« Ritningarlesturinn 30. september 2006Ritningarlesturinn 29. september 2006 »

29.09.06

  09:09:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1205 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Mikjálsmessa – Um kraft (dynamos) Heilags Anda

Hversu iðulega grípur heilagur Páll ekki til þessa orðs í postullegum skrifum sínum. Þetta má rekja til þess að hann komst sjálfur í kynni við þennan kraft á veginum til Damaskus. Faríseinn Sál ofsótti kristna menn og deyddi og Jesús samkenndi sig við þá því að hann segir:

„Ég er Jesús, sem þú ofsækir“ (P 9. 6).

Jesús samkennir sig svo algjörlega við hina stríðandi kirkju á jörðu – líkama sinn – að hann lítur á hana sem sjálfan sig. Hversu huggunarrík eru þau ekki þessi orð enn í dag, og einkum í dag, vegna þess að eins og hin blessaða Mey sagði í Fatíma, þá lifum við nú á endatímanum. Satan æðir um jarðarbyggðina og berst um á hæl og hnakka vegna þess að hann gerir sér ljóst að tími hans er að renna út. Hin Nýja Hvítasunna – hin síðari Hvítasunna – er skammt undan, og reyndar hafin í Kína! Hinar þrjár myrku nætur eru skammt undan og síðan rennur upp öld elskunnar!

Sami krafturinn og Páll stóð frammi fyrir á veginum til Damaskus leysti Pétur og félaga hans úr fangelsinu (sjá P 5. 17-26). Hinir trúlausu yppa einungis öxlum og segja að þetta séu nú einungis gamlar gyðingasagnir sem ekkert mark sé takandi á. Þetta nákvæmlega sama gerðist engu að síður í Kína fyrir örfáum árum. Einn af forvígismönnum hvítasunnuhreyfingarinnar meðal mótmælenda – bróðir Yun – var lokaður inni í einhverju öruggasta fangelsi ógnarstjórnar kommúnista í Kína: Zhengsoufangelsinu. Þar var hann hafður í klefa með einhverjum mestu glæpamönnunum í Kínverska alþýðulýðveldinu sem í reynd frelsuðust allir. Han svalt heilu hungri í 75 daga án þess að bragða vott né þurrt og kvalarar ógnarstjórnarinnar brutu á honum fæturna með látlausum barsmíðum. Svo sagði Drottinn við hann þegar tíminn var fullnaður: Gakktu út! Og hann gekk út um nokkur járnhlið þar sem ströng gæsla var höfð um hönd og út í gegnum fangelsisgarðinn þar sem 30 varðmenn stóðu vörð. Þeir sáu hann ekki fremur en félagar þeirrar inni í fangelsinu. Yun sté upp í leigubíl sem beið eftir honum og ók á brott. Það var ekki fyrr en hann var kominn í öruggt skjól að hann gerði sér ljóst að hann gat gengið styrkum fótum Basta! [1]

Þetta er sökum þess að kraftur Heilags Anda blindar Satan eins og Guðsmóðirin hefur kunngert okkur í kirkjunni. Það er engin tilviljun að Biblían hefst og lýkur með konunni: „Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis“ (1M 3. 15). Það er María Guðsmóðir sem mun „merja höfuð“ höggorms dauðans sem hin nýja Eva. Þetta er sá sannleikur sem opinberaðist ungversku karmelsysturinni Erzebet (Elísabet) Szanto. Guðsmóðirin sagði við hana: „Logi náðarinnar sem ég færi þér úr Flekklausu Hjarta mínu verður að berast frá hjarta til hjarta. Þetta er það kraftaverk sem mun blinda Satan. Þetta er logi elsku og einingar og við munum slökkva eld með eldi: Eld hatursins með eldi elskunnar! Mér áskotnaðist þessi náð hjá himneskum Föður okkar sökum sára Sonar míns.“ Því bað Drottinn okkur að biðja á þennan veg:

Heil sért þú María, full náðar,
Drottinn er með þér,
blessuð sért þú á meðal kvenna
og blessaður sé ávöxtur lífs þíns, Jesús.
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthelltu náð loga elsku þinnar
yfir allt mannkynið,
nú og á dauðastundu vorri. [2].

Það er af þessum ástæðum sem bandaríski trúarheimspekingurinn og guðfræðingurinn Peter Kreft hvetur okkur til að biðja:

Ákallið Maríu, hina síðari Evu, konuna sem sigraði höggorminn sem tældi hina fyrri Evu (1M 3. 15). Hún vann sigur á þessum höggormi fyrir tvö þúsund árum (sjá Opb 12) og að nýju í Mexíkó árið 1531, og enn að nýju í Þýskalandi árið 1945 og aftur í Rússlandi árið 1989. Þennan sigur getur hún fullkomnað að nýju meðal þjóða sem guðræknir Múslimar kalla „hinn mikla Satan,“ menningu sem úthellir blóði milljóna saklausra barna árlega fyrir gráðugan munn Móloks. Það er einungis Drottning englanna og himneskar hersveitir hennar sem megnar að sigra þennan engil illskunnar og umbreyta menningu okkar úr „dauðamenningu“ í lífsmenningu ljóss og elsku. [3]

Áður hef ég vikið að því hér í skrifum mínum á Kirkjunetinu hvernig Guðsmóðirin hefur opinberað okkur þennan kraft í Medjugorje þar sem vísindamenn mældu hann með þeirri tækni sem raunvísindi nútímans hafa yfir að ráða. [4]

Við aðskilin Kristsystkini okkar í hvítasunnuhreyfingu mótmælenda vil ég einungis segja þetta: María Guðsmóðir er FYRSTA LIFANDI SÁTTMÁLSÖRK hins Nýja sáttmála og leiðir kirkjuna áfram í baráttunni við „andaverur vonskunnar í himingeimnum“ (Ef 6. 12). Lesið Ritninguna í þessu ljósi:

Héldu þeir nú frá fjalli Drottins þrjár dagleiðir, en sáttmálsörk Drottins fór á undan þeim þrjár dagleiðir til þess að velja hvíldarstað handa þeim. Og ský Drottins var yfir þeim á daginn, er þeir tóku sig upp úr herbúðunum. En er örkin tók sig upp, sagði Móse: „Rís upp, Drottinn, svo að óvinir þínir tvístrist og féndur þínir flýi fyrir þér.“ Og er hún nam staðar, sagði hann: „Hverf þú aftur, Drottinn, til hinna tíu þúsund þúsunda Ísraels“ (4 M 10. 33-36).

Þannig fylgir kirkjan Guðsmóðurinni eftir á sigurgöngu hinnar Nýju Hvítasunnu. Og hún er ekki ein á ferð. Nú fer úrslitaorrustan fram í hinum ósýnilega heimi Andans milli heil. Mikjáls og himneskra hersveita hans og svartengla Satans (sjá Opb. 12). Höfum einungis eitt í huga! Frá alda öðli hafa hinir heilögu kirkjunnar skilið orðin „með halanum dró hann (Drekinn mikli, en nafn hans er einnig Dauðinn) þriðja hlutann af stjörnum himins og varpaði þeim miður á jörðina“ (Opb 12. 4) sem skírskotun til þeirra presta sem fallið hafa frá réttri trú. Hversu sannur er ekki þessi skilningur þeirra ekki, eins og blasir við sjónum í dag á tímum Antíkrists.

SJÁ ENNFREMUR: http://www.tabernacleoftheheart.com/Tabernacle%20Project/icelandic_site/sosh_page%20copy.html

[1]. Heavenly man, A Miraculous Escape, bls. 251-262.
[2]. Imprimatur: Biskupsdómstóllinn í Szekesfehervar, Ungverjalandi, 26. september 1078/1404. Nihil obstat: Dr. Laszlo Iranyi biskup, 31. maí 1984. En hefur hið heilaga Sæti ekki tekið afstöðu til þessarar breytingar á Maríubæninni, en hinum trúuðu er heimilt að biðja hana með þessum hætti. Íslensk þýðing bókar Erzsebet, Logi elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu, verður brát fyrirliggjandi á Vefrit Karmels, en hún hefur farið sigurför um heiminn.
[3]. Angels and Demons, bls. 126.
[4]. http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/02/21/p207#more207

No feedback yet