« Vígsludagur Kristskirkju á Landakotshæð haldinn hátíðlegurBenedikt XVI páfi rýmir til fyrir nýjum páfa í Róm »

08.05.13

Ný Messubók kirkjunnar

Það var fögur og hrífandi stund í dómkirkju Krists konungs í gær, þegar í helgigöngu presta og leikmanna var borin inn ný Messubók kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, raunar sú eina í fullkominni mynd, og lögð á altarið. Biskup okkar, Pétur Bürcher, stýrði athöfninni og sjálfur forseti Íslands viðstaddur, einnig megnið af prestum biskupsdæmisins, enda eru þeir með synodus þessa dagana. Biskupinn, séra Jakob Rolland og séra Patrick Breen fluttu ávörp, og fagurlega spilaði kaþólsk nunna á fiðlu – og systurnar sungu fagra hymna, síðast Regina Coeli (Himnadrottningin) sem margir tóku undir.

Meðal þess, sem séra Jakob vék að í ávarpi sínu, var hin gleðilega fjölgun kaþólskra hér á landi, en tala þeirra hefur ... [frh. neðar]

þrefaldazt á síðustu 10 árum. Þá eru skírnir tíu sinnum fleiri en útfarir, og er það einnig órækt merki um, hve vel kirkjunni vegnar.

Eftir athöfnina í dómkirkjunni var öllum, m.a. viðstöddum leikmönnum, boðið í aðra athöfn í safnaðarheimilinu. Þar var Messubókin kynnt frekar. Af henni eru aðeins prentuð 53 eintök, með afar fallegu sniði, eins og rómverska messubókin, sem kom út 1969 eftir Vatíkanþingið, og mestallt verkið handgert, bókbandið t.d. handsaumað, og unnið í Odda. Prentarar og aðrir starfsmenn þar voru viðstaddir athöfnina.

Biskupinn hélt þar ávarp, bauð alla velkomna og gerði stutta grein fyrir verkinu, m.a. að páfinn okkar nýi, Franz I, fær eitt eintak af bókinni miklu, í hvítu skinnbandi, en annars eru eintökin í rauðu bandi. Biskupinn færði forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrsta eintakið að gjöf, til varðveizlu að Bessastöðum.

Herra Ólafur Ragnar flutti ræðu bæði á ensku og íslenzku, þakkaði heiðurinn og fór yfir ýmislegt menningarsögulegt efni, m.a. hvernig í ljós hefur komið með fornleifauppgreftri, að kirkja hefur verið á Bessastöðum frá því um 1100 e.Kr., m.ö.o. kaþólsk kirkja verið þar í meira en fjórar aldir. Forsetinn sló einnig á létta strengi, og voru allir glaðir yfir líflegri ræðu hans.

Síðan tók við kanzlari biskupsdæmisins, Jakob Rolland, sem hélt fræðandi ræðu um Messubókina og alla forvinnu hennar og forsögu. Það var árið 1959 sem ágrip af þáverandi messubók kaþólsku kirkjunnar, Missale Romanum, var gefið út á latínu og íslenzku, í fjórum heftum. En svo neyðarlega vildi til fyrir aðstandendur þess verks, að árið eftir var ákveðið af páfanum og á 2. Vatíkanþinginu, að gefin yrði út ný messubók (endanlega 1969), og þar með voru þessi hefti eiginlega gengin úr gildi, og er upplagið af þeim að mestu geymt í bókasafninu í Landakoti. Sr. Jakob rakti síðan stuttlega framhald þessara mála, en fáein hefti hafa komið út með messutextum, einkum stórhátíða, en mest verið notazt við ljósrituð blöð. Er nú mjög skipt um í þeim efnum. En hann vék einnig á athyglisverðan hátt að þeirri staðreynd, að messubækur voru mjög fyrirferðarmiklar meðal handrita hér á miðöldum; þar eru það ekki Íslendingasögur og verk manna eins og Snorra Sturlusonar, sem flest handritin eru af, heldur messu- og helgisiðabækur, sem eru jafnvel 90% alls skinnbókaefnis frá miðöldum.

Færðar voru þakkir öllum þeim, sem að þessu verki hinnar nýju Messubókar komu, á yfir 40 ára tímabili. Þar má fyrsta telja Jóhannes Gunnarsson biskup, séra Sæmund Vigfússon, séra Hákon Loftsson og Hinrik biskup Frehen, sem allir eru látnir, en einnig starfaði með þeim Torfi Ólafsson, lengi formaður Félags kaþólskra leikmanna, sem enn er meðal okkar og fekk sitt lófatak við athöfnina, ennfremur seinna séra Jürgen Jamin (nú í Þýzkalandi) sem vann að verkinu með þeim, sem mesta þungann bar af því á síðustu árum, latínumanninum Svavari Hrafni Svavarssyni, prófessor við heimspekideild HÍ, sem viðtal var við í fréttatíma Sjónvarpsins þetta kvöld og einnig var klappað fyrir í gær.

Þar bauð biskup síðan til kaffisamsætis og góðra veitinga. Meðal áður ónefndra gesta voru vígslubiskupinn í Skálholti, Kristján Valur Ingólfsson, fyrrverandi biskup Karl Sigurbjörnsson, séra Tímur Zolotuskiy, prestur rússnesk-orþódoxu kirkjunnar á Íslandi, sr. Gunnþór Ingason, prestur í Hafnarfirði, og forstjóri Odda, Þorgeir Baldursson, með sínum starfsmönnum að verkinu.

Það var merkileg upplifun að blaða svolítið í Messubókinni og sjá fagurt yfirbragð vel unnins textans, með læsilega stóru letri og fallegu. Það gladdi þann, sem þetta ritar, að taka eftir, að þar er nafn Jesú Krists beygt eins og frá upphafi hafði verið gert hér á landi, ekki með nýju einföldunarsniði.

Hér er frétt Rúv af þessum atburðum: Messubók afhent.

HÉR, á Mbl.is, er svo hægt að sjá heila myndasýningu úr kirkjunni og safnaðarheimilinu, mjög fínar myndir af prócessíunni og hluta kirkjugesta, myndir af biskupinum við altarið og af forsetanum og séra Jakobi. Á einni þeirra setur hann Messubókina opna ofan á höfuð sér, en þar var hann að lýsa því, hvernig kórdrengir í Frakklandi þurfu að bera sig að til að presturinn gæti lesið texta guðspjallsins upp af bókinni. Hægt er að smella á stillingu (neðan við hægra horn myndanna) til að fá sjálfkrafa myndasýningu.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Gunnþór Ingason
Gunnþór Ingason

Þakka þessa ágætu skýrslu um íslenska útgáfu, afhendingu og kynningu á messubók kaþólsku kirkjunnar. Ánægjulegt var að vera viðstaddur bæði í Kristskirkju og svo safnaðarheimili hennar á helgum og góðum stundum. Blessunaróskir í dýrmætu boðunar samkirkjulegu starfi. Gunnþór.

08.05.13 @ 11:33
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Heilar þakkir, séra Gunnþór!
Kaþólska kirkjublaðið er komið út, 5.–7. tbl. 23. árg. Þar er heilsíðugrein á blaðsíðu 14: ‘Fyrsta útgáfa rómverskrar messubókar á íslenzku’. Kemur þar m.a. fram, að í nefnd presta og leikmanna til að vinna að uppsetningu textans, prófarkalestri og lagfæringum og undirbúningi til prentunar sátu séra Hjalti Þorkelsson, séra Jakob Rolland, séra Jürgen Jamin og séra Patrick Breen, “og af leikmönnum má helzt nefna Gunnar F. Guðmundsson, Pétur Urbancic og Þorkel Örn Ólason.”

08.05.13 @ 11:47
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan fróðlega og vel unna pistil Jón! Ég velti fyrir mér hver verður framtíð “bláu” messutextabókarinnar sem kirkjugestir hafa notað til messusvara og hvort textar þessarar nýju bókar verða gefnir út í handbókarformi í sama tilgangi, þ.e. fyrir safnaðarmeðlimi að nota í messum.

08.05.13 @ 16:37
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ekki hef ég svar við því, Ragnar, en þakka þér vinsamleg orð.

08.05.13 @ 17:25
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution