« Lýsing Jóns biskups Arasonar20. ártíð Hinriks biskups Frehen – Persónuleg minning »

05.11.06

  09:26:43, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1717 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Nicaragua-þjóð svipt þróunaraðstoð frá Íslandi vegna femínískt-pólitískrar andstöðu ÞSSÍ gegn fósturvernd?

Mbl.frétt 3. þ.m. er athyglisverð: 'Þróunaraðstoð við Níkaragva í uppnámi. Alvarlegar afleiðingar banns við fóstureyðingum' [1]. Þar segir af því, að nýsamþykkt lög í Nicaragua-þingi, sem banna fóstureyðingar með öllu, stangist á við jafnréttisáætlun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ), en hún hefur nýlega hafið starfsemi í Nicaragua. Ásamt öðrum slíkum stofnunum mun ÞSSÍ "senda mjög harkaleg mótmæli" að sögn Sighvats Björgvinssonar, frkvstj. ÞSSÍ. Hann gefur einnig í skyn í Mbl.viðtalinu, að Íslendingar muni hætta eða stórminnka þróunaraðstoð til Nicaragua vegna þessarar löggjafar um fósturvernd, sbr. þessi orð í Morgunblaðsfréttinni:

Í jafnréttisáætlun ÞSSÍ kemur fram að séu alþjóðlegir sáttmálar um kynjajafnrétti að engu hafðir í samstarfslöndum muni stofnunin hvetja til aukins vægis jafnréttissjónarmiða. Ef slík viðleitni beri ekki árangur þýði það að ÞSSÍ dragi sig út úr samstarfinu nema í vel rökstuddum undantekningartilvikum.

En er það "jafnréttismál" eða "kynjajafnrétti", að konur "fái" að losa sig við fóstur sitt? Hafa karlmenn slíkan jafnan rétt yfir ófæddu afkvæmi sínu? Og er fósturdeyðing skilgreind sem "jafnréttismál" kvenna í lögum um fóstureyðingar o.fl. nr. 25/1975? – NEI og aftur NEI. Alþingi hafnaði því að fara þá leið, sem Magnús Kjartansson lagði til, að lög skyldu kveða á um, að fóstureyðingu megi framkvæma "að ósk konu" [2]. Sá réttur er ekki lagður upp í hendurnar á konum með lögunum frá 1975. Eru þau þó ærin ólög í innihaldi sínu og hafa þar að auki verið misnotuð með þeim hætti af félagsráðgjöfum og læknum, að í reynd hafa þeir aðilar að langmestu leyti leyft og framkvæmt (þ.e. framið) fósturdeyðingu að ósk þeirra kvenna, sem eftir því hafa sótzt. (Þetta ber þó ekki að skoða sem mikið ágætismál fyrir "óskir" og vilja þeirra kvenna, því að mörg eru þess dæmin, að þeim hafi verið ýtt út í þessa aðgerð af foreldrum sínum, barnsfeðrum eða vinum – stundum með afdrifaríkum afleiðingum, samanber ungu hjónin, sem ég veit af, sem fóru í fósturdeyðingaraðgerð vegna þrýstings foreldranna, en stúlkan varð ófrjó fyrir vikið.) – Þar að auki er helmingur ófæddra barna, sem deydd eru, MEYBÖRN.

Í fréttinni segir, að "ákvörðun um frekari viðbrögð" verði "tekin í náinni samvinnu við utanríkisráðuneytið, enda pólitísk ákvörðun og því á forræði ráðherra." – Við skulum vona, að Valgerður Sverrisdóttir, hæstvirtur utanríkisráðherra, taki sína ákvörðun í samræmi við þau kristnu siðagildi, sem flokkur hennar segist styðja. [3] Það er á hreinu, að kristin afstaða til fósturdeyðinga hefur ávallt verið sú frá upphafi, að þær séu siðferðislega óhæfa og eigi því ekki að leyfast. [4] Hvorki Sjálfstæðis- né Framsóknar-þingmenn (með örfáum undantekningum [5]) hafa borið gæfu til að láta sér þetta skiljast eða haga löggjöf sinni í samræmi við það, og þó hafa báðir flokkarnir vogað sér að lýsa því hátíðlega yfir, að þeir styðji kristna trú og siðagildi í landinu!

En í hverju er þróunarhjálp Íslendinga við Nicaragua fólgin?

Starfsemi ÞSSÍ í Níkaragva er nýhafin, þar er einn starfsmaður á vegum stofnunarinnar. Eina verkefnið sem hefur þegar verið sett af stað tengist vinnslu jarðhita og haldin ráðstefna með íslenskum vísindamönnum um það málefni,

segir í fréttinni. En þrátt fyrir mannekluna virðist hægt að nota þann eina starfsmann til fleiri verka en beinlínis til aðstoðar Nicaraguabúum:

"Umdæmisstjóri okkar í Níkaragva hefur komið þessum málum [þ.e. um bannið við fósturdeyðingum (innskot JVJ)] á framfæri við utanríkisráðuneytið og honum hefur verið falið að fylgjast mjög náið með framvindunni og gefa um það skýrslur heim. Svo verður væntanlega tekin ákvörðun um framhaldið ef þetta verður niðurstaðan," segir Sighvatur.

Þessi setning er líka athyglisverð:

Einnig hefur verið í burðarliðnum stofnun heimilis fyrir konur sem eiga í vanda meðan á meðgöngu stendur en ólíklegt er að það verði að veruleika við óbreytt ástand.

Hvers lags heimili átti það að verða? Hjálparstaður fyrir konur til að geta óhræddar gengið með sitt barn og alið það í heppilegum aðstæðum? Eða heimili af þvílíkri gerð, að "ólíklegt" eða ómögulegt sé "að það verði að veruleika við óbreytt ástand," þ.e. það ástand, að fósturdeyðingar eru nú bannaðar? Kann svo jafnvel að vera – í samhljóman við það, að Sighvatur Björgvinsson er gamall baráttumaður fyrir "frjálsum fóstureyðingum" [6] –, að þar sé um fyrirhugaða fósturdeyðingastöð að ræða? Ef svo er í raun, er það augljóst merki þess, að nú sé stefnt að því að halda áfram boðun ófagnaðarerindis dauðastefnunnar á alþjóðavettvangi – að gera tízkuplágu fósturdeyðinganna að útflutningsvöru.

Því má skjóta hér að, samkvæmt frétt CNN, að leiðtogi Sandínista, Daniel Ortega, sem á yngri árum sínum sem byltingarmaður var fylgjandi meintum réttindum til fósturdeyðinga, hefur "sagt, að hann sé orðinn trúrækinn kaþólikki sem nú sé andvígur fósturdeyðingum." [7] (Ekki höfum við þó fengið að heyra það hér í fréttum!) Ortega og þingflokkur hans greiddu atkvæði með hinni nýju löggjöf. [8] Hann er í framboði til forsetaembættis í landinu, studdur af Hugo Chavez, hinum róttæka forseta Venezúela, og verður kosið í dag, sunnudag. – Nicaragua er ekki eitt landa Suður-Ameríku til að banna fósturdeyðingar, því að það sama á við um El Salvador og Chile. [7, 8]

Bæði í Morgunblaðinu, New York Times o.fl. fjölmiðlum er mikið lagt upp úr því, að þingið í Nicaragua bannaði fóstureyðingar með öllu, jafnvel þótt konur hafi orðið fyrir nauðgun eða heilsa þeirra sé í hættu. Á það að heita meginástæða fyrir ádeilunni á hina nýju löggjöf, m.a. af hálfu ÞSSÍ. Ekki er þó verið að nefna, að heilsu-klásúlan, sem verið hefur í lögum Nicaragua fram undir þetta, hefur verið misnotuð og túlkuð "vítt" af ýmsum læknum, rétt eins og átt hefur sér stað í Stóra-Bretlandi í marga áratugi, þótt þar í landi sé reyndar mun verra ástand í þeim efnum og 'víða' túlkunin ógnarvíð.

En við skulum alveg gera okkur grein fyrir því, að þessi deila stendur ekki vegna tiltölulega sárafárra þungana sem hljótist af nauðgunum eða vegna lífshættu kvenna. Ef svo væri, ætti sú leið að blasa við sem lausn í málinu í huga framkvæmdastjóra ÞSSÍ og annarra slíkra að fara þess á leit við Nicaragua-þing, að gerðar yrðu undantekningar á löggjöfinni, svo að ekki þurfi að koma til samdráttar í þróunarhjálp frá viðkomandi stofnunum. Slík leið væri líka tillitssamari við fullveldi Nicaragua heldur en sá þjösnagangur að ætlast til, að landið leyfi fósturdeyðingar í takt við dauðastefnu líberalisma og sósíalisma í Evrópu og Norður-Ameríku – stefnu sem fyrir löngu er orðin gjaldþrota að rökum og réttlætingu í augum skynsamra manna, enda fyrirséð að hún muni smám saman rústa allri viðhaldsgetu og viðnámsþrótti hinnar gömlu Norðurálfu gegn öflum upplausnar og eyðingar, sem endað getur í hreinni mannauðn.

Þróunaraðstoð Íslendinga hefur verið skammarlega lítil fram undir þetta, er það enn og þarf að margfaldast. Ef til stendur að nota þá aðstöðu, sem fjárveitingar til ÞSSÍ fela í sér, til að kúga fátækar þjóðir til fjöldadrápa á ófæddum börnum, af því að það hugnist þeim, sem hér ráði málum, þá er það hámark óskammfeilni og misnotkun á valdi sem nýta átti í þjónustu lífsins. En um það verður þá ekki þagað, hvorki hér né erlendis.

Á þessari LifeSite.net-fréttaleitarsíðu má finna fjölda greina um fósturdeyðingalöggjöf Nicaragua og aðdraganda hennar.

––––––––––––––––––––
NEÐANMÁLSGREINAR:

[1] Morgunblaðið, 3. nóv. 2006, 3ja dálka frétt á bls. 4. Samþykkt þingsins átti sér stað 26. okt. sl. 52 þingmenn greiddu atkvæði með nýju löggjöfinni, sem leysir af hólmi lög sem leyfðu fósturdeyðingar vegna hættu fyrir heilsu kvenna – enginn greiddi atkvæði á móti. [7]

[2] Sú breytingartillaga Magnúsar Kjartanssonar við frumvarp Matthíasar Bjarnasonar heilbrigðisráðherra var felld í Neðri deild Alþingis í apríl 1975 með 27 atkvæðum gegn 9 (einn greiddi ekki atkvæði, þrír voru fjarverandi) og í Efri deild með 8 atkvæðum gegn 6 (en sex voru fjarverandi), sjá Alþingistíðindi 1974–1975, s. 3022 og 3681.

[3] Þetta sést á stefnuskrám og yfirlýsingum beggja flokka, eins og ég mun síðar gera grein fyrir.

[4] Sjá grein mína Biblían virðir hið ófædda líf með orðum sínum og bönnum, einnig vefsíðuna The Bible's Teaching Against Abortion eftir séra Frank Pavone.

[5] Þorvaldur Garðar Kristjánsson (Sjálfstæðisflokki) flutti fimm eða sex sinnum frumvarp um verulega takmörkun fósturdeyðinga, fyrst einn, en síðar gerðust eftirfarandi samflokksmenn hans meðflutningsmenn slíkra frumvarpa Þorvaldar: Árni Johnsen, Egill Jónsson (á Seljavöllum), Lárus Jónsson og Pálmi Jónsson (á Akri). Þeir áttu sér líka stuðning í öðrum flokkum, a.m.k. hygg ég, að Karvel Pálmason (Alþýðuflokki) hafi verið á þeirra bandi. Þá var Jón Baldvin Hannibalsson ennfremur gagnrýninn á fósturdeyðingalöggjöfina. – Auk þessara frumvarpa fluttu nokkrir þingmenn Borgaraflokksins sérstök frumvörp sem miðuðu að takmörkun og endurskoðun fósturdeyðingar-heimilda, þ.e. Ásgeir Hannes Eiríksson, Hulda Jensdóttir ljósmóðir, Kolbrún Jónsdóttir og Guðmundur Ágústsson. Var Borgaraflokkurinn með hæsta hlutfall, sem lífsverndarsinnar hafa náð í nokkrum stjórnmálaflokki hérlendis, því að þingflokk hans mynduðu sjö manns. – Mér var legið á hálsi fyrir að ganga til liðs við Borgaraflokkinn, en það hafði ég þó upp úr krafsinu að fá aðild að stefnuskrárnefnd flokksins og tókst þar – með lempni, með því að vitna í snjalla setningu frá Thomas Jefferson og með stuðningi annarra lífsverndarsinna þar og góðum skilningi nefndarinnar í heild – að fá því framgengt, að þar var sett á blað fyrsta fósturverndar-stefnuskráratriði í sögu íslenzkra stjórnmálaflokka og gefið út sem hluti þeirrar stefnuskrár flokksins, sem dreift var meðal landsmanna við Alþingiskosningarnar 1987. En þar segir:

Umhyggja fyrir mannlegu lífi, gagnstætt eyðingu þess, er æðsta markmið góðrar ríkisstjórnar [9]. Því mun Borgaraflokkurinn beita sér fyrir því, að sett verði ný löggjöf um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir og fræðsla þar að lútandi verði aukin. Borgaraflokkurinn mun leggja áherzlu á að leysa félagsleg vandamál vegna barneigna og stórauka aðstoð við einstæða foreldra.

Ég mun síðar rita hér grein með frekari upplýsingum um þessi mál af vettvangi stjórnmálaflokka og Alþingis.

[6] Í fimm atkvæðagreiðslum í neðri deild Alþingis í apríl 1975 um breytingartillögur við fósturdeyðingafrumvarpið greiddi Sighvatur Björgvinsson (þá þingmaður Alþýðuflokks) undantekningarlaust atkvæði með þeim valkostum í orðalagi, sem lengst gengu í yfirtroðslu við lífsrétt hinna ófæddu. Hann gekk þar ávallt jafn-langt í róttækni og þingflokkur Alþýðubandalags í deildinni (og raunar lengra, því að í þremur af þessum fimm tilvikum greiddi Jónas Árnason atkvæði gegn stefnu þessa róttækasta liðs í þinginu). Það er því ekki að ástæðulausu sem ofangreind orð eru látin falla um Sighvat. Og vegna þessarar afstöðu hans (sem virtist jafnróttæk um 1989–90) getur hann naumast talizt hlutlaus maður eða hlutlægur að dæma um fósturverndarlöggjöf annarra ríkja; ætti hann raunar beinlínis að teljast vanhæfur til að vera með fingurna í þeim málum fyrir Íslands hönd, því að stefna hans í málinu er jafnvel róttækari en hin ofur-'frjálslynda' löggjöf íslenzka ríkisins frá 1975.

[7] Sjá þessa CNN-frétt 26. okt. sl.: Nicaraguan lawmakers vote to ban all abortions.

[8] Leiðari New York Times 29. okt. sl.: Nicaragua Bans Abortion. Kýrskýr stuðningur N.Y.T. við fósturdeyðingar um víða veröld, jafnt í Bandaríkjunum sem í þriðja heiminum, birtist þar enn og aftur, m.a. í hlutdrægri lýsingu málsins.

[9] Þessi setning er frá Thomas Jefferson komin, einum þeirra 'Founding Fathers' sem sömdu Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna.

6 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Manngreyið er greinilega þegar genginn í Evrópubandalagið með andlegu samneyti við það. Þetta er sú stefna sem „trúboðar“ þess hafa rekið í Suðurameríku s. l. áratug með með því að skilyrða efnahagsaðastoð við lögleiðingu fósturdeyðinga og að láta evrópska skattborgara standa kostnað af þeim, eins og í Argentínu.

Við sjáum þetta ofsatrúboð líka birtast gagnvart Lettum og nú síðast þegar fulltrúi Íslands réðst á Færeyinga í Norðurlandaráði fyrir að lögleiða ekki sambærileg lög þar á eyjunum eins og lögin á Íslandi hvað áhrærir samkynhneigð.

Þetta er sú sýking hugarfarsins sem Guðsmóðirin varaði við í Fatíma þegar hún sagði að kommúnisminn myndi sýkja Vesturlönd með hugvillum sínum, þrátt fyrir að hann myndi líða undir lok.

05.11.06 @ 10:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég er alveg sammála þér í þínum skilningi á þessu, Jón. En sama ruglið er líka í gangi hjá Kanadamönnum, sbr. þessa vefsíðu á LifeSite.net.

05.11.06 @ 13:37
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég veit ekki hvort hægt sé að segja hvort Kanadamenn séu komnir lengra á þessum ógæfuvegi en Hollendingar og Skotar. Ég var líka að fá sendingu í dag frá Spánverjunum vinum mínum um nýjustu samþykktirnar frá Sameinuðu þjóðunum sem spá ekki góðu.

Og breskur læknir réðst með heift að kirkjunni og Bandaríkjunum í vikunni. Hann ásakar BNA fyrir að vera ekki nægilega duglega við að útbreiða smokkana (þeir eru mestu smokkagjafarnir í heiminum).

Hins vegar ræðst hann á kirkjuna fyrir að berjast gegn notkun smokkanna. Við vitum báðir að þeir bregðast í 10% tilvika þannig að þeir eru léleg sóttvörn!

Eini marktæki árangurinn gegn eyðni er í Úganda þar sem hún hefur minnkað um 37 af hundraði á sex árum vegna þess að fólk er hvatt til að stunda öruggt kynlíf.

Vonsku læknisins má rekja til þess að kynsjúkdómar eru orðnir að einhverju alvarlegasta vandamálinu í heilbrigðismálum heimsins.

Vitaskuld má rekja það til subbuskapar í óheftu kynlífi sem er þessu fólki sakramenti og menntun virðist koma að litlu gagni, svo blindað er það af þessum sundlunaranda kynóranna!

05.11.06 @ 15:23
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég heyri núna í útvarpinu að stúlkukindin hjá Þróunarstofnuninni vann í SEX ÁR Í BRUSSEL! Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

05.11.06 @ 15:32
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér fróðleikinn. bróðir.

05.11.06 @ 18:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Aðra grein um þetta mál (að sumu leyti samhljóða þessari) var ég að birta á Moggabloggsíðu minni: Má íslenzkur embættismaður misnota aðstöðu til að svipta Nicaragua þróunarhjálp vegna fósturverndar?

06.11.06 @ 14:43
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software