« Af villu og sannleikaNýr vígslubiskup í Skálholti »

15.01.12

Myrkar miðaldir?

Þessi grein birtist í Morgunbl. 4. jan. 2001. Orðhvöss er hún, einkum framan af. Það skýrist af herskáum anda í blaðaskrifum um Þjóðkirkjuna og kristna trú árið 2000, er greinin var rituð; upp hafði því safnazt "réttlát gremja" hjá höf. þessarar greinar. Þótt í lófa lagið væri að lina hér tóninn, eins og betra hefði verið í upphafi, er ótrúverðugt að láta þetta líta neitt öðruvísi út en það gerði, þegar það birtist fyrir ellefu árum. Því er greinin hér óbreytt. –JVJ.

Tilhæfulausar ásakanir á hendur kristindómi og kirkju eru orðnar næsta algengur lestur á síðum þessa blaðs á kristnihátíðarári. Þegar um þverbak keyrir, er ekki auðvelt að leggja frá sér blaðið, hristandi hausinn yfir fáfræði náungans, en umbera allt í nafni málfrelsis. Rennur mér blóðið til skyldunnar þar sem ég nam guðfræði og miðaldafræði við háskóla heima og heiman og get ekki endalaust horft upp á sögufalsanir manna sem hafa það mark og mið að gera aðra jafnfordómafulla og þeir eru sjálfir.

Flosi Guðmundsson viðrar vanþekkingu sína í Mbl. 29. nóvember 2000 með blöskranlegu bulli um þessi mál. Ég hef aðeins rúm og tíma til að taka á fáeinum bábiljum.

Aumt er að sjá menn lastmæla heil. Ágústínusi, sem er í röð merkustu hugsuða og rithöfunda allra tíma; FG kallar hann "hórkarlinn", talar þá eins og óupplýstur hneykslunarpredikari, ekki aftan úr miðöldum, heldur út frá eigin hvatvísi; engum presti hefur dottið í hug að kalla lausaleiksbarneign hórdóm [2], og sonur Ágústínusar var ekki hórgetinn (sbr. H. Marrou: Saint Augustine and his influence through the ages [3]). Yrði lítið gert úr íslenzkum afburðamönnum eins og Jóni Loftssyni í Odda [4] eða Snorra Sturlusyni [6], ef slíkir dómar sem FG leyfir sér væru almennt viðhafðir.

Þá segir hann Ágústínus hafa "fundið upp" erfðasyndina. Það er firra, kenningin er í Rómverjabréfinu 5.12 o.áfr. og á sér jafnvel rætur í Gamla testamentinu. Ágústínus er aðeins einn margra í kirkjusögu fornaldar til að fjalla um upprunasyndina, eins og hún er réttar nefnd [7], þótt lagt hafi skýrar út frá kenningunni en fyrri kirkjufeður.

3. bábilja Flosa er að á "myrkum miðöldum" hafi kirkjan bannað alla hugsun (!!) og lagt niður háskóla. Þessu var þveröfugt farið. Háskólar eiga upphaf sitt á 12. og 13. öld, þeir fyrstu flestir stofnaðir af klerkum og nutu tilstyrks páfabréfa, það á við um ítalska, franska og þýzka háskóla, þrátt fyrir hugmyndaáhrif víðar að. Guðfræði var fjarri því að vera eina greinin, og nemendur hennar voru lítill minnihlutahópur; hinar sjö "frjálsu listir" voru fornámið, heimspekin skipaði veglegan sess, einnig lögfræði, læknisfræði, náttúrufræði o.fl. Klerklærðir menn, munkar og kirkjan sjálf áttu meginþátt í æðri menntum Evrópu fram á 13. öld og lengur. Ísland er þar engin undantekning.

Ekki gekk þróun háskólanna hljóðalaust fyrir sig, en oftar en ekki verndaði kirkjan skólahaldið og mátti heita ljósmóðir endurvakinna vísinda. Margvísleg deiluefni innan háskólanna sýndu merkilegt sjálfstæði þeirra. Sjálfir kennsluhættirnir báru vitni um djúpa rökhyggju og dirfsku í því að skoða hvert mál, jafnvel yfirlýst trúarsannindi, í ljósi eða öllu heldur undir skæðadrífu alhörðustu mótraka sem unnt var að hugsa sér. [8]

"Myrkar miðaldir", þetta er margþvælt hrakyrði í munni manna sem þekkja söguna tæpast í raun, en leyfa sér að tengja þetta ofurvaldi kirkjunnar. Ætli myrkrið og fáfræðin sé ekki mest í hugarfylgsnum þeirra sjálfra?

Voru þá engar myrkar miðaldir? Sagnfræðingar og hugmyndasögufræðingar einskorða það hugtak við (5. eða) 6.–10. öld, með u.þ.b. aldarhléi á 8.–9. öld þegar Karlamagnús náði með herförum sínum að sameina hluta álfunnar og "menntamálaráðherra" hans, enska klerkinum Alcuin, tókst að sá ómetanlegum fræjum menntunar og skólastarfs. Áður, frá hruni Rómaveldis og þjóðflutningatímanum, ríkti löngum samfélagsupplausn í Vestur-Evrópu, innrásir barbara, fátækt og lögleysa, yfirgangssemi þeirra sterkari, kirkjan veikburða og siðmenning öll að flosna upp, ólíkt því sem var í Býzanz og Islam. Klausturlífið var þá sá þráður, sem varðveitti bókmenntaarf fortíðar, kristinn og 'heiðinn', fyrst í Suður-Evrópu og svo ekki sízt á Írlandi; afraksturinn var trúboð víða á meginlandinu og fræðastarf sem breiddist út til Englands og þaðan m.a. til Frakklands og Norðurlanda. Einn áhrifa-þátturinn voru rit hins klassískt menntaða Ágústínusar (d. 430), sem mótaði hugsun næstu alda, með ívafi platónskra hugmynda í sínum kristnu fræðum.

Sagnfræðingurinn Christopher Dawson kallar það "the second Dark Age" þegar herjað var á Vesturlönd úr öllum áttum á 9.–10. öld, Serkir úr suðri, Magjarar úr austri og þessir rómuðu forfeður okkar úr norðri og vestri. [9] Víkingar lögðu menningu Norðimbralands, Aust-Anglíu og Kelta að mestu í rúst, fóru ótrúlegum ógnarbrandi um Frakkland, Þýzkaland og víðar. Hvarvettna voru klaustrin rænd og oft brennd ásamt heilum borgarhverfum, fólk í munklífi drepið eða leitt í ánauð. [10] Hetjudýrkendum víkingaaldar væri hollt að lesa um þá eymd og þjáningu sem margar þjóðir urðu að þola af hendi norrænna manna. [11]

Það var ekki fyrr en með stöðvun hersóknar Serkja og með kristnun Ungverja, Pólverja og umfram allt víkinga á 10. og 11. öld (í heimalöndum þeirra, en fyrst þó í nýlendum þeirra víða um álfuna, s.s. á Englandi, Normandí og Sikiley), sem jafnvægi og öryggi komst á í Evrópu. Konungarnir Knútur mikli á Englandi, Ólafur Tryggvason og Ólafur helgi voru meðal stærstu áhrifavalda í því efni á sínum umráðasvæðum. Ólíkt því, sem gerzt hafði við blóðuga 'kristnun' Saxa á meginlandinu og Slava í Austur-Þýzkalandi, var það því ekki utanaðkomandi hervald sem innleiddi kristni á Norðurlönd, með tilheyrandi sigri yfir þjóðlegri menningu, heldur varðveittu þessi lönd sjálfstæði sitt og gátu samtengt sitt þróttmikla samfélag og menningu við nýja strauma kristninnar. [12]

Blómaskeið miðaldamenningar er um 1050–1350, stærstu áfangarnir 12. aldar renaissanzinn, ný vakning klausturreglna, fundur rita Aristotelesar [13], vöxtur skólaspekinnar og háskólanna, uppgangur byggingar- og ritlistar, sívaxandi vegur kaþólsku kirkjunnar í útbreiðslu og ríkidæmi norður og austur um álfuna jafnt sem í innra lífi hennar. Framhaldið, með ólíkum áherzlum, var fornmenntastefnan (húmanisminn) og renaissanz 14. og 15. aldar, en fór saman við ófriðaröld. Að tímanum til fellur blómaskeið skólaspekinnar æðivel saman við gullöld íslenzkra bókmennta og menningar á 13. öld. Innan beggja þrífast þá bæði veraldleg og andleg fræði.

Eftir áróðurskennda grein Flosa Guðmundssonar var næsta heilnæmt að lesa í sama Mbl. (aftast í bókablaði) viðtal við Vilborgu Davíðsdóttur rithöfund. Eftir að hafa lagzt í heimildarannsóknir tekur hún tæpitungulaust á nokkrum firrum sem í gangi hafa verið um miðaldir á Íslandi. Hvet ég fólk til að lesa viðtalið, það losar kannski um nokkur steinbörnin. [14] En óneitanlega þurfa ýmsir að losna við þunga byrði af fordómum áður en þeir geta leyft sér þann munað að kynna sér hinn heillandi heim miðaldafræðinnar, umfram allt hugmyndasöguna.

Höfundur er guðfræðingur og forstöðumaður Ættfræðiþjónustunnar.
––––––––––––––––––––––––

Tilvísanir og athugasemdir

[1] Þótt langt sé um liðið frá birtingu greinar þessarar og tilefni hennar í raun tímabundið, þá er ágætt að hafa þessa grein hér á Kirkjunetinu, enda heyrast og sjást þær missagnir um miðaldir, sem greinin tekur á, mjög oft í umræðu hér á landi. Hér er greinin birt óbreytt frá því, sem var í Mbl., fyrir utan örfáa ýtarlegri hluti, sem voru í fyrri gerð hennar sem ég sendi blaðinu (en varð að stytta eða skera burt til að fá birtingu), þ.m.t. það, sem hér er nmgr. [3], en öðrum neðanmálsgreinum hef ég bætt við í þessari netútgáfu.

[2] Hórdómur (lat. adulterium) er samkvæmt skilgreiningu óleyfileg kynmök milli giftrar konu og karlmanns eða kvænts manns með konu. Ef báðir aðilar eru í hjónabandi, er það kallaður tvöfaldur hórdómur. Einfalt skírlífisbrot milli ógiftra er í íslenzkum heimildum kallað lausaleiks- eða frillulífisbrot, en í Ritningunni saurlífi (lat. fornicatio).

[3] "Ef við lítum á ártöl [í ævi Ágústínusar], sjáum við að frá sautján ára aldri batzt hann böndum við konu með sambúð sem að siðvenju og lögum þess tíma, ef ekki kristnu siðferði, var talin fullkomlega eðlileg, og að upp frá því var hann aldrei í sambúð með annarri konu og að í rúm 14 ár var hann í þessu tryggðasambandi við hana, sem á fyrsta ári þeirra ól honum son, Adeodatus ('af Guði gefinn')." Formleg gifting var þeim sennilega forboðin vegna stéttarmunar að Rómarlögum á þeim tíma. Monica móðir hans lagði þó að honum að giftast, en trúarleg köllun höfðaði æ sterkar til hans; upp úr sambúðinni slitnaði; eftir víxlspor með annarri konu varð hvatning Páls postula um hreinlífi til þess, að hann tók ákvörðun um að verða kristinn og helga sig þeirri köllun í skírlífi, frá 31 árs aldri til æviloka (H. Marrou: Saint Augustine and his influence through the ages, 23-4). Hneykslist nú hver sem hneykslast vill.

[4] Jón Loftsson (d. 1. nóv. 1197) átti þessa launsyni (frilluborna): Pál biskup í Skálholti, d. 29. nóv. 1211, Orm djákn Breiðbæling, d. 1218 (móðir þeirra beggja: Ragnheiður Þórhalladóttir, systir Þorláks biskups helga), Þorstein (móðir: Æsa Þorgeirsdóttir), Einar, sem er á lífi 1242 (móðir: Helga Þórisdóttir), Hallbjörn prest og Sigurð (móðir þeirra beggja: Valgerður Loftsdóttir). Með konu sinni Halldóru Skegg-Brandsdóttur átti Jón í Odda börnin Sæmund, djákn og goða í Odda, d. 7. nóv. 1222, og Solveigu, konu Guðmundar gríss Ámundasonar, goðorðsmanns á Þingvöllum, d. 22. febr. 1210 (Sturlunga saga II, Sturlunguútgáfan, Rvík 1946, í 4. og 3. ættskrá aftan við; Íslenzkar ártíðaskrár eða Obituaria Islandica, Kh. 1893–6, ættskrá I.) – Sjálfur átti Jón Loftsson óskilgetna móður, en mikillar ættar: Þóru dóttur Magnúsar berfætts, Noregskonungs árin 1093–1103, Ólafssonar kyrra, Noregskonungs 1066–1093, Haraldssonar harðráða, hins frækilega Væringjaforingja í Miklagarði, sem einnig var dróttkvæðaskáld [5] og konungur Noregs frá 1047, unz hann endaði ævi sína í fólkorrustunni við Stafnfurðubryggju 1066, í þeirri viðleitni að brjóta England undir Noreg. Hann var fjórmenningur við Ólaf konung helga að langfeðgatali frá Haraldi konungi hárfagra, en hálfbróðir Ólafs sammæðra (sjá Heimskringuútgáfu Hins ísl. fornritafélags, ættskrá II, 2. framhald).

[5] Eftir Harald harðráða eru varðveittar ellefu heilar dróttkvæðar vísur, þrjár hálfar, tvær vísur undir öðrum háttum og fáein brot. Sjá Den norsk-isländska Skjaldediktningen, reviderad av Ernst A. Kock, första bandet, C.W.K. Gleerups förlag, Lund 1946, s. 165–8. Þar á meðal er þessi líflegi helmingur dróttkvæðis (sem minnir á íþróttavísur Páls Ólafssonar og fleiri skálda, 'Tafl emk örr at efla' o.s.frv.):

Íþróttir kannk átta;
Yggs fetk líð at smíða,
[Yggs (Óðins) líð (skip; öl, drykkur) = skáldlistin]
fœrr emk hvasst á hesti,
hefk sund numit stundum.

Annars er bezt að vísa í Haraldar sögu harðráða í Heimskringlu – afar fróðlegt og (l)æsilegt rit fyrir alla miðaldaáhugamenn!

[6] Snorri Sturluson (d. 1241) átti tvö skilgetin börn með Herdísi Bersadóttur hins auðga á Borg á Mýrum: Jón murta og Hallberu, en þrjú launbörn: Órækju, Ingibjörgu (konu Gizurar, síðar jarls) og Þórdísi, konu Þorvalds Vatnsfirðings (sjá 19. ættskrá, b, í áðurnefndri Sturlunguútgáfu).

[7] Aðal-fræðihugtakið á latínu er peccatum originale eða peccatum originis (það fyrra þekkt á miðöldum og það síðara a.m.k. frá 1562, sjá Revised Medieval Latin Word-List from British and Irish Sources, With Supplement, prepared by R.E. Latham, M.A., published for the British Academy by the Oxford University Press, 1980 (frumútg. 1965), s. 337), – ekki peccatum hereditarium, þótt það hugtak þekkist einnig á miðöldum, sbr. Alexander Souter: A Glossary of Later Latin, Oxford 1957 (frumútg. 1949), s. 172; en ekki er vitnað um það í Nucleus Latinitatis, hinni gömlu, íslenzku latínuorðabók Jóns biskups Árnasonar (þýðing á latnesk-danskri orðabók Hans Gram prófessors; útg. Orðabók háskólans, 1994), undir orðinu 'hæres', s. 108.

[8] Sjálft formið á mörgum helztu fræði- og kennsluritum skólaspekinganna var einmitt ekki sízt fólgið í þessu: að setja fram margar sterkar mótbárur (lat. obiectiones) gegn þeirri thesu (setningu, trúarkenningu, heimspekilegri staðreynd/afstöðu), sem höfundurinn sjálfur taldi að lokum (og jafnvel mjög oft frá upphafi) hina sönnu. Þessar objectiones voru stundum gamlar, heimspekilegar eða (villu)trúarlegar frumhæfingar og stöku sinnum hægt að kenna þær við ákveðinn upphafsmann þeirra, en stundum voru þær teknar úr ritum viðurkenndra höfunda (auctoritates), en þá í einhæfri merkingu sem ekki reyndist, þegar upp var staðið (í lokaúrlausninni) hin rétta meining þeirra eða gilti aðeins um afmarkað svið eða í takmarkaðri merkingu; en einnig var það til, að höfundurinn sjálfur (t.d. iðulega Tómas Aquinas) byggi til eins sterka röksemd gegn eigin afstöðu eins og honum var frekast unnt. Þannig reyndi einmitt á þolrifin í hans eigin trú og veruleikaþekkingu, því að slíkri röksemd, ekkert síður en öðrum, varð að svara með skýrum rökum. – Ströng rökhyggja og fagleg beiting rökfræðinnar – einnar undirstöðugreinar vísindanna – er eitt megineinkenna skólaspekinnar.

[9] Christopher Dawson: Religion and the Rise of Western Culture, Gifford Lectures, Delivered in the University of Edinburgh 1948–1949 (London: Sheed and Ward, 1950), Chapter V: The Second Dark Age and the Conversion of the North, s. 97 o.áfr. Þessir hörmungartímar fyrir vestræna menningu byrja á Bretlandseyjum skömmu fyrir árið 800 (hinum miklu munklífismiðstöðvum í Norðimbralandi og í keltneskri menningu eyddu víkingarnir í Lindisfarne 793, Jarrow 794 og Iona 802 og 806), en verst er ástandið um 850–900. – Tökum hérna tvær glefsur úr þessu verki Dawsons: "It is of these dark years that the chronicler of St. Vedast writes, "The Northmen cease not to slay and carry into captivity the Christian people, to destroy the churches and to burn the towns. Everywhere there is nothing but dead bodies––clergy and laymen, nobles and common people, women, and children. There is no road or place where the ground is not covered with corpses. We live in distress and anguish before this spectacle of the destruction of the Christian people." (Annal. Vedast. ann. 884.) – These years witnessed the final collapse of the Carolingian Empire ..." (Dawson, op.cit., 100). Lýsingu annálanna má þó ekki taka sem almenna lýsingu Vesturlanda á þeim tíma, heldur á þeim svæðum sem víkingar fóru um með brandi sínum – þó ótrúlega víða. – "There has never been a war which so directly threatened the existence of Western Christendom as a whole; indeed the Christian resistance has more right to the name of a crusade than the Crusades themselves. (The whole army that fell at Ebersdorf in 880 was canonized collectively by the German Church as the Martyrs of Ebersdorf.) It subjected the inchoate [byrjandi] order of Western Christendom to a terrible test which burnt away anything that was weak and superfluous and left only the hardest and most resistant elements which were inured to insecurity and violence. Thus these years saw the complete destruction of the monastic culture of Northumbria and East Anglia which had produced such rich fruits in the previous century. They marked the end of the great age of Celtic Christian culture, which survived only in a weakened and impoverished condition. They destroyed the Carolingian Empire itself and ended the intellectual revival when it was just reaching its creative period in the lifetime of John Scotus and Servatus Lupus." (ibid., 101).

The Making of Europe [400–1000 A.D.]. An Introduction to the History of European Unity. London: Sheed and Ward, 1932, ........

[10] Jón Jónsson: Víkingasaga, ...

[11] Sjá ennfremur, um aðra óyndislega þætti í siðum norrænna manna, þessa grein á Moggabloggi mínu (Lífið og lífsgildin): Ásatrúin "friðsæl" að mati Mbl.?

[12] Eftir að hafa sagt frá hlut Knúts mikla, konungs á Englandi, að því að senda enska biskupa og munka til Danmerkur og Noregs, segir Dawson (í sama riti, s. 109): "Thus the incorporation of Scandinavia into Western Christendom was due, not as in Central Europe to the power and prestige of the Western Empire, but to the conquest of Christian England by the barbarians who brought back Christianity to the North with the spoils [ránsfeng, herfangi] of invasion. – Hence the conversion of the Northern peoples did not mean the victory of an alien culture and the loss of national independence, as happened to the continental Saxons or the Slavs of Eastern Germany. The pagan North entered the society of Western Christendom at the very time when its social vitality was greatest and its culture most creative. It was the work of the greatest of their own rulers, kings like St. Vladimir in Russia, Canute the Mighty in Denmark and Olaf Tryg[g]vason and Olaf the Saint in Norway."

[13] Þegar ég tala um 'fund' rita Aristotelesar, á ég við uppgötvun kristinna fræðimanna á tilvist margra meginrita hans á 12. og 13. öld. Fyrir þann tíma voru það einkum rökfræðirit hans, sem kunn voru meðal Evrópumanna á miðöldum. Rit hans voru þýdd af kristnum, sýrlenzkum fræðimönnum ....... úr grísku á sýrlenzku og persnesku, en síðan úr þeim tungum á arabísku. Þannig bárust þau til Spánar, þar sem múslimskir heimspekingar meðal Mára rannsökuðu þau og ritskýrðu. Heimspekingurinn Averroes öðlaðist þvílíka viðurkenningu sem ritskýrandi Aristotelesar, að hann var einfaldlega kallaður Commentator, rétt eins og Aristoteles sjálfur var kallaður Philosophus (heimspekingurinn, nánast eins og með ákveðnum greini), svo virtur var hann og settur í fremstu röð á sínu sviði meðal margra 13. aldar skólaspekinga. En úr arabísku voru rit hans þýdd á latínu...., unz þar kom, að fræðimenn komust yfir gríska frumtextann, einkum gegnum Sikileyjarríkið, og þá var það sem Vilhjálmur frá Moerbeke þýddi ..... rit, að beiðni hins fræga Tómasar af Aquino. Ekki var það í óþökk páfa, enda Tómas sjálfur starfandi um árabil á vegum páfa eða í þágu hans.

[14] Morgunblaðið 29. nóv. 2000 (frír netaðgangur), en þar segir m.a.:

Vilborg segir miklar ranghugmyndir ríkjandi um Ísland á miðöldum. ,,Fólk stendur í þeirri trú að miðaldamenn hafi upp til hópa lifað við sult og seyru og búið í andlegu og tilfinningalegu myrkri, ekki þvegið sér nema í mesta lagi upp úr keytu, verið fáfróðir og heimskir og velt sér upp úr skít, og helsta afþreyingin hafi verið að telja á sér lýs og flær. Þessar hugmyndir hafa orðið til bæði í skólastofunum fyrr á tíð, þar sem Íslandssögukennslan fólst aðallega í utanbókarlærdómi um ártöl á hafísaárum og plágum og stórubólum, sem og í afar myrkum kvikmyndum um fortíð Íslendinga. Þar birtist alþýða manna óhrein að utan sem innan, klædd í strigaræfla og tennurnar brunnar og svartar. Fornleifarannsóknir sýna hins vegar að norrænt fólk á miðöldum klæddi sig samkvæmt sömu litríku tískunni og fólk á meginlandi Evrópu og tannskemmdir þekktust ekki hér á landi fyrr en á 17. öld. Við höfum þá heldur engar forsendur til að ætla að andlegt líf miðaldafólks hafi verið rýrara en okkar nútímafólks. 15. öldin var nefnilega um margt blómatími á Íslandi, hér var uppsveifla í efnahagslífinu, næg atvinna, árferði var betra en á öldinni á undan og yfirstéttin sótti sér menntun til evrópskra háskóla. Dans, leikir, söngur og hljóðfæraleikur var í hávegum hafður allt þar til öll slík ,,lausung" var bönnuð við siðaskiptin. Vitaskuld var gríðarlegur stéttamunur ríkjandi og siðalögmál kirkjunnar giltu um allt mögulegt. Hins vegar sýna heimildir að þeim var nú ekki fylgt út í ystu æsar. Þorkell Guðbjartsson var til að mynda mikill kvennamaður og á að hafa átt tugi barna í lausaleik þrátt fyrir skírlífsheit sín sem kaþólskur prestur. Munurinn á veröldinni árið 1431 og árið 2000 er kannski mestur sá að hömlur á tilfinningar og hegðun voru aðrar og meiri, og kirkjan og trúin höfðu áhrif á allt daglegt líf, ytri umgjörð lífsins var önnur. En manneskjan er alltaf söm við sig hið innra, sama á hvaða öld hún lifir. Við þráum öll að elska og vera elskuð og við erum gráðug og breysk og við eigum það til að bregðast þeim sem við ættum síst að bregðast," segir Vilborg Davíðsdóttir.

Taka ber fram, að Vilborg hefur sett sig vel inn í sögu miðalda á Íslandi, m.a. notið ráðgjafar sagnfræðinganna Gunnars F. Guðmundssonar (höf. verksins Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi II, Rv. 2000) og Láru Magnúsardóttur.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jakob Valsson  
Jakob Valsson

Sæll Jón og takk kærlega fyrir að endurbirta þennan góða pistil. Þegar maður les svona bull, eins og FG skrifar, þá finnst mér viðkomandi vera mest að lýsa eigin fordómum og (eins og í þessu tilfelli) hreint út sagt ótrúlegri heimsku. Helst grunar mann að svona einstaklingar séu mest að leita eftir einhverju til að hata frekar en nokkuð annað. Svona skrif virðast að mestu vera innblásin af þeirri sagnfræðifölsun sem Hollywood framleiðir í stórum stíl. Menn þurfa bara að horfa á einhverja ræmu frá Hollywood og um leið eru menn orðnir sjálfskipaðir sérfræðingar í hinum og þessum málefnum og þá sérstaklega, af því er virðist, sögu miðalda. Það ætti helst að gera sagnfræði miðalda að skyldufagi í skólum til þess að vinna gegn svona rugli. Jæja, nóg um það og reiði mína gegn svona bulli. Takk enn og aftur fyrir endurbirtinguna.

Kveðja frá Vesturheimi.

Jakob Valsson.

20.01.12 @ 23:23
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir fróðlega grein Jón. Það skyldi þó aldrei vera að þú ættir líka eitthvað í handraðanum um hl. Tómas frá Akvínó?

26.01.12 @ 19:25
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jú, Ragnar, auðvitað fer ekki hjá því.

Ég þakka ykkur Jakobi báðum fyrir innlegg ykkar hér.

26.01.12 @ 23:08
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogtool