« Vekjumst vér nú af óræktarsvefniHin nýju lög gegn fóstureyðingum í Suður Dakota »

09.03.06

  16:08:23, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 571 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Minningabrot

Fyrir um það bil tuttugu árum síðan varð ég fyrir merkilegri lífsreynslu. Ásamt fleira fólki heimsótti ég sængurkonu sem alið hafði barn fyrir tímann. Þetta er nefnt „fyrirburafæðing“ og í þessu tilviki var móðirin komin sjö mánuði á leið. Í dag er þessi fyrirburi stæltur strákur sem stundar íþróttir, menntaskólanám og byggingarvinnu í skólafríum.

Þetta var síðdegis á gamlársdag og þá er það óskrifuð regla á fæðingardeild Landsspítalans að bjóða þeim sem þess óska, að líta inn á fyrirburadeildina. Hjúkrunarkonan lét mig klæðast heljarmiklum hvítum búningi og stígvélum sem minnti einna helst á búning geimfara vegna þess að glerhlíf er fyrir andlitinu til að koma í veg fyrir alla smithættu. Þessi heimsókn varð eitt af markverðari augnablikunum í mínu lífi.

Hún gekk með mig um á milli glerkassana þar sem börnunum var komið fyrir í og þar sem þau lágu dúðuð með lopahúfur og trefla. Þetta er gert sökum þess að lungun eru enn svo veikburða, að börnin mega alls ekki kvefast því að þá er vá fyrir dyrum. „Og þessi hérna,“ sagði hún svo, „er einungis 3 mánaða gamall.“ Ég spurði furðu lostinn: „Og eiga þessi börn sér einhverja lífsvon“? Já, já, tækninni hefur fleygt svo mikið fram,“ svaraði hún. [1]

Það er óþarfi að taka fram að barnið var enn dvergvaxið og húðin jafnvel hálf gegnsæ. Það er á mörkum þess sem í læknisfræðinni er skilgreint sem „fóstur sem er á mörkum þess að geta lifað utan móðurlífsins.“ Í fóstureyðingarstórðjunni er slíkum „fóstrum“ miskunnarlaust eytt, eða réttara sagt myrt. Það var undarleg tilfinning að sjá hvernig barnið skynjaði nærveru móðurinnar og andlitið kipraðist örlítið til þegar hún snerti hendur þess.

Eins og ég sagði þá var þetta á gamlársdag og það var hrollkalt úti. Það skipti svo sem ekki miklu máli því að bílinn minn var nýr og var en heitur þegar ég settist upp í hann. Engu að síður varð mér hrollkalt þegar mér var hugsað til þess að í næstu byggingu á sömu lóð deyða þeir þessi börn sem fórnfúsar hjúkrunarkonur og foreldrar hlúa að í byggingunni við hliðina.

Þetta er gert til samræmis við opinber lagaboð. Kunningjakona mín sem var orðin 35 ára þegar þau hjónin áttu sitt fyrsta barn greindi mér frá því þegar hún heimsótti lækninn í fyrsta skiptið. Hann sat við skrifborð sitt og horfði á hana þungbúinn á svip og líkt og með trega. Þegar hún greindi honum frá því að hún ætlaði sér að eignast barnið létti yfir ásjónu hans og hann brosti og sagði: „Og ég sem hélt að þú ætlaðir að biðja um fóstureyðingu!“ Mennsk lög eru ekki ávallt léttbær þeim sem falið er að annast framkvæmd þeirra, einkum þegar þau ganga þvert á boðorð Guðs.

[1]. Þarna varð mér á í messunni! Barnið hlýtur að hafa verið komið á 23 viku, eða ríflega 5 mánuði.

Um lífslíkur fyrirbura og heilsufar

5 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta var góð saga, Jón. Þakka þér hana, hún minnir okkur á gildi hvers mannslífs, jafnvel okkar smæstu bræðra og systra. Varðstaða um rétt og mannhelgi hinna ófæddu er meðal helztu kennimarka kristinnar hugsunar og siðferðis nú á tímum, rétt eins og það var á dögum Tertúllíans kirkjuföður, sem fæddist í Karþagó í Norður-Afríku um 150 e.Kr. Þú hefur áður, Jón, sagt hér frá grimmd manna í Karþagó, þar sem stundaðar voru barnafórnir fyrir hina heiðnu ‘guði’. Nú ætla ég að vitna í frásögn Tertúllíans einmitt af þessum vettvangi blóðugrar heiðni, og svo geta menn spurt sjálfa sig, hvort kristindómurinn hafi ekki fært þessum Miðjarðarhafsþjóðum eitthvað, þegar hann afnam blóðfórnir hinna saklausu. Þar koma börnin líka við sögu, m.a.s. þau ófæddu, í frásögn hans.

Varnarræða Tertúllíans (Liber Apologeticus) var þýdd á íslenzku af séra Gunnari í Kópavogi Árnasyni (prófasts á Skútustöðum Jónssonar). Gunnar var lengi ritstjóri Kirkjuritsins, farsæll maður, skýr og góður áheyrnar, þegar maður heyrði til hans í útvarpsmessum. Varnarræðuna birti hann allnokkuð stytta í Kirkjuritinu í maí–júní 1970, en ég á hana líka í sérprenti úr því (31 bls.). Þar segir á bls. 9, eftir að Tertullianus (eins og hann hét á latínu) hafði rakið baktal og róg heiðinna manna um þá kristnu:

En nú skal ég segja yður hvers vegna þér getið trúað slíku um oss kristna menn. Þetta er að vísu ógerlegt [þ.e. ómögulegt, að það standist um kristna menn, innsk. JVJ], en samt hefur nokkuð svipað verið framið, ekki af oss, heldur yður! Allt fram á daga Tíberíusar fórnuðu menn Satúrnusi börnum í Afríku. Hengdu prestarnir þau upp í tré, en hermenn vorir stóðu þar vörð og geta borið þessu vitni [1]. Og í Gallíu fórnuðu menn Merkúríusi gömlum mönnum [2]. Já, höfuðguðinn Júpíter drottnar í höfuðborginni Róm [3], og er líkneski hans laugað mannsblóði árlega. Svei, svarið þér, það er ekki annað blóð, sem þar er fórnað, en þeirra manna, sem barizt hafa við óarga dýr! [4] Jæja, látum sem svo sé, en mannsblóð er það nú samt, og ekki batnar Júpíter við það að vera laugaður af blóði illmenna.

Vér drepum ekki börn, en þér drepið þau eins og alkunnugt er. Þér drekkið nýfæddum börnum eða berið þau út, svo að þau deyi hungurdauða eða eru etin af hundum [5]. Morð er bannað á meðal vor, vér deyðum ekki einu sinni börn fyrir fæðingu [leturbr. JVJ], en hvað gerið þér í þeim efnum? Vér etum ekki menn, hvorki börn né fullorðna. En þér etið þó ket þeirra villidýra, sem hámuðu í sig menn í kappleikjum. Þér sleikið út um af græðgi í bjarnarmaga, sem er úttroðinn af mannaketi! Hvernig ættum vér, sem höfum jafnvel óbeit á dýrsblóði [6], að neyta mannsblóðs?

Neðanmálsgreinar:

[1] Þetta minnir á Pál postula, sem í vitnisburði sínum um upprisu Krists vísar til þess, að mörg vitni eru enn á lífi þeirra manna, sem sáu hann með eigin augum upprisinn (Post.13.31; I. Kor. 15.6: “síðan birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi til þessa"). Þar með lagði hann það undir, að menn gætu borið málið undir þau vitni til að sannfæra sig um sanngildi þess, sem hann sagði frá. (Þetta styrkir tiltrú okkar á vitnisburð Páls, því að bréf hans til Korintumanna var lesið upp yfir öllum söfnuðinum.) Það sama gerði Tertullianus hér – vitnar í þjóna ríkisins því til staðfestu, að þannig höguðu menn sér í heiðninni.

[2] Trúlega voru það líka mannfórnir til guðanna, þegar gamalmennum var hrundið fyrir björg í hallærum á Íslandi. Venjulega er þetta tekið öðruvísi, en sennilega hefur þetta verið til að friða guðina og fá þá til að aflétta hallærinu. Ég ber ekki Jón Hnefil Aðalsteinsson fyrir þessu, hinn fróðasta mann um þessi mál, en þarf að “fletta upp í honum” til að fá þann grun minn staðfestan. JHA hefur birt afar merka hluti í þessum efnum.

[3] Takið eftir, að þetta er auðvitað skrifað löngu áður en Rómaveldi lagðist undir lok – löngu fyrir viðurkenningu yfirvaldanna á kristnum sið.

[4] Þetta er dæmigerð, kaldhæðnisleg réttlæting, sem verður til í hugum þeirra manna, sem hafa vondan málstað að verja. – Ein saga úr þessari viku (sem minnti mig líka á aðra miklu ljótari úr fornöld) kemur upp í hugann í þessu sambandi. [Finn ekki Blaðið, þar sem hún birtist, en færi þetta væntanlega inn í annarri aths. síðar.]

[5] Sama siðleysi tíðkaðist hér á Íslandi í heiðnum sið, en var afnumið fljótlega eftir kristnitökuna. Þó þurfti Þorgeir Ljósvetningagoði (sem var auðvitað heiðinn) að gera þá málamiðlun fyrir hönd trúbræðra sinna við þá kristnu árið 1000, að þeir heiðnu fengju áfram um sinn að halda sínu fari um barnaútburð. En það ákvæði var fellt brott um 1006/8, minnir mig, frekar en 1013.

[6] Sbr. Postulasöguna, 15.20 ("þeir skuli halda sig frá allri flekkun af skurðgoðum og frá saurlifnaði og frá köfnuðu og frá blóði“) og 15.29. (Athugið, að þetta er enn í gildi fyrir kristna menn. Því leyfist okkur ekki, bræður, að éta blóðugt nautakjöt né blóðmör.)

09.03.06 @ 20:55
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Rétt er þetta allt nafni. En við skulum ekki gleyma því að Stóridómur sem lúterskir fluttu inn frá þýskum var skelfilegt réttlæti. Ég hef fyrir satt að stúlku hafi verið drekkt í Kleifarvatni árið 1832 samkvæmt ákvæðum Stóradóms. Mér hefur ekki auðnast að finna staðfestingu um þetta. En þetta var nú „barasta“ snauð vinnukonu, og hreppstjórinn varð að bjarga „ærunni.“

En skelfilegt er til þess að hugsa að hinn nýi siður varð til þess að konum var drekkt í pokum í Drekkingarhyl, nokkuð sem var fáheyrt í heiðni og í kaþólskum sið. Þeir kölluðu þetta „siðbót“ ef mig minnir rétt.

En eins og ég segi: Sá sem missir sjónar af Guðsmóðurinni glatar Syninum fyrr en síðar og hananú.

Nú fara þeir svona með ungbörn sín í miskunnarleysi sínu með lyfjum eins og:

Yasmin 63stk. kr. 2805 (Viðmiðunarverð)
Meloden 63stk. kr. 2083
Marvelon 63stk. kr. 1917
Triquilar 63stk. kr. 1341
Gynera 63stk. kr. 1553
Trinovum 63stk. kr.1010
Microgyn 63stk. kr 1243

eða sogdælunni ef hitt bregst!

10.03.06 @ 11:09
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ertu að tala þarna um frumfósturs-deyðingarpilluna, Jón? (þá sem menn leyfa sér að kalla hér “enga fóstureyðingu, heldur neyðargetnaðarvörn")?

10.03.06 @ 12:37
Lárus Viðar

Jón Rafn, þú segir eftirfarandi í pistli þínum:

„Og þessi hérna,“ sagði hún svo, „er einungis 3 mánaða gamall.“ Ég spurði furðu lostinn: „Og eiga þessi börn sér einhverja lífsvon“? Já, já, tækninni hefur fleygt svo mikið fram,“ svaraði hún.

Ertu að meina hér að barnið hafi fæðst eftir þriggja mánaða meðgöngu? Ég er nokkuð viss á því að fyrirburar eigi sér enga lífsvon fyrr en eftir 23 vikna meðgöngu, sem er rétt ríflega fimm mánuðir. Sérstaklega ef þetta hefur fyrir 20 árum síðan.

12.03.06 @ 01:12
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Lárus! Þetta er misminni hjá mér, bið þig forláts. Fór í gegnum greinar í Læknablaðinu og þetta er hárrétt hjá þér. Þakka þér fyrir ábendinguna.

12.03.06 @ 08:36