« Íkona Guðsmóður hliðsins (Portaitissa)RUE DU BAC Í PARÍS 1830: OPINBERUN ALDARSKEIÐS HINNA TVEGGJA HJARTNA (2) »

30.12.06

  08:58:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 701 orð  
Flokkur: Kraftaverk tengd Guðsmóðurinni

Minningardagur Vorrar Frúar af blómunum (Madonna dei fiori) í Bra á Ítalíu

Þann 29. desember árið 1336 var ung og verðandi móðir á ferð og gekk hjá bænasúlu sem helguð var hinni blessuðu Mey. Súlan er staðsett í útjaðri þessa smábæjar sem tilheyrir biskupsumdæminu í Torínó. Tveir málaliðar sem tilheyrðu ræningjahóp sem fóru ránshendi um sveitirnar sátu fyrir ungu stúlkunni, en nafn hennar var Egidia Mathis. Þegar hún gerði sér ljóst að málaliðarnir ætluðu að ráðast á hana þrátt fyrir að hún væri barnshafandi, þá umvafði hún í örvæntingu sinni bænasúlu Guðsmóðurinnar og ákallaði hana um hjálp.

Skyndilega leiftraði ofurskært ljós um súluna og blindaði málaliðana tvo sem lögðu á flótta skelfingu lostnir. Síðan vitraðist Guðsmóðirin Egidiu og huggaði hana í nokkrar mínútur og fullvissaði hana um að hættan væri liðin hjá. Síðan hvarf hún hinni verðandi móður sjónum, og hún ól barnið við súluna. Hún vafði barnið í klæði sín og auðnaðist að staulast að nálægu húsi.

Fréttirnar af þessu atviki bárust eins og eldur í sinu um bæinn. Þrátt fyrir að degi væri tekið að halla safnaðist fólk saman þar sem Guðsmóðirin hafði birst. Þar beið þess óvænt sjón. Umhverfis súluna mátti sjá trérunna sem stóðu í blóma þrátt fyrir hryssingskalt veðrið þennan desemberdag. Allt frá þessum tíma hafa runnarnir ávallt staðið í blóma þann 29. desember ár hvert.

Það hefur valdið vísindamönnum miklum heilabrotum hvernig stendur á því að runnarnir hafi blómgast á þessum árstíma síðustu 650 árin. Runnarnir sem nefnast „prunus spinosa“ á latínu eru almennt kallaðir svartþyrnar á ítölsku og tilheyra rósaættinni og taka að blómgast í marsmánuði í hlýjum árum, en yfirleitt ekki fyrr en í aprílmánuði.

Allt frá því á sautjándu öld hafa jurtafræðingar frá Háskólanum í Torínó fylgst nákvæmlega með þessu fyrirbrigði og staðfesta að hér sé um ofur venjulega svartþyrnirunna að ræða og sömu tegundar og vaxa umhverfis Bra. Jarðvegurinn er hinn sami. Einskis jarðhita gætir þarna og ekki um neinar hitauppsprettur að ræða á svæðinu sem geta varpað ljósi á þennan einstæða blómgunartíma runnanna. Auk þess snúa þeir í norður og njóta því lítils sólarljóss og yls og hið staðbundna loftslag því óhagstætt.

Eins og gegnir í slíkum tilvikum sem vara öldum saman ber margt undarlegt við sem í augum trúaðra eru ekki tilviljanir. Þannig átti það sér stað veturinn 1877-1878 að blómin sprungu ekki út í lok desember. Fyrstu blómin sprungu ekki út fyrr en þann 20. febrúar. Daginn eftir bárust þær fréttir til Bra að á þessum sama tíma hafi eftirmaður Píusar páfa IX verðið kjörinn, en þetta var Vicenzo Gioacchino Pecci sem tók sér nafnið Leó páfi XIII.

En furðulegast af öllu virðast tengslin við hið heilaga klæði sem varðveitt er í dómkirkjunni í Torínó. Þannig stóðu blómin í blóma (sem yfirleitt er ekki nema í tíu daga) í þrjá mánuði veturinn 1898-1899. Þetta var nákvæmlega á sama tíma og hið heilaga klæði var haft til sýnis og ljósmyndað í fyrsta skiptið.

Þann 23. nóvember 1973 var hið heilaga klæði sýnt í sjónvarpinu í fyrsta skiptið að ósk Páls páfa VI. Á sama tíma tóku blómin á svartþyrnarunnunum að blómstra og stóðu í blóma allt til næsta vors. Sama máli gegndi árið 1978 þegar klæðin voru höfð til sýnis. Meðal hinna 3 milljóna pílagríma var erkibiskupinn í Kraká, sem skömmu síðar varð Jóhannes Páll páfi II.

Vittorio Messori, Ipotesi su Maria

No feedback yet