« PáfamessanRitningarlesturinn 4. desember 2006 »

24.12.06

  13:33:15, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 277 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Nóttin var sú ágæt ein!

1. Emmanúel heitir hann
herrann minn enn kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

2. Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröldu ljósið skein,
það er nú heimsins þrautar mein
að þekkja hann ei sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

3. Í Betlehem var það barnið fætt
sem best hefur andar sárin grætt;
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

4. Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann;
í lágan stall var lagður hann
þó lausnarinn heimsins væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

5. Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum þrátt;
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

6. Í Betlehem vil eg nú víkja þá
vænan svein í stalli sjá,
með báðum höndum honum að ná
hvar að eg kemst í færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

7. Betlehem kallast kirkjan svinn,
kórinn held eg stallinn þinn,
því hef eg mig þangað, herra minn,
svo heilræðin að þér læri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

8. Upp úr stallinum eg þig tek
þó öndin mín sé við þig sek;
barns mun ekki bræðin frek,
bið eg þú ligg mér nærri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

Einar Sigurðsson frá Heydölum.

GLEÐILEG JÓL!

No feedback yet