« Tveir nýir prestar til starfa í Reykjavíkurbiskupsdæmi | Miskunnarrósakransinn - 1. hluti » |
Miskunnarrósakransinn má biðja í kirkjum fyrsta sunnudag eftir páska og bænunum á að fylgja sérstök náð. Utan þess tíma er einnig hvatt til þessara bæna. Í bæklingi Maríukirkju stendur: „Drottinn Jesús sjálfur las fyrir systur Faustínu bæn sem á íslensku mætti kalla: „Miskunnar rósakransinn“ (The Chaplet of Divine Mercy). Þetta skyldi vera bæn um friðþægingu. Þeir sem biðja þessa bæn fórna Guði, Föðurnum, „líkama og blóði, sálu og guðdómi“ Jesú Krists til fyrirgefningar synda sinna, synda ættingja sinna og alls heimsins.“ [1]
Það hefur trúlega verið Montfortpresturinn séra Lambert Testroet sem kynnti miskunnarrósakransinn fyrstur hérlendis. Séra Lambert hélt reglulega bænafundi í Holtsbúð 87 í Garðabæ. Boðskapur hl. Fástínu og miskunnarrósakransinn hefur líklega verið kynntur á fundum hans um svipað leyti eða eftir að hún var tekin í tölu blessaðra en það var 18. apríl 1993 [2].
Þegar miskunnarrósakransinn er beðinn hefst bænin á signingu og því næst er Faðir vor beðið. Þá kemur Maríubæn, síðan kemur postullega trúarjátningin. Eftir þennan inngang kemur hin eiginlega miskunnarbæn. Við stóru perlurnar er beðið:
Eilífi Faðir, ég fórna þér líkama og blóði, sálu og guðdómi þíns heitt elskaða sonar, Drottins vors Jesú Krists, til þess að öðlast fyrirgefningu synda vorra og synda alls heimsins.
Við litlu perlurnar er beðið:
Vegna þungbærra þjáninga hans, miskunna þú oss og gjörvöllum heimi.
Við lok talnabandsins er endurtekið þrisvar:
Heilagi Guð, heilagi sterki Guð, heilagi ódauðlegi Guð, miskunna þú oss og gjörvöllum heimi.[1]
Bænirnar sem endurteknar eru má lesa eða syngja. Bandaríska EWTN sjónvarpsstöðin sýnir t.d. daglega upptöku þar sem hópur fólks syngur bænirnar. Þegar miskunnarrósakransinn er beðinn er gjarnan höfð mynd af Jesú sem systir Faustina lét gera og sagði fyrir um í smáatriðum hvernig ætti að vera. Tenglar á myndirnar eru t.d. hér: [Mynd1] og hér: [Mynd2].
Að lokum er hér svo tengill á YouTube myndskeið þar sem Timothy Chong og félagar syngja bænir miskunnarrósakransins:
[http://www.youtube.com/watch?v=KB9Ib7kQRYQ]
[1] Heimild: Bæklingur Maríukirkju: Miskunnarrósakransinn. Bænirnar í honum voru upprunalega þýddar af Jóni Ágústssyni.