« Benedikt páfi skrifar grein í Financial TimesGeisladiskur með söngvum Karmelnunna í Hafnarfirði »

25.12.12

  12:43:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 362 orð  
Flokkur: Trúarleg tónlist og textar

Nýr íslenskur texti við þekkt erlent lag

Enska sálmaskáldið William Chatterton Dix (1837-1898) er talsvert þekktur í hinum enskumælandi heimi, kannski fyrst og fremst vegna sálms sem hann orti og sunginn hefur verið við hið þekkta lag Greensleeves. Sálminn orti Dix í kjölfar mikilla veikinda árið 1865 þegar hann var 29 ára gamall. Sálmurinn ber heitið What Child is This? og er hann einkum sunginn um jólaleytið, enda fjallar textinn um fæðingu Jesú Krists, englasöng og fjárhirða sem koma að hylla hið nýfædda barn og konung.

Íslenski textinn sem hér fer á eftir er ekki sá fyrsti sem sunginn hefur verið við lagið því Frostrósir sungu það við íslenska textann Jólanótt eftir Unni Ösp Stefánsdóttur á hátíðartónleikum í Grafarvogskirkju á árunum 2003-2004 og má finna upptöku af þeim söng á plötunni: „Frostrósir - kirkjan ómar“ frá árinu 2009.

Sá texti sem hér birtist er tilraun til að komast merkingarlega nær frumtextanum og þeirri hugsun sem birtist hjá William Dix og gæti því hugsanlega hentað til söngs við trúarlegar samkomur þar sem leggja á áherslu á frásögn jólaguðspjallsins. Fyrsta erindi íslenska textans sem hér fer á eftir var saminn nú á Þorláksmessu en síðari tvö erindin á aðfangadagskvöld sl. (2011). Innblástur og löngun til að þýða textann kom eftir að hafa séð sálminn fluttan af kaþólskum systkynahópi á sjónvarpsstöðinni EWTN.

Í kjöltu móður

Í kjöltu móður liggur lítið
barn og höfugt sefur,
og englakórinn ómþýtt skæra
hljómaþræði vefur.
Heill, heill þér Kristi sé
sem hirðar gæta' og himins vé.
Hátt, hátt nú hefjum róm
þig hyllum með lofsöngshljóm.

Í hreysi lágu hvílir hann
með hirðum krjúpum, biðjum.
Við lágan stall má ljóma sjá
og lausn úr synda viðjum.
Heill, heill þér aldna orð
þú býrð oss máltíð
við himna borð.
Hátt, hátt þig hófu' á kross,
þú endurleystir oss.

Þín hjartans leið, sé honum greið
þar herrann skaltu krýna.
Um gæfujól með gulli' á stól
þú Guði' ei muntu týna.
Heill, heill þér himna hljóð
mærin syngur vögguljóð.
Hátt, hátt þinn heiður ber
nú gleðin ríkir hér.

Ísl. texti © Ragnar Geir Brynjólfsson 2011

Ég óska að lokum lesendum kirkju.net gleðilegra jóla og þakka innlit og góðar kveðjur á árinu sem er að líða.

[Viðbót við pistilinn á jóladag 2012. Ég breytti lítillega tveimur línum í 2. erindi.]

Endurbirtur pistill: Birtingar 25.12.2011, 25.12.2012.

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Frumflutningur lagsins með þessum texta fór fram í kapellunni í Riftúni í Ölfusi síðar þennan dag, þ.e. 25.12.2011.

Hér er textinn með gítargripum:

[a] Í kjöltu móður [G] liggur lítið
[a] barn og höfugt [E] sefur,
og [a] englakórinn [G] ómþýtt skæra
[a] hljóma [E] þræði [a] vefur.
[C] Heill, heill þér [G] Kristi sé
sem [a] hirðar gæta’ og [E] himins vé.
[C] Hátt, hátt nú [G] hefjum [e] róm
þig [a] hyllum með [E7] lofsöngs [A] hljóm.

[a] Í hreysi lágu [G] hvílir hann
með [a] hirðum krjúpum, [E] biðjum
Við [a] lágan stall má [G] ljóma sjá
og [a] lausn úr [E] synda [a] viðjum.
[C] Heill, heill þér [G] aldna orð
þú [a] býrð oss máltíð
við [E] himna borð.
[C] Hátt, hátt þig [G] hófu’ á kross,
þú [a] endur [E7] leystir [A] oss.

[a] Þín hjartans leið, sé [G] honum greið
þar [a] herrann skaltu [E] krýna.
Um [a] gæfujól með [G] gulli’ á stól
þú [a] Guði’ ei [E] muntu [a] týna.
[C] Heill, heill þér [G] himna hljóð
[am] mærin syngur [E] vögguljóð.
[C] Hátt, hátt þinn [G] heiður [em] ber
nú [a] gleðin [E7] ríkir [A] hér.

26.12.11 @ 10:38