« Um kveifska menn, arga og sannleikann | Um kirkju Krists og veraldarhyggjuna » |
+ Jesús, María
Kæru kristssystkini. Mig langar að vekja athygli ykkar á nýju verki á Vefrit Karmels, en hér er um íkonur að ræða sem Karmelsysturnar í Harassa í Líbanon gerðu í tilefni 400 ára árstíðar hl. Jóhannesar af Krossi. Verkið heitir: Frá myrkrinu til Ljóssins (De las tienieblas a la luz) og er á íslensku.
Hið andlega brúðkaup Krists og kirkjunnar og sérhverrar sálar sem gengur veg helgunarinnar hefur ávallt verið kjarni dulúðar kaþólsku jafnt sem lútersku kirkjunnar. Minnumst þess að það var Guðbrandur byskup Þorláksson sem lét þýða verk Martins Möllers – Mysterium magnum – og gefa út árið 1615 eða; Sá mikli leyndardómur um það himneska brullaup og andlega samtenging vors herra Jesú Krists og hans brúðar kristilegrar kirkju.
Það er einmitt þetta sem heil. Jóhannes af Krossi fjallar um í Ljóði andans (Cantico espiritual) sem einnig má finna á Vefrit Karmels.
Þetta er okkur öllum þörf áminning nú þegar veraldarhyggjan (secularism) gerir svo harða atlögu að helgi kristins hjónabands. Í íkonuskrifum Karmelsystranna í Harassa verður þetta að miklu listaverki. Njótið heil.