« Nú er mælirinn fullur, þetta getur ekki haldið svona áfram!Um heiðrun og tilbeiðslu »

12.03.07

  19:08:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 441 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Mikill vísindamaður og lífsverndarsinni – dr. Jérôme Lejeune – tekinn í tölu heilagra?

Erkibyskupinn í París hefur nú ákveðið að hefja rannsókn á lífi franska erfðafræðingsins Jérôme Lejeune (1928-1994) til að taka hann í tölu heilagra. Jérôme fæddist í Montrouge, einu úthverfa Parísar og lagði síðar stund á læknisfræði og erfðafræði. Árið 1958 varð hann heimsfrægur fyrir að uppgötva erfðagalla sem valda Downseinkennum. Þrátt fyrir að hann aflaði sér viðurkenningar sem fræðimaður, prófessor og vísindamaður, hélt hann áfram að starfa með börnum sem bjuggu við alvarlega fötlun og síðar varð hann mikill lífsverndarsinni og var ómyrkur í mæli hvað áhrærir fósturdeyðingar í Evrópu sem utan, þrátt fyrir fjandskap margra félaga sinna innan læknisfræðinnar.

Dr. Lejeune veitti sérfræðiálit í ýmsum réttarhöldum í Bandaríkjunum og í svokölluðu Borowski máli í Kanada. Margir lífsverndarsinnar sem áttu þess kost að hitta þennan heimsfræga erfðafræðing hrifust mjög af auðmjúkri framkomu og hlýju hans. Eitt sinn þegar hann var beðinn um sérfræðiálit í réttarhöldum sem haldin voru í Bandaríkjunum gafst honum tækifæri til að heimsækja Alþjóðlegu heilbrigðismálastofnuna í New York og lýsti því þá yfir „að hér væri um heilbrigðismálastofnun að ræða sem hefði umbreyst í þjónustustofnun fyrir dauðamenninguna.“ Sama kvöldið skrifaði hann bréf til móður sinnar og sagði: „Í dag varð ég af nóbelsverðlaunum mínum sökum þessara orða.“

Jim Hughes, varaforseti Samtaka lífsverndarsinna í Kanada, bauð dr. Lejeune að búa á heimili sínu í Torontó á áttunda áratugnum. Hughes segir að doktorinn hefði augljóslega verið heilagur maður: „Áður en hann hóf að halda fyrirlestra sína hringdi hann í nokkur nunnuklaustur og bað um fyrirbænir systranna svo að allt gengi vel.“ Venjulega sóttu nokkur þúsund manns fyrirlestra hans um lífsvernd sem voru „hrífandi.“

Þrátt fyrir að dr. Lejeune yrði af nóbelsverðlaununum sökum bersögli sinnar hvað áhrærir Alþjóða heilbrigðismálastofnunina hlóðust á hann viðurkenningar. 1974 var hann skipaður í Vísindaráð Páfagarðs. 1981var hann skipaður í Frönsku Akademíuna og 1994 skipaður forseti Vísindaakademíu Páfagarðs. Árið 1962 fékk hann Kennedy verðlaunin; William Allen Memorial Award 1969 og Griffuelverðlaunin 1993. Í heimsókn sinni til Parísar 1997 vitjaði Jóhannes Páll páfi II grafar þessa fræga franska vísindamanns.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jerôme Lejeune var stórmerkur maður, mikill vísindamaður og brautryðjandi, þar að auki liggja eftir hann merkar greinar um lífsverndarmál. Þakka þér greinina, nafni, ég kem hingað aftur að vitja hennar.

13.03.07 @ 00:30