« Dagar náðar og hvíldarMerki krossins 1. hefti 2006 komið út »

01.08.06

  10:53:59, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 365 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni, Trúarleg tónlist og textar

Metnaðarfullt framtak Sigur Rósar á tónlistarsviðinu

Tónleikar hljómsveitarinnar Sigur Rósar á Miklatúni í fyrrakvöld voru sannarlega metnaðarfullir og tónlistin áheyrileg. Ennfremur er þakkarvert það framtak tónlistarfólksins að selja ekki aðgang að tónleikunum. Sú ákvörðun myndar verðugt mótvægi við þann heim neyslu og eyðslu sem svo mikið ber á í samtíma okkar.

Segja má að tónlist Sigur Rósar sé fyrst og fremst tónlist andans og að í henni birtist ákveðin tilvistarleg íhugun sem svo gjarnan er fyrir borð borin. Nútímafólk leitar kærleika, tryggðar og öryggis og allt of oft reynist því miður erfitt að höndla þessi gildi. Söknuður og þrá eftir þessum tilfinningum hlýtur að vera sárasukablandinn og það er þessi tregi nútímamannsins sem hljómsveitinni hefur tekist að höndla og túlka svo vel og er trúlega einn stærsti þátturinn í velgengni hennar auk frumlegs og vandaðs hljóðfæraleiks. Ég vil ekki segja að tónlistin sé trúarleg enda erfitt að tengja hana við trú með beinum hætti en vera má að hún nái einmitt að fylla það skarð sem hverfandi trúaráhugi skilur eftir sig og að hún nái að tjá efa um efnisleg gildi og gæði. Efa sem blundar kannski víða en leitar að farvegi.

Einnig ber að lofa það framtak RÚV Sjónvarps að sjónvarpa beint frá tónleikunum. Þarna gafst okkur sem heima sátum og kannski fyrst og fremst landsbyggðarfólkinu tækifæri að njóta einstaks viðburðar. Óskandi væri að þessi metnaður sé vísir að því sem koma skal og landinn fái nú í framhaldinu að sjá Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar, Passíusálmaflutning Megasar og þó ekki væri nema einn stuttan þátt um Voces Thules með tóndæmum úr Þorlákstíðum. Það væri áhugaverð og metnaðarfull tilbreytni frá þeirri veraldlegu tónlist og textuðu erlendum bíómyndum sem boðið var upp á í RÚV Sjónvarpi um síðustu páska svo dæmi sé tekið.

No feedback yet