« Nóttin er ljós mitt – eftir Wilfrid Stinissen ocd (2)Vísindi allra vísinda og list allra lista – um hið guðdómlega ásæi mannsandans »

29.07.08

  08:58:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1414 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

Nóttin er ljós mitt – eftir Wilfrid Stinissen ocd (1)

Nýlega kom út 11. ritið hjá Vefritum Karmels: „Nóttin er ljós mitt – ritskýringar við hina myrku nótt Jóhannesar af Krossi“ eftir karmelítaföðurinn Wilfrid Stinissen. Ritið má fá á:

http://www.lulu.com/content/3337173

Hér verða birtir tveir kaflar úr ritinu: „Dæmið ekki“ og „Guðsríkið er hið innra með yður.“ Hér er sá fyrri:

Dæmið ekki!

Hluti þessarar „andlegu og opnu hugarfarsafstöðu“ felst í því að dæma ekki. Ef við erum sammála Jóhannesi af Krossi um að tilgangur ögunaræfinga sé að öðlast frelsi vegna Guðs, þá getum við samsinnt því að reglan „dæmdu ekki“ sé ein mikilvægasta ögunaræfingin.

Í smáriti einu sem venjulega er nefnt Cautelas (Varúðarráðstafanir) snýr Jóhannes af Krossi sér til reglubróður síns og veitir honum nokkrar andleg hollræði. Hann kemst meðal annars svo að orði: „Blandaðu þér ekki í málefni annarra, hvort sem svo um gott eða illt er að ræða. Auk hættunar á að syndga veldur þetta einbeitingarleysi og andlegri þurrð . . . Þannig ber þér að skilja að þeir sem eru í klaustrinu eru hand­verksmenn sem Guð hefur skipað hér stað til að deyða þig með því að móta þig og högg­va til. Sumir munu höggva með orðum og grei­na þér frá því sem þú vildir helst af öllu ekki heyra. Aðrir munu gera það með verkum sem þér er þvert um geð, enn aðrir með skapferli sínu sem með framferði sínu og verkum skaprauna þér og koma þér í uppnám. Aðrir gera það með hugs­unum sínum þar sem þeir meta þig hvorki né elska.“

Að við skiljum ekki „kjarnann“ (la sustancia) að baki þessa alls grundvallast fyrst og fremst á því, að við hrærumst á „yfirborðinu“ í upp­haflegri merkingu orðsins: Við höldum okkur við úthverfuna. Jafnskjótt og við tökum að þræða veginn til baka frá hinu ytra til „kjarn­ans,“ hverfur sú árátta að dæma.

Hvernig lýsir þessi vegur sér? Við getum skipt honum í þrjá hluta eða stig.

Á fyrsta stiginu öðlumst við meðvitund fyrir því hvaða hugmyndir við gerum okkur um meðbræður okkar. Skortur slíkrar meðvitundar er einn af helstu ágöllum okkar. Meðvitundin er ein af þessum sér­eigindum mannsins, en dregur hann jafnframt til ábyrgðar. Við mennirnir get­um stigið eitt skref til baka og virt okkur sjálfa fyrir okkur úr fjarlægð. Þetta er forsenda þess að við getum komið reglu á líf okkar. Ég get ekki látið kærleiksríkar hugsanir leysa gagnrýnina af hólmi, ef ég geri mér ekki ljóst að hugs­anir okk­ar eru gegnsýrðar þessari gagnrýnu af­stöðu.

Ef einhver hefði tök á því að hljóðrita hugs­anir okkar – örfáar klukkustundir væri meira en nóg – og léki síða hljóðsnælduna fyrir okkur og við hefðum nægilegt hugrekki til að hlusta, yrðum við ef til vill felmtri slegin þegar okkur gæfist tækifæri til að hlusta á alla þá gagnrýni, dómhörku og fordóma sem opinberast í hugs­unum okkar á þessum stutta tíma.

Þegar við öðlumst meðvitund fyrir dómhörku okkar getum við byrjað á öðru stiginu. Þetta felst í því að gera sér ljóst, að þegar við dæmum annað fólk, þá erum við fyrst og fremst að kveða upp dóm yfir okkur sjálfum. Sá sem er ekki sáttur við að eldast er umhugað að sjá aðra eldast. Maður sem metur trúnaðinn mikils í hjónabandinu er fullur grunsemda gagnvart eig­inkonu sinni og er afbrýðisamur. Sá sem fyr­irlítur einhvern annan, þjáist sjálfur af sjálfsfyr­irlitningu. Það sem við fellum okkur ekki við í fari okkar sjálfra yfirfærum við ómeðvitað yfir á annað fólk. Þetta er hagkvæm lausn að okkar mati. Í raun og veru er vandamálið sjálft óleyst, rætur vandans eru enn til staðar, en nú í grímu­búningi og þar af leiðandi enn skaðlegri.

Djúpsálarfræðin skilgreinir þessa aðferð sem vörp­un eða yfirfærslu (ptojection). En þetta er jafn gamalt sjálfum manninum. Við rekumst þegar á þetta hjá Adam gamla og Evu í þeirri sjálfsfyrirlitningu og beiskju sem þau upplifðu eftir að hafa etið af forboðna trénu og vörpuðu yfir á Guð. Þau trúðu því að það væri hann sem væri reiður og beiskur. Þau gerðu hann að fjandsamlegum Guði. Það verður hlutverk Jesús að leysa mennina undan ánauðaroki þessarar vörp­unar og sýna fram á, að Guð elski þá þrátt fyrir allt sem þeir hafa brotið af sér.

Jóhannes af Krossi bar gott skyn á eðli vörp­unarinnar. „Við teljum að aðrir dragi dám af okkur sjálfum,“ skrifar hann, „og við dæmum aðra í ljósi þess sem við erum sjálf vegna þess að dómar okkar koma að innan, en ekki að utan. Þannig telur þjóf­urinn að aðrir steli og sá lostafulli telur að lost­inn þjaki einnig aðra. Sá illgjarni álítur að aðrir hljóti einn­ig að vera fullir illsku og sá gæskuríki ber góðar tilfinningar í brjósti til ann­arra vegna þess að dómur hans streymir fram úr gæsku hans eigin hugs­ana og þeir sem eru hirðulausir og sofandi eru sannfærður um að aðrir hljóti einnig að vera það. Þannig er það þegar við erum hirðulaus og sofandi gagnvart nærveru Guðs, að þá teljum við að það sé Guð sem sé sofandi og sinni ekkert um okkur“ (Logi lifandi elsku 4, 8).

Dæmið ekki, segir Jesús, þá verðið þið ekki dæmd­ir. Því að með þeim dómi sem þér dæmið, munuð þér dæmdir og með þeim mæli, sem þér mælið, munuð yður mælt verða. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þér. Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ‚Lát mig draga flísina úr auga þér?‘ Og þó er bjálki í auga sjálfs þíns (Mt 7. 1-5). En yfirleitt þarft þú ekki að draga flísina úr auga bróður þíns vegna þess að flísin er ekkert annað en skuggi af bjálkanum í þínu eigin auga. Að við verðum dæmd með þeim dómi sem við dæmum aðra með er ekki unnt að rekja til réttlætis Guðs, heldur er þetta eðli málsins sam­kvæmt. Það erum við sjálf sem kveðum upp okkar eigin dóm þegar við dæmum aðra vegna þess að við ásökum þá um það sem við viljum ekki viðurkenna í fari okkar sjálfra. Fyrir því hefur þú maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama (Rm 2. 1).

Ef við viljum öðlast sjálfsþekkingu er hyggi­legt að við gefum því gætur hvað það sé í fari annarra sem fer í taugarnar á okkur. Iðulega er það einmitt þetta sem við viljum ekki kannast við í fari okkar sjálf­ra. Á hinum andlega vegi eru það „fjandmenn“ okkar sem eru okkar hollustu uppfræðarar. Það ber vott um þroska að dæma ekki aðra þegar við erum leið eða okkur finnst við hafa verið svikin, að leita orsakanna fremur hjá okkur sjálfum og vinna með okkur sjálf. Það er barnaskapur að telja aðra sökudólgana.

Vissulega uppgötvum við ekki alltaf ná­kvæmlega sömu ágallana í okkur sjálfum eins og við sökum aðra um. En sérhver ásökum leiðir í ljós skort á fyrirgefningu hjá þeim sem ber ásökunina fram. Þeim sem hefur verið fyrirgefin sekt sín ásaka ekki aðra: Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður . . . Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt (1Kor 13. 4, 7).

No feedback yet