« Hvenær báðu kjósendur um vændi á Íslandi?Sir William Liley – ævi hans og störf að rannsóknum og lækningum á ófæddum börnum »

05.07.06

  18:32:57, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 396 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Árásum svarað á trú og kristni

Nýjasta móðgun stjórnvalda við kristindóm og siðferði: gjörnýting fósturvísa

Hrikalegar fréttir eru í loftinu – komu fram í fréttum Ríkisútvarpsins í dag kl. 18 og voru til frekari umfjöllunar í 'Speglinum' á Rás 1 sama kvöld. Heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, hefur í hyggju að leggja fram frumvarp sem heimili notkun fósturvísa til stofnfrumurannsókna. Auðshyggjan og heiðin viðhorf gagnvart helgi mannlegs lífs stefna æ lengra í sigursókn sinni gegn lífsins gildum. Enginn stjórnmálamaður virðist hirða hætishót um að þverbrotið er gegn kristnum grundvallarlögum í því efni. Sama ásækni heimshyggjunnar birtist í nýrri fóstureyðingarpillu, sem nú virðist keyrð í gegn til notkunar án lagaheimilda. Þetta bætist ofan á hina falsnefndu "neyðargetnaðarvörn" sem nörruð var inn á þjóðina með ráðherravaldi án lagasetningar né lagaheimildar á árinu 2001, og fóstureyðingarnar "hefðbundnu" skv. lögunum frá 1975, sem nánast alla tíð hafa verið túlkuð allt of vítt og misnotuð til deyðingar þúsunda á þúsundir ofan. Þessu til viðbótar eru vændis-gælufrumvarp ráðherra og stjórnarfrumvarp (nú lög) um fjölskyldumál sem hvorki samrýmast kristnum ákvæðum né náttúrurétti.

Verður hvergi látið staðar numið í sókn veraldarhyggjunnar á vettvangi stjórnmálanna? Verður kristnum mönnum enn ætlað að fylgja í hlýðni þeim stjórnmálaflokkum sem annaðhvort í aumri skinhelgi eða algerri vanþekkingu lýsa sig fylgjandi og styðjandi við kristinn trúar- og siðferðisarf, þrátt fyrir margítrekaða sókn þeirra gegn lífsgildum okkar minnstu bræðra og systra og gegn hag og heill barna og fjölskyldna?

Ef einhvern tímann var komin ástæða til að mótmæla í nafni kristinnar trúar og mannréttinda, þá er það nú. Þeir flokkar, sem ætla sér að fylgja nytja- og gróðahyggjunni einni saman – pragmatismanum ókristna og auðshyggju sem virðir engin siðferðisleg mörk –, ættu að taka þau markmið opinskátt upp í stefnuskrár sínar í stað þess að nudda sér öllu lengur utan í kristindóm og kirkju. En kristinna manna bíður það skylduverkefni að tala út um trú sína og trúnað við Krist – og styrkja bræður sína og systur, sem eru óviss á veginum, trufluð og blekkt af sefjandi fagurgala heimshyggjunnar.

17 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég vil taka það fram, að ég býð alls ekki upp á þann málflutning í athugasemdum við þessa grein, sem gangi út á það að réttlæta dráp á ófæddum börnum. Þeir, sem á því hafa áhuga, geta komið slíkum skoðunum á framfæri annars staðar en hér. Þetta er ekki gestaboð svarinna fjandmanna hinna ófæddu.

05.07.06 @ 19:56
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég sá frétt í blaði í Baltimore í síðasta mánuði um að vísindamönnum við John Hopkins háskólann hefði tekist að fá lamaðar rottur til að ganga eftir að í þær hafði verið sprautað blöndu sem innhélt stofnfrumur úr fósturvísum. Mun lakara væri að nota fullorðins stofnfrumur skv. frásögn vísindamannsins. Í fréttinni var samt tekið fram að verkefnið væri á algeru tilraunastigi og það tæki mörg ár að fullvinna tækni út frá þessu. Ennfremur var sagt að til að svo gæti orðið vantaði afar mikið fjármagn, svo mikið að hæpið væri að hægt væri að leiða þessar rannsóknir til lykta nema alríkisstjórnin kæmi að málinu með styrkjum en á meðan Bush stýrir málum er ólíklegt að það gerist. Marylandfylki ætlar samt að styrkja þetta. Sjá t.d. frétt í Washington Post [Tengill]. Hér gæti því verið pólitísk flétta í uppsiglingu í líkingu við fyrri áform hérlendra stjórnvalda um að fá peninga inn í landið í gegnum umdeilda rannsóknarstarfsemi. Ef því verklagi verður haldið áfram þá verður framkvæmt fyrst og spurt svo.

05.07.06 @ 23:14
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þessa ábendingu, Ragnar. – Það er ekki svo, að stofnfrumurannsóknir geti einungis farið fram á efni úr fósturvísum, sem kosti að þeir séu drepnir, heldur er líka unnt að tala stofnfrumur úr fylgjunni og úr líkömum fullorðinna manna án þess að skerða í neinu mannlega lífveru. Gegn slíku standa kristnir menn ekki né þeir aðrir sem virða mannlegt líf allt frá getnaði (samruna eggfrumu og sáðfrumu).

06.07.06 @ 00:16
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Ekki veit ég til hvers er verið að bjóða upp á athugasemdir ef aðeins þeir sem eru sammála þér mega skrifa. Fyrir neðan greinina ætti frekar að standa samúðarskeyti.

En efnislega vil ég spyrja um eftirfarandi:
Af hverju ætti Alþingi að taka tillit til kirkjunnar þegar verið er að setja lög? Í landinu ríkir trúarbragðafrelsi og í frjálsu ríkji hlýtur löggjafinn í eðli sínu að vera veraldlegur. Sé hann það ekki, en fylgir hefðum vissra trúarhefða, sviptir hann fólkið trúarbragðafrelsi enda þröngvar hann með lögum vissum siðum á fólk sem er vantrúað eða annarrar trúar.
Það er trúaðra að iðka sín trúarbrögð en ekki annarra. Þín skoðun á kaþólskum siðferðisboðskap er ekki annars eðlis en skoðun Lúterstrúarmanna eða jafnvel Talíbana á sinni trú. Hvers vegna er það þín leið sem á að fara en ekki hinna?

06.07.06 @ 01:53
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Afstaða sú sem Árni túlkar hér varpar góðu ljósi á framsókn guðsafneitunarinnar í landinu. Þegar „nýfrjálshyggjan“ féll í sama farveg og „frjálslyndi“ vinstrimanna í siðrænum efnum opnuðust allar flóðgáttir Heljar: „Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist“ (2 Þ 2. 3).

Hið íslenska Alþingi hefur afneitað 1000 ára arfleifð kristindómsins með svo algjörum hætti, að ekkert er nú eftir annað en lögfesting LÍKNARMORÐANNA. Vafalaust renna slík lög ljúflega i gegnum þetta höfuðvígi framsóknar guðsafneitunarinnar.

Spyrja má: Hvers konar fólk er þetta? Mál sem rædd eru fram og aftur hjá nágrannaþjóðunum renna jafn ljúflega í gegnum þetta fyrirbrigði eins og léttvæg ákvæði um breytingar á vegalögum.

Ég tel málið satt best að segja komið á svo alvarlegt stig þarna niður við Austurvöll, að kristnir menn í landinu verði að stofna stjórnmálasamtök kristindóminum til varnar.

Þessir kjörnu fulltrúar líta alls ekki á sig lengur sem fulltrúa siðrænna gilda kristindómsins. Engu er líkara en að Ísland sé orðið að hluta Evrópubandalagsins.

06.07.06 @ 09:07
Snorri Óskarsson

Stofnfrumurannsóknir ættu að vera fagnaðarefni fyrir kristna því þær geta leitt til betra mannlífs og sigra á illvígri fötlun. En kristin gildi eru öll þannig að varðveita lífið og bæta það.
Þegar stofnfrumur eru teknar úr fóstrum sem er eytt þá er það sama og taka barn, fjarlægja úr því líffæri og græða inní “eldri” mann. Það er því ósamrýmanleg siðfræði við kristna trú sem samþykkir dauða eins aðila til að bjarga öðrum. Þessi ósamrýmanlega siðfræði einkenndi nazistana.

06.07.06 @ 09:38
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þetta, Jón. – Á hraðferð út úr húsi tek ég undir viðvörun þína gegn lögleiðingu “líknardrápanna” – og þú hefur rétt fyrir þér: siðferðisleg mótstaða stjórnmálamanna gegn slíkri og annarri lífsfjandsamlegri löggjöf verður trúlega sama sem engin, enda er strax á síðustu misserum farið að tala í þessa áttina. Þetta verður líka komið “í móð” sem “valkostur” þegar vestrænu samfélögin sitja uppi með sínar geysifjölmennu lífeyrisþegakynslóðir sem verða að sliga allt spítalakerfið og alla vinnandi menn í hinum fámennari kynslóðum eftir um 30–40 ár. Þannig mun einn drápsferillinn taka við af öðrum og það per consequens (þ.e.a.s.: það verður ekki annað en ‘rökrétt’ afleiðing eða framhald af fyrri skrefum í þessa átt). – En það er rétt, að hérlendis hafa hin andkristnu lög runnið léttilega gegnum þingið, þjóðinni til óbætanlegs tjóns og vansæmdar.

Ég svara svo Árna þessum seinna.

06.07.06 @ 09:44
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Snorri! Það er engin hugsandi maður sem hafnar stofnfrumurannsóknum. Þannig hvatti Biskuparáðstefna Evrópu til að þeim verði veittur meiri fjárstuðningur. En hér er miðað við stofnfrumurannsóknir á fullorðnu fólki.

Að myrða börn til að framleiða úr þeim snyrtivörur og lyf minnir óhugnalega mikið á „sápuframleiðsluna“ úr líkum fórnardýra nasismans. Við erum hér komin að mörkum þess að vera siðgæðisverur eða villidýr í mannsmynd. Þeir sem gleyma sögunni eru dæmdir til að upplifa hana aftur. Ég endurtek: Úr þessu er það ekkert nema stjórnmálaafl kristinna manna sem stöðvar fimbulfambið þarna niður við Austurvöll

06.07.06 @ 12:32
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Varðandi “valfrelsið” að “velja leiðina út (exit)", þá verður það fyrst kallað “eðlilegur valkostur", því næst “sjálfsagður", en síðan verða þeir gömlu látnir finna fyrir nefndum “valkosti” sem tilætluðum, af því að þeir sé orðnir “fyrir” og ekki nema “sanngjarnt” af þeim að “viðurkenna, að nóg sé orðið nóg", enda orðnir “gagnslausir” og “allt of kostnaðarsamir, leggi óheyrilegar byrðar á skattgreiðendur” o.s.frv. Ef allt um þrýtur, verður þeim bent á, að þeirra eigin kynslóð lét sér vel líka að “fórna” hinum ófæddu vegna tímanlegra lífsgæða mæðranna og feðranna – jafnvel að “fórna” nýfæddum börnum, ef þau voru með fæðingar-"galla” (því að þetta er trúlega næst í röðinni á lista dauðamenningarinnar, ef það er ekki nú þegar praktíserað hér, þótt dult kunni þá að fara). Þannig mun yngri kynslóð eftir 30–40 ár veitast auðvelt að réttlæta “líknardráp” – sér í lagi ef áfram heldur núverandi uppflosnun á kristnum lífsgildum í landinu. Hitt mun naumast verða efamál, að rétt eins og “líknardráp” eru nú þegar byrjuð í Hollandi og fleiri löndum, þá mun þrýstingur í þá áttina stóraukast með aldurskúrvu-viðsnúningnum í þeim löndum, þar sem nú fæðast hvað fæst börn á hverja foreldra, t.d. í Kína, Japan, Rússlandi, Spáni, Þýzkalandi, Ítalíu og víðar.

06.07.06 @ 14:46
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hvað varstu að kvarta, Árni Gunnar (kl. 01:53)? Ég fæ ekki betur séð en þú hafir fengið gott málfrelsi um grein mína hér ofar og það að mínu frumkvæði. Þú ert augljóslega ekki sammála mér og afsannar því það, sem þú segir sjálfur í fyrstu orðum, og getur jafnvel leyft þér að beita þar vissri hæðni (með tali þínu um “samúðarskeyti"). Hér er boðið upp á skoðanaskipti og því alls ekki rétt, að “aðeins þeir þeir sem eru sammála þér [=JVJ] mega skrifa.” Hitt er samt á hreinu, að við á Kirkjunetinu setjum mönnum bæði velsæmismörk um orðbragð og gerum kröfur til málefnalegrar umræðu, en á þessari síðu bætti ég við þeirri kröfu af minni hálfu, að menn láti það vera að lasta hér líf hinna ófæddu. Mér rennur blóðið til skyldunnar vegna hinna varnarlausustu allra, og mér svíður í augum að horfa upp á algera vanvirðingu við líf þeirra. Þeir, sem hugsa öðruvísi, hafa næga aðstöðu til að gera það annars staðar.

Þú spyrð: “Af hverju ætti Alþingi að taka tillit til kirkjunnar þegar verið er að setja lög?” – Tölum ekki um Alþingi sem persónu, heldur þingmenn sem persónur. Það er eðlilegt, að kristnir menn taki tillit til þess, sem trúin (sem byggir á opinberun Guðs) segir um siðræn og absolút gildi. Í landi, þar sem um 90% manna tilheyra kristnum kirkjum og fleiri til viðbótar söfnuðum, sem einnig játa guðstrú og hafa sínar skilmerkilegu siðferðiskröfur, þá er eðlilegt að gera ráð fyrir því, að allverulegur fjöldi hinna 63ja þingmanna tilheyri nefndum söfnuðum og játi kristið nafn eða aðra guðstrú. Það má vera mikið sálarklofinn þingmaður, sem telur trú sína – þ.m.t. í siðferðisefnum – ekki hafa neina þýðingu hvað varðar sannfæringu hans að öðru leyti. En skyldir eru þingmenn að fylgja sannfæringu sinni í málum og engu öðru. Þeim mun frekar má búast við (ef ekki beinlínis ætlazt til), að þingmenn sýni vissa hlýðni við kristnar grundvallarreglur í veigamestu málum, sem þeir hafa margsinnis í samþykktum flokka sinna verið með yfirlýsingar um að stefna þeirra sé að styðja við kristin siðferðisgildi; það á a.m.k. beinlínis við um þá tvo flokka, sem nú mynda meiri hluta á Alþingi. Ætla þingmenn þeirra flokka nú að lýsa því yfir, að kristin grundvallarviðhorf skipti þá engu máli – það eitt skipti þá máli að stuðla að “meiri nýsköpun og útrás” í atvinnulífi, sama hvað það kosti í mannlegum verðmætum og í yfirtroðslu siðferðisgilda?

Það er enginn “sviptur trúarbragðafrelsi", þó að þingmaður taki afstöðu í máli meðfram út frá trú sinni. Sé einhver ósáttur við hann, getur viðkomandi neitað honum um atkvæði sitt við næstu kosningar – þannig virkar lýðræðið.

Þegar þú, Árni, talar um að trúaður þingmaður “þröngv(i) með lögum vissum siðum á fólk sem er vantrúað eða annarrar trúar,” þá er því til að svara í 1. lagi: Með löggjöf hins trúlausa eða trúlitla, sem óvirðir líf hins ófædda (með hefðbundinni fóstureyðingu eða öðrum hætti), er verið að þröngva “siðferði” vantrúarinnar upp á hinn ófædda – og ekki með neinni smáræðis ‘þröngvun’, heldur beita hann því algera, endanlega ofbeldi að svipta hann lífi, saklausan og varnarlausan. – Í 2. lagi má svara því til, að allverulegur hluti af löggjöf hvers lands felur í sér þvingun (coercion), eins og í ljós kemur þegar viðskeytt viðurlagaákvæði þeirra eru skoðuð. Hver er gæfumunurinn á því, að vantrúaðir menn taki þátt í að búa til slík skyldukrefjandi lög eða hinir trúuðu?

Lokaklausa þín, Árni Gunnar, er dálítið þokuleg, og ég sleppi því að svara henni, þar til þú skýrir betur mál þitt fyrir lesendum.

06.07.06 @ 15:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér má bæta nokkru við. Tiltal trúarinnar og áhrif á hugsun þingmannsins er (langoftast) ekki einfaldlega né alfarið í því formi, að hann fletti bara upp í Biblíu sinni, trúfræðsluriti eða siðfræði og segi: “Gott og vel, þarna stendur þetta,” heldur ígrundar hann málið, enda oftast fleiri en eins atriðis að gæta, bæði í kristnu siðareglunum og eins í aðstæðum hlutanna. Þegar hann hefur sannfært sig um, hver kristna afstaðan sé, getur hann svo borið hana saman við afstöðu bæði veraldlegra fræðimanna, svo sem sérfræðinga sem unnu að samantekt viðkomandi frumvarps, annarra sérfræðinga á því sviði, samflokksmanna sinna í þinginu o.s.frv. Trúin leitar skilnings (fides quærens intellectum, sagði Anselm erkibiskup í Kantarabyrgi), og það þýðir, að hinn kristni þingmaður kannar, hvort það sé nokkuð í veraldlegum skynsemisfræðum og vísindum, sem andæfi staðhæfingu hinnar trúarlegu siðakenningar eða (að því er virðist) afsanni beinlínis þá afstöðu. Segjum til að mynda, að trúin hefði þá afstöðu, að frá getnaði beri að varðveita frumfóstrið og eyða því ekki, af því að þar sé um að ræða mannlegt líf, en vísindin hefðu svo sýnt fram á það og sannað óvefengjanlega, að þarna væri ekki um líf að ræða, þetta væri ekkert líf, ekki lifandi, og tilheyrði heldur ekki því sem kallast human species; EF þetta væri niðurstaða vísindanna, þá yrði trúmaðurinn að endurskoða trú sína og viðurkenna, að honum eða kirkjunni hafi orðið á í messunni, hrapað að ályktunum. En nú er það engan veginn svo. Frumfóstrið er mannlegt líf frá upphafi skv. öllum lífvísindum. Þess vegna hefur þingmaðurinn enga ástæðu til að hafna hinni kristnu afstöðu vegna neinnar villu hennar í þessum efnum; og það sama á við um fleiri mótbárur eða efasemdir, sem hann getur upplifað, meðan hann veltir þessum siðferðiskostum fyrir sér. En í þeirri rannsókn finnur hann einmitt staðfestingu skynseminnar og vísindanna á því, að meginfullyrðing trúarinnar byggði á raunsönnum forsendum í fullu samræmi við eðli máls.

06.07.06 @ 15:47
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Mér þætti vænt um ef þú myndir ekki reyna að nota tíma dags, eða nætur, til að gera lítið úr máli mínu. Ég veit ekki hvaða máli það skiptir hvenær athugasemdin er skrifuð. Ég vinn á næturvöktum og verða ekki verri fyrir það að skrifa kl. 1:53, eða jafnvel 4:53.

Ég kvartaði yfir því að þú reynir að vísa andstæðingum frá fyrirfram. Það að þú gerir það ekki er bara gott.

Það sem ég á við með þessari þokulegu klausu er að þín trú og sannfæring er sama eðlis og annarra strangtrúaðra. Múslimaklerkur hefur aðrar hugmyndir en þú en þær eru sama eðlis. Þær eru trú á gamlar bókmenntir og á siðferðisboskap þeirra í algerri blindni. ,,Það er til Guð og allir ættu að fara að lögum hans.”

Af hverju er þín sannfæring réttari en hans? Hvernig er mögulega hægt að færa rök fyrir því að einn siðferðisboðskapur sé réttari en annar ef hann byggist á meintum reglum frá Guði? Svarið er auðvitað: Það er alls ekki hægt. Þess vegna verða lög og reglur samfélagsins að rísa á grundvelli manna og efnis en hafa rúm fyrir þá sem vilja (trúaða) að fylgja reglum síns Guðs, hver sem hann kann að vera.

06.07.06 @ 18:16
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég var ekki að gera lítið úr því, hvenær þú skrifaðir, Árni. Ég hef sjálfur oft skrifað á netið í kyrrð nætur. Ég var einungis að auðvelda lesendum að finna póstinn þinn hér ofar.

Það er víst gott, já, hið ágætasta mál, að ég leyfi mér það einu sinni að bannlýsa réttlætingu á drápi ófæddra barna hér á minni eigin vefsíðu, rétt eins og ég myndi úthýsa réttlætingu á svívirðilegum þjóðamorðum nazista og Rauðu Khmeranna, til dæmis. Og málsvarar fósturdrápa hafa á yfrið nægan hátt fengið að dreifa áróðri sínum hingað til út um allar jarðir og ekki einungis það, heldur sigrað með sinn blóðuga málstað í fjölda þjóðþinga, svo að um 48 milljónum ófæddra er slátrað árlega. Og ertu enn ekki ánægður??? Viltu að auki fá að mæla með svínaríinu hér í mínu gestaboði?! Nei takk!!!

Svara hinu síðar.

06.07.06 @ 19:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það var gott þú skýrðir betur óljóst mál þitt, Árni.

Það sem ég á við með þessari þokulegu klausu er að þín trú og sannfæring er sama eðlis og annarra strangtrúaðra. Múslimaklerkur hefur aðrar hugmyndir en þú en þær eru sama eðlis. Þær eru trú á gamlar bókmenntir og á siðferðisboskap þeirra í algerri blindni. ,,Það er til Guð og allir ættu að fara að lögum hans.”

Sama eðlis? Hvernig sannarðu það? Og hvað sýnir þér, að ég trúi í blindni? Ég er sjáandi, meðan ég trúi. Ég trúi ekki 20 ótrúlegum hlutum eins og Lísa í Undralandi fyrir morgunmat. Trú okkar kristinna manna er ekki andstæð skynseminni. Er trú á lygi og trú á sannleika sama eðlis? Nei. En lokasetningin í gráa málinu hér ofar stenzt – ekki sem sér-múslimskur sannleikur, heldur almennur.

Af hverju er þín sannfæring réttari en hans? Hvernig er mögulega hægt að færa rök fyrir því að einn siðferðisboðskapur sé réttari en annar ef hann byggist á meintum reglum frá Guði? Svarið er auðvitað: Það er alls ekki hægt.

Rangt ályktað. Náttúrleg siðfræði getur t.d. verið notuð sem mælistika, kriterion, á hinar ýmsu útgáfur trúarlegra siðakenninga. Neitarðu því? Dæmir hún t.d. ekki það Inkasiðferði að fórna þúsundum mannslífa í hjáguðadýrkun þeirra? Þar fyrir utan hefur kristindómurinn miklu fleiri stoðir síns áreiðanleika en trúarbrögð múslima. Þeir síðarnefndu tala t.d. um persónur úr Gamla og Nýja testamenti með þeim hætti, að ljóst er, að mikilvægir hlutir í því máli þeirra ganga ekki upp sögulega séð.

En ég hef ekki verið að segja, að við eigum að breyta lýðveldinu í theokratí byggt á Biblíunni. Kristnir menn eiga að virða skynsemi, fræði og vísindi – við kaþólskir höfum þá hefð að gera það, tölum á virðingarfyllri hátt um skynsemina en Lúther gerði á stundum. Skynsemin er okkur gefin af Guði, og okkur ber að nota hana, maðurinn er eftir skilgreiningu skynsemisvera, animal rationale. En sú skynsemi er ekki óskeikul, og upplýsing trúarinnar fær okkur oft til að sjá, að eitthvað er brogað við “upplýsingar skynseminnar.” Þannig fúngerar trúin sem krítíserandi og leiðréttandi á hugsanlegar villur meintra skynsemisályktana manna. En hún er líka með sínar eigin ábendingar, sem stundum hafa hjálpað mönnum að rata réttu leiðina í því að brjóta til mergjar með skynseminni verkefni sem hún hefði ella ekki áttað sig á fyrr en kannski löngu seinna. Trúin er ekki síður Guðs gjöf en skynsemin.

06.07.06 @ 21:31
Guðmundur D. Haraldsson

„Ennfremur var sagt að til að svo gæti orðið vantaði afar mikið fjármagn, svo mikið að hæpið væri að hægt væri að leiða þessar rannsóknir til lykta nema alríkisstjórnin kæmi að málinu með styrkjum en á meðan Bush stýrir málum er ólíklegt að það gerist. Marylandfylki ætlar samt að styrkja þetta. Sjá t.d. frétt í Washington Post [Tengill]. Hér gæti því verið pólitísk flétta í uppsiglingu í líkingu við fyrri áform hérlendra stjórnvalda um að fá peninga inn í landið í gegnum umdeilda rannsóknarstarfsemi. Ef því verklagi verður haldið áfram þá verður framkvæmt fyrst og spurt svo.“

Hvaða rannsóknarstarfsemi var þetta sem þú talar um í breiðletrun minni? Hversu umdeilt var þessi rannsóknarstarfsemi?

07.07.06 @ 21:15
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég átti við deCode málið og deilurnar um gagnagrunninn.

07.07.06 @ 21:38
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Nú er verið að keyra á stofnfrumumálið, bæði í fjölmiðlum og í athafnasemi manna í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu, sem og þeirra lækna og líffræðinga sem þessu tengjast, til að styðja við frumvarpið sem ætlunin er að renna gegnum þingið. Ég lagði hér inn lengri aths. um það rétt áðan, en hef nú fært hana yfir í sérstaka vefgrein, Áhlaup efnishyggjunnar í stofnfrumur fósturvísa, sem ég er enn að auka við. Þetta er mál málanna í dag.

30.11.06 @ 10:48
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software