« Maðurinn sér ekki vel nema með hjarta Kritstselskunnar – bænTíbet og sjálfsstjórnarvæðin - kort á íslensku »

11.04.08

  11:17:59, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1089 orð  
Flokkur: Kynþáttahyggjan og átök þjóða

Mongólska heimsveldið

TENGILL Á KORT

Okkur auðnast vart að skilja sögu Tíbet og Kína án þess að víkja nánar að Mongólska heimsveldinu. Mongólar voru lítt kunnur þjóðflokkur sem bjuggu í ytri Góbíeyðimörkinni á landsvæði sem nú nefnist Ytrimongólia. Þeir voru hirðingjar sem lifðu í ættarsamfélögum sem komu saman árlega til fundar, en urðu aldrei að einni eiginlegri þjóð, þrátt fyrir að kjósa sér forystumenn á þessum samkomum. Trúarbrögð þeirra beindust að himnaguði sem ríkti yfir náttúruöndum og guðum og það voru shamar eða töframenn sem sáu um samskiptin við hann.

Allt breyttist þetta svo skyndilega þegar styrkur og atkvæðamikill leiðtogi birtist á sjónarsviðinu: Nafn hans var Genghis Khan. Hann var kominn af fátæku alþýðufólki og fæddist einhvern tímann í kringum 1160 e. Kr. Honum tókst smám saman að sameina hin dreifðu mongólsku hirðingjasamfélög og 1206 var hann kjörinn sem hinn „mikli alheimsstjórnandi“ eða Gengis Khan. Hann tók þegar að skipuleggja Mongóla sem hernaðarveldi og tók að skattleggja ættarsamfélögin. Með her sínum sem hafði á að skipa 120.000 mönnum tókst honum að auka veg Mongóla til muna.

Vafalaust var Genghis Khan einhver snjallasti herstjórnandi mannkynssögunnar og her hans var myndaður úr þjálfuðust hestamönnum sem heimurinn hafði séð til þessa. Mongólar börðust á hestbaki með ótrúlegum árangri og voru frægir fyrir að beita bogum af mikilli nákvæmni á skeiði. Þeir skutu fólki slíkan skelk í brjóst að iðulega gripu andstæðingar þeirra til fótanna. Herafli Genghis Khans var þrautskipulagður og skipti hann hernum í einingar (100; 10000 og 10.0000). Þetta gerði honum kleift að tefla herafla sínum fram líkt og skákmönnum á taflborði sem tryggði einnig öruggar boðleiðir til einstakra herdeilda með miklum hraði.

Loks var Genghis Khan miskunnarlaus gagnvart öllum sem risu upp gegn valdi hans og veittu honum mótspyrnu. Ef bær eða borg snerist til varna var viðkomandi staður settur í umsátur og öllum íbúunum tortímt þegar staðurinn féll. Þetta varð til þess að fjölmargir gáfust upp fyrir framsókn Mongóla án þess að grípa til vopna og þannig fóru mongólsku herirnir um líkt og eldur í sinu. Þeir héldu til suðurs til Kína og lögðu það undir sig jafnt og til Vesturasíu og Evrópu. Þegar Genghis Khan féll frá stóð mongólski herinn við landamæri Ungverjalands sem þeir hefðu auðveldlega sigrað nema vegna fráfalls hans.

Mongólska herveldið var ef til vill eitt það mesta sem sést hefur í mannkynssögunni. Frá vestri náði það frá Póllandi til Síberíu og frá Moskvu til Arabíuskagans og suður til Víetnam. Í sókn sinni suður á bóginn lagði hann fyrst undir sig norðurhluta Tíbezka konungsríkisins og því næst kínverska Chin keisaradæmið. Þegar hann andaðist 1227 hafði hann lagt undir sig norðurborg Beijing og 1241 höfðu Mongólar lagt undir sig allt Norðurkína. Mongólska heimsveldinu var skipt niður í fjögur khanöt sem stjórnað var af hinum mikla khan. Kipchakik Khanatið eða Gullnu hirðingjarnir stjórnuðu Rússlandi. Ilkhanatið stjórnaði Persíu og Austurlöndum nær og Cagtatai Khanatið ríkti yfir Vesturasíu og Mikla Khanatið Mongóliu og Kína.

Árið 1260 varð barnabarn Genghis Khan hinn Mikil Khan. Nafn hans var Kublai Khan. Hann ákvað að gerast keisari Kína og stofna nýja keisaraætt. Fjórum árum síðar fluttu hann höfuðborg sína til Beijing og 1271 tók hann upp nafnið Yuan. Innan örfárra ára höfðu Mongólar lagt undir sig allt Suðurkína. Í Beijing reisti hann sér mikla höll innan hinnar Forboðnu borgar. Arkitekúrinn var sambland arabískrar, mongólskrar og kínverskrar húsagerðarlistar.

Þar mátti einnig sjá mikinn fjölda mongólskra hirðingjatjalda og æfingasvæði í hestamennsku. Hin Forboðna borg var eins konar bautasteinn mongólskrar menningar. Þótt Mongólar tileinkuðu sér ákveðna þætti úr kínverskri menningu var þeim þvert um geð að nema kínversku. Embættismannakerfið í héruðum landsins var skipað Kínverjum en öll samskipti fóru fram með aðstoð túlka.

Jafn herskáir og forystumenn Mongóla voru höfðu þeir mikinn áhuga á trúarbrögðum og Kublai Khan bauð fulltrúum ýmissa trúarbragða til hirðar sinnar til að útskýra afstöðu sína. Hann heimilaði Nestoríönum og rómversk kaþólskum að opna trúboðsstöðvar, ekki síður en tíbezkum lömum, Múslimum og Hindúum. Í reynd var tímaskeið Yuankeisraættarinnar menningarlegur suðupottur með náin tengsl við önnur menningarsvæði. Það var á tímum Kublai Khan sem Evrópa komast að nýju í samband við Kína við komu Marco Pólos, en hann dvaldi við hirð Khansins á árunum 1275-1291.

Yuankeisaraættin varð sú skammlífasta meðal kínversku keisaraættanna, en hún leið undir lok 1368. Sjálfur var Kublai Khan afar hæfur keisari, en svo gegndi ekki um eftirkomendur hans. Smám saman rofnuðu tengslin á milli Beijingkhanatsins og sjálfrar Mongólíu en Mongólar töldu Beijingkhanatið vera orðið allt of kínverska. Fjórtánda öldin einkenndist af uppreisn Mongóla gegn Yuankeisraættinni, en miklar náttúruhamfarir og hungursneið stuðlaði einnig að falli hennar. Gulafljótið breytti um árfarveg sem leiddi til mikillar hungursneyðar um 1340. Hnignum Yuankeisraættarinnar hélst í hendur við hnignum annarra Khanata um alla Asíu.

Loks fór svo að bóndi nokkur, Chu Yuan-chang, safnaði saman her uppreisnarmanna á hendur mongólsku keisaraættinni. Hann hafði misst fjölskyldu sína í hungursneyðinni og varið hluta ævi sinnar sem munkur. Her hans tók Beijing 1368 og Yuankeisarinn flúði til Shangtuhéraðsins. Chu Yuan-chang lýsti sjálfan sig sem keisara yfir Kína og stofnanda nýrra keisraættar: Minganna (1369-1644).
   

No feedback yet