« Kaþólsk kirkja í Árbæjarsafni?Guð, hvers vegna? »

11.12.09

Páfinn hneykslast að vonum á barnaníðingshætti prestahóps á Írlandi

Frá því var sagt á BBC World Service í fréttatíma um hádegið, að Benedikt páfi 16. deili með írsku þjóðinni hneykslun og skömm vegna kynferðislegrar misneytingar 45 presta gegn börnum, en sumir þeirra hafa ástundað þetta áratugum saman og erkibiskupar þeirra ekki brugðizt við með réttum hætti, heldur í misráðinni tilraun til að hlífa kirkjunni við umtali og smán breitt yfir þessi alvarlegu sakamál. Á meðan gátu viðkomandi brotamenn haldið áfram mannskemmandi athæfi sínu í þeim nýju sóknum sem þeir voru sendir til.

Fjöldi hinna kærðu presta nemur rétt tæpu 1% miðað við fjölda kaþólskra presta í írska lýðveldinu á árinu 2008 (4.752), en mikil fækkun hefur átt sér stað á prestsvígslum á seinni árum, meðalaldur í stéttinni er 61 ár, og búizt er við enn meiri fækkun þar á næstu áratugum, allt niður í 1.500 árið 2028.

Hér er ýtarlegar sagt frá hneykslismálinu á vef BBC: Pope shares Irish 'abuse outrage'. Þá er ennfremur frásögn af þessu á fréttavef kirkjunnar í Róm (zenit.org): Pope to Write Letter to Irish on Abuse Scandal (allar fréttir og viðtöl á Zenit eru á ensku, frönsku, þýzku, spænsku, portúgölsku og ítölsku).

Íslenzka ríkisútvarpið sagði ennfremur frá þessu máli í 16-fréttum í dag, en í mun ágengara formi en heyra mátti á BBC.

Kynferðismisneyting er brot gegn bæði 5. og 6. boðorðinu og meðal alvarlegustu synda. 5. boðorðið er sett til verndar lífi og heilsu náungans, líkamlegri og andlegri, gegn öllum ómaklegum árásum. 6. boðorðið er til verndar gagnkvæmri tryggð hjóna, skírlífi, uppeldi barna í öruggu skjóli foreldra og almennu kynheilbrigði.

Mál af þessum toga í Bandaríkjunum, á Írlandi og víðar hafa valdið ómældum skaða á fórnarlömbum misneytingarinnar, og hafa þau sótt verulegar skaðabætur á hendur kirkjunni með málshöfðun eða umsaminni sátt. Þá á kirkjan fullt í fangi með að varðveita trúverðugleik sinn, þótt þarna sé um tiltölulega lítið hlutfall presta, djákna og trúarreglufólks (munka og nunna) að ræða; háttsettir, yfirhylmandi eða vanrækslusamir yfirmenn hafa misst embætti sín, og nú er strangt gengið eftir því, að þeim, sem búa við óeðlilegar kynferðishvatir eða fái ekki við hvatir sínar ráðið, sé ekki heimilt að gegna prestsstarfi né að ganga í prestaskóla kirkjunnar.

Málefnið er ekki bundið við kaþólsku kirkjuna, en hefur verið mest áberandi þar meðal trúarsamfélaga og félagasamtaka, til viðbótar við barnaklámhringi og hryllilega misnotkun þeirra á börnum, sem alloft heyrist um í fréttum, en tengjast ekki kirkjunnar mönnum, eftir því sem höfundi þessara lína hefur sýnzt.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

free open source blog