« „Hreinsaðu fyrst bikarinn innan“ – Hl. Jóhannes EudesNóttin er ljós mitt – eftir Wilfrid Stinissen ocd (1) »

05.08.08

  08:19:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1045 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

Nóttin er ljós mitt – eftir Wilfrid Stinissen ocd (2)

Nýlega kom út 11. ritið hjá Vefritum Karmels: „Nóttin er ljós mitt – ritskýringar við hina myrku nótt Jóhannesar af Krossi“ eftir karmelítaföðurinn Wilfrid Stinissen. Ritið má fá á:

http://www.lulu.com/content/3337173

Hér verða birtir tveir kaflar úr ritinu: „Dæmið ekki“ og „Guðsríkið er hið innra með yður.“ Hér er sá síðari:

„Guðsríkið er hið innra með yður“

Þegar við höfum unnið úr „vörpununum“ og þannig frelsað sektarlambið sem við höfðum útvalið til að axla þá byrði sem við höfðum lagt á það, getum við byrjað á þriðja stiginu. Á öðru stiginu hverfum við frá hinu ytra til hins innra. Nú hverfum við til þess innsta, til þeirra híbýla þar sem Guð býr. Guðs ríki er hið innra með yður, segir Jesús (Lk 17, 21). Við göngum inn í þetta ríki Guðs og tökum sekt okkar með okkur. Jafnskjótt og við leggjum hana fram fyrir Guð gufar hún upp. Og meira en það: Myrkrið ummyndast í ljós. Og þótt ég segði: ‚Myrkrið hyljir mig og ljósið í kringum mig verði nótt,‘ þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of mikið og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér (Sl 139. 11, 12).

Engin synd fær staðist þegar hún er borin fram fyrir Guð. Hann getur ekki séð neitt sem er sært eða saurgað. Allt sem kemst í snertingu við hann ummyndast í hans eigin ásýnd. Það skiptir engu máli hvort sektin er stór eða lítil. Fyrirgefningin streymir sem stórfljót yfir hana. Guð þarf aldrei að íhuga hvort hann ætli að fyrirgefa eða ekki. Hann er fyrirgefningin. Það er broslegt að trúa því að Guð getir þreyst á því að fyrirgefa. Fyrir honum væri þetta líkt og að verða þreyttur á því að vera til. Fyrirgefningin er eðli hans. Guð endurskapar í eilífu núi.

Það er undursamlegt að sjá hvernig Faðirinn og Sonurinn gera allt til að forðast að dæma, Enda dæmir Faðirinn engan, heldur hefur hann falið Syninum alla dóma (Jh 5. 22). En Sonurinn vill ekki dæma. Ég dæmi engan, segir hann (Jh 8. 17). Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn (Jh 12. 47). Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til (Faðirinn), sem leitar hans og dæmir (Jh 8. 50). Faðirinn og Sonurinn varpa dómsúrskurðinum á milli sín. „Ekki ég“, segir Faðirinn. „Ekki ég heldur“, segir Sonurinn. Hvorugur vill vera ábyrgur vegna dómanna. Guð dæmir ekki. „Þetta er dómurinn,“ segir Jesús: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið (Jh 3. 19).

Þegar Jóhannes af Krossi víkur að hinum anagógísku (upphefjandi) viðbrögðum, lýsir hann einmitt þriðja stiginu. Hin anagógísku viðbrögð eru að hans dómi einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að forðast lesti og freistingar. Við vitum að mesta freistingin felst í því að þora ekki að koma til Jesú með sekt sína, að trúa ekki á hann (Jh 16. 9). Þegar við verðum vör við fyrstu freistinguna eða ertinguna frá einhverjum lastanna, eins og losta, reiði, óþolinmæði eða hefnigirni vegna einhvers óréttlætis sem við höfum verið beitt . . . eigum við samstundis og við verðum þessa áskynja að grípa til viðbragða eða hræringar hins „anagógíska“ kærleika gagnvart þessum lesti með því að hefja hjörtu okkar upp til Guðs. Þegar sálin hefur sig upp með þessum hætti flýr hún allt slíkt og gengur fram fyrir Guð sem hún sameinast. Það er með þessum hætti sem lestirnir, freistingarnar og áreitni fjandmannsins renna út í sandinn og hann finnur engan fyrir sem hann getur unnið tjón.

Sálin sem vill frekar dvelja þar sem hún elskar en þar sem hún ver lífi sínu, hefur með guðdómlegum hætti hrifið líkamann frá freistingunni, og þess vegna festir fjandmaðurinn ekki hendur á neinu til að ljósta það eða festa í snöru sinni vegna þess að sálin er ekki lengur til staðar þar sem fjandmaðurinn ætlaði að særa hana eða skaða. Og nú gerist dálítið undursamlegt! Það er eins og sálin hafi gleymt ertingum lostans, já, hún hefur sameinast og er orðin eitt með Ástvini sínum og finnur ekki lengur til neinnar freistingar frá þessum lesti sem djöfullinn ætlaði að leggja fyrir hana.

Í stað „anagógískra“ viðbragða getum við einnig nefnt þetta „katagógísk“ (niðurferðar) viðbrögð: miðjunarviðbrögð. Við hverfum til miðju okkar þar sem Guðsríkið er að finna. Við „stökkvum yfir eigin skugga,“ eins og Vaclav Havel orðaði það og göngum inn í ljósið.

Þegar við höfum fundið Guðsríkið hið innra með okkur, þegar við erum orðin ljós í Drottni (Ef 5. 8), getum við gengið út að nýju, en nú ekki til þess að dæma og ákæra, heldur sem boðberar elskunnar til að útbreiða himnaríki, til þess að hugga með þeirri huggun sem við höfum sjálf orðið aðnjótandi hjá Guði, huggað sérhvern þann sem þjáist (2Kor 1. 4).

Himnaríki er hið innra með okkur. Það er til reiðu. Við neyðumst ekki til að byggja það frá grunni. Það bíður okkar, bíður þess að við göngum inn í það. Ef við gerum þetta göngum við inn í sáttagjörð við Guð og okkur sjálf, við meðbræður okkar, við allt sköpunarverkið. Því að hann er vor friður, Hann hefur . . . rifið niður vegginn, fjandskapinn á milli þeirra (Ef 2. 14).

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Til hamingju með þetta Jón. Það er ánægjulegt að þetta rit skuli nú vera aðgengilegt á íslensku.

15.08.08 @ 05:50