitir Be Not Afraid. Á eftirfarandi YouTube tengli er hann fluttur af bandaríska munknum John Michael Talbot, fyrrum liðsmanni hljómsveitarinnar Mason Proffit:

http://www.youtube.com/watch?v=m37WWOYvesk

Þó Talbot sé á ýmsum stöðum á netinu eignaður þessi sálmur er það líklega á misskilningi byggt því heimildir benda til þess að höfundur sálmsins sé Jesúítapresturinn Robert J. Dufford og að hann hafi samið lagið og textann árið 1975.

Ég heyrði þennan sálm fyrst sunginn í upptöku á segulbandsspólu sem ég keypti í Meðugorje í Bosníu-Herzegovinu árið 1989 en þangað komu margir bandarískir pílagrímar og því ekki ólíklegt að sálmurinn hafi verið sunginn þar. Í tilefni af og vegna hvatningarorða Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs 22. júlí sl. [1] fannst mér viðeigandi að búa til íslenskan texta við sálminn því hann er hvatning til kristinna manna um að láta ótta ekki buga sig. Íslenska heiti sálmsins er „Óttastu ei“:

Óttastu ei

Þó um eyðimörk þú ferðist, þér ei þorstinn grandað fær.
Þó að leið þín liggi um óravegu, ætíð er ég nær.
Þó í öðrum löndum orð þú mælir, allir skilja ná.
Auglit Guðs þú síðar meir munt sjá.

Viðlag:
Óttastu ei, ávallt á undan geng ég, komdu – fylgdu mér
og hvíld ég færi þér.

Þó að boðaföll þín bíði, og bráður ægi sjór.
Þó þú farir meðal funa, feta muntu rór.
Þó þér óvinarins ógni máttur, og að þér dauðinn rær
Veistu að ég stend þér alltaf nær.

Viðlag

Sælir eru snauðir, því himnaríki þeirra er.
Þeir sem syrgja eru sælir, því að huggast munu hér.
Og ef vondir menn þig víta og hata, vegna bara mín.
Blessun, já blessun er þín.

Viðlag

1975, Robert J. Dufford, SJ. Ísl. texti RGB.

Gítargrip við lagið má finna hér: http://www.chordie.com/chord.pere/www.gospelmusic.org.uk/a-g/be_not_afraid.htm

[1] »Det er vigtigt ikke at lade frygten tage overhånd. Vi ønsker netop i en time som denne at stille op for det, vi tror på: et åbent samfund, et samfund hvor politisk virksomhed kan drives i tryghed uden trusler, og hvor vold ikke skal skræmme os.«
Jens Stoltenberg 22. júlí 2011. http://www.information.dk/274117

No feedback yet