« Elín Flygenring skipuð sendiherra Íslands hjá PáfagarðiAllra heilagra messa og allra sálna messa »

23.12.08

  18:58:49, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 324 orð  
Flokkur: Helgir menn, Kaþólska kirkjan á Íslandi

Ný íslensk stytta af Þorláki helga

Fyrir um einu ári lauk listakonan Sigga á Grund við gerð útskorinnar styttu af Þorláki helga. Styttan er um 47 sm. há og skorin út úr sérvöldum kjörviði. Þeir sem þekkja til Siggu á Grund vita að hún er útskurðarmeistari sem hefur gert marga kosta- og kjörgripi sem bera vitni nákvæmni, einstöku handbragði og listrænu innsæi. Við Sigga erum fyrrum sveitungar og nágrannar og hún féllst góðfúslega á að taka þetta verkefni að sér að minni beiðni. Ástæða þess að ég réðst í þetta framtak var sú að mér þótti vanta styttu af Þorláki helga sem hægt væri að gera afsteypur af. Þó til sé stytta af Þorláki helga í Kristskirkju í Landakoti þá er hún of stór til að hún henti sem frummynd fyrir afsteypu.

Hugmyndin var líka sú að gera styttu sem væri útskorin af íslenskum listamanni. Árangurinn var stytta sem fór fram úr björtustu vonum. Hún sýnir Þorlák helga í biskupsskrúða haldandi á bók í vinstri hendi og með hægri hendi í blessunarstöðu. Á höfði ber hann biskupsmítur með útskorinni lilju sem var tákn íslensku miðaldakirkjunnar. Á fótum eru sauðskinnsskór.

Í ljósi efnahagsástandsins var ákveðið að slá afsteypugerð á frest en þess í stað voru teknar ljósmyndir af styttunni. Á miðvikudagskvöldið síðasta var Þorláksstyttan svo sýnd opinberlega í fyrsta sinn á bókakvöldi í Sunnlenska bókakaffinu og jafnframt auglýstar ljósmyndir sem Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari í Filmverk á Selfossi hefur tekið af styttunni. Myndir þessar eru til sölu í Sunnlenska bókakaffinu, í verslun Karmelsystra í Karmelklaustrinu við Ölduslóð í Hafnarfirði. Þær eru einnig fáanlegar í kaþólsku versluninni í Safnaðarheimili Maríukirkju við Raufarsel 8 í Breiðholti. Einnig er hægt að panta þær hjá undirrituðum.

Ragnar Geir Brynjólfsson (ragnargeir @ gmail.com)

1 athugasemd

Baldur Kristjánsson

Áhugavert, fróðlegt, takk fyrir. Kv. B

23.12.08 @ 19:38