« Ert þú samstarfsmaður Drottins?Quo vadis – hvert ætlarðu? »

15.03.06

  16:00:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 947 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Nafnið Lasarus þýðir Guð er mín hjálp

Heilagt guðspjall Jesú Krists þann 16. mars er úr Lúkasarguðspjalli 16. 19-31

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: „Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.“ Abraham sagði: „Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.“ En hann sagði: „Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.“ En Abraham segir: „Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.“ Hinn svaraði: „Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.“ En Abraham sagði við hann: „Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.“

Hugleiðing
Öll erum við fötluð með einum eða öðrum hætti. Þetta ræðst af því hvert gildismat okkar er. Áður hef ég sagt að fólk með Down einkenni stendur hjarta mínu nær en þeir miklu í augum dýrðar holdsins. Þetta er sökum þess að þetta fólk kann að elska og er glaðvært. Það sefur vel á nóttinni þó að verðbréfin falli. „Ertu fatlaður eða hvað?“ heitir grein sem Þórhildur Elín Elínardóttir skrifar í Bakþönkum Fréttablaðsins þann 15 mars. Þar lýsir hún þeirri reynslu sinni hvernig margir bregðast furðulega við þegar hún ekur um borgina með fatlað barn sitt í hjólastól. Í heimi falskra gildismata slær fatlað barn sumt fólk „út af laginu!“

Lasarus var ekki einungis fatlaður, hann var einnig blásnauður og fyrirlitinn. Í dæmisögunni dregur Jesú upp fyrir okkur mynd af heimi andstæðnanna með sterkum dráttum, auðlegð og örbirgð, af himnum og víti, meðaumkun og afskiptaleysi, velmegun og höfnun. Lasarus var svo fatlaður að hann gat ekki staðið á fætur hjálparlaust. Hann var lagður niður við hlið ríka mannsins. Hundurinn sem sleikti sár hans hefur líklegast einnig stolið því litla brauði sem hann átti, eða þá að Lasarus hefur gefið honum það sem þakklætisvott.

Í hinum forna heimi táknuðu hundar fyrirlitningu, en hundurinn var sá eini sem auðsýndi Lasarusi samúð. Hins vegar meðhöndlaði ríki maðurinn hann af fyrirlitningu og afskiptaleysi, og þar kom að gæfuhjólið hætti að snúa á sveif með honum við lok ævidaga hans. Í fyrirhugun Guðs glata þeir eignum sínum að lokum sem umgangast þær af eigingirni, en þeir sem deila þeim með öðrum fá slíkt ríkulega launað.

Nafnið Lasarus þýðir Guð er mín hjálp. Þrátt fyrir aum lífskjör sín glataði Lasarus ekki von sinni á Guði. Hann horfði til ríkidæmis himnanna. Hins vegar gat ríki maðurinn ekki séð lengra en til efnislegra auðæfa sinna. Það var ekki einungis vellauðugur, heldur notaði hann auð sinn með eigingjörnum hætti og sá ekki skort hinna þurfandi. Hann missti einnig sjónar af Guði og hinum himnesku gersemum vegna þess að hann einblíndi á hið efnislega. Hann var þræll auðæfa sinna, en ekki Guðs. Að lokum varð ríki maðurinn að ölmusumanni! Þekkir þú þá gleði og frelsi sem fólgið er í því að eiga Guð sem sína sönnu auðlegð. Eða kemur fötlun þín í veg fyrir slíkt?

Orðið hundur á koina Nýja testamentisins er keon. Það orð sem postular Guðs gripu til þegar þeir báru upp lofgjörð sína og þökkuðu Guði fyrir velgjörðir hans er sögnin proskeo. Hún kemur fyrir um 60 sinnum í Nýja testamentinu. Hún er samsett úr forsetningunni pros sem þýðir „að“ eða „til“ og nafnorðinu keon eða hundur. Kunningjakona mín ein sagði mér að hundurinn hennar hefði ekki hikað við að stökkva úr stól í fangið á henni. Það er þetta sem postularnir áttu við: Við eigum að stökkva líkt og hundurinn í faðm Guðs óttalaust. Þá fer allt vel vegna þess að elska hans er takmarkalaus. Þetta gerði Lasarus bæði í lífi sínu og dauða.

No feedback yet