« Dauðarefsingu hafnað á FilippseyjumHrapað að vissu - endað í skyssu »

30.06.06

  16:00:36, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 592 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Andi sannleikans mun leiða yður

Á hvítasunnudaginn 4. júní sl. átti ég þess kost að vera viðstaddur messu í St. Andrews kirkjunni í Roanoke í Virginiu. Vefsetur kirkjunnar ásamt upplýsingum um hana má finna á vefslóðinni http://www.standrewsroanoke.org/. Byggingin er úr hlöðnum steini með tveim turnspírum. Birtan berst inn gegnum fagurlega skreytta glugga með myndum úr biblíunni. Kirkjugestir sitja á löngum trébekkjum sem hver um sig er líkast til á lengd við tvo eða þrjá bekki Landakotskirkju. Messan fór fram á ensku en það vakti athygli mína að þegar kom að fyrirbænum þá voru þær lesnar á ensku, spænsku og vítenömsku. Bænasvörin voru svo líka sungin á þessum tungumálum. Þetta tók ekki langan tíma en hefur örugglega snert strengi í brjóstum þess fólks sem á þessar tungur að móðurmáli. Predikunin var stutt en hnitmiðuð.

Presturinn talaði blaðalaust og flutti snjalla og skorinorða ræðu. Hann lagði út af guðspjallstexta dagsins og ræddi um sannleikann. Textinn er úr Jóhannesarguðspjalli 15:26-27 og 16:12-15. Sérstaklega gerði hann eftirfarandi orð að umtalsefni: „En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann.“ Hann vísaði til þess að vegferð kirkjunnar gegnum aldirnar felur í sér að hún nálgist stöðugt sannleikann. Það fæli þó ekki í sér að upprunalega hafi kirkjan verið fjær sannleikanum því hún hafi haft í sér mikinn heilagleika. Hann varaði í framhaldi við þeim sem segðust vera handhafar alls sannleikans. Enginn hefði allan sannleika nema Guð einn. Í þessu atriði greinir kaþólsku kirkjuna á við ýmsa aðra hópa sem byggja grundvöll sinn alfarið á helgum ritum. Til eru þeir sem gera tilkall til þess að hafa höndlað allan sannleikann í trúarlegum efnum og hann sé að finna í trúarritum þeirra eins og trúarleiðtogar þeirra túlka þau. Allur sannleikur og allt lögmál standi með skýrum hætti í trúarritunum. Viðhorf kaþólsku kirkjunnar kemur aftur á móti glögglega fram í eftirfarandi greinum trúfræðsluritsins:

107. Hinar innblásnu bækur kenna sannleikann. “Úr því að líta ber á allt það sem hinir innblásnu höfundar eða heilagir skrifarar vottuðu sem staðfestingu Heilags Anda, verðum við að viðurkenna að bækur Ritningarinnar kenna ákveðið, einlæglega og án villu þann sannleika sem Guð, með tilliti til hjálpræðis okkar, vildi sjá færðan í letur í Heilagri Ritningu.”

108. Eigi að síður er kristin trú ekki “trúarbrögð bókarinnar”. Kristindómurinn er trúarbrögð “Orðs” Guðs, orðs sem “ekki er ritað og þögult orð heldur holdi klætt og lifandi Orð”. Ef Ritningin á ekki að vera dauður bókstafur, verður Kristur, hið eilífa Orð hins lifanda Guðs, fyrir Heilagan Anda, að “ljúka upp huga okkar til að skilja Ritninguna.” [1]

Aðgætið lesendur góðir að á þessum tveim viðhorfum er mikill munur. Annars vegar eru þeir sem segja að trúfélagið eða yfirmaður þess sé handhafi alls sannleika Guðs á jörðinni og hins vegar hinir sem segja að leiðin að sannleikanum sé ákveðið ferli og Guð einn feli í sér allan sannleika. Stundum kemur fyrir að menn líta á hlutverk páfa þannig að það tilheyri fyrri skilgreingunni en þar er um misskilning að ræða.

[1] Trúfræðslurit Kaþólsku kirkjunnar. http://mariu.kirkju.net. [Tengill]

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er ágæt grein, sem ég er alveg sammála. – Fer bara að hugsa um hugsanleg áhrif af þessu á suma, sem misskilja hlutina: Taka relatívistarnir þetta sem viðurkenningu þess, að ekki sé neinn algildur sannleikur til á jörðu – að efast beri um allt? – En vitaskuld er hvorki Ragnar né presturinn né Trúfræðsluritið að gefa afstæðishyggjunni neitt undir fótinn (ein mynd slíkrar afstæðishyggju er t.d. sú, að kristin trú sé ekkert endilega sannari en önnur trú – og að öll trúarbrögð séu jöfn: jafngóð og jafnsönn – sem er afstaða sem ósamrýmanleg er við kristna trú). Hitt er satt og rétt, að sannleikur trúarinnar er aðeins dauft endurskin af sannleika Guðs og verka hans, sem og, að kirkjan gerir ekki tilkall til að vita allt. Engu að síður veit hún ótalmargt nógu vel til að vera góður og sannarlega gagnlegur vegvísir hins trúaða gegnum þetta ófullkomna líf.

30.06.06 @ 20:53
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hið eilífa líf felst því í vaxandi kærleiksríkri þekkingu á Guði og Syni hans. Í þessu samhengi getum við haldið því fram af fyllstu einlægni að trúarsetningar hinnar stríðandi kirkju á jörðu leiði í ljós vöxt hennar í guðdómlegri þekkingu. Minnast má á fjölmörg dæmi um þennan vöxt sem hinir heilögu feður lögðu áherslu á í skrifum sínum og Gregoríos frá Nanzían orðaði með svo miklum ágætum um 350:

Gamla testamentið opinberaði Föðurinn með ljósum hætti, en Soninn einungis óljóst. Nýja testamentið opinberaði Soninn og gaf til kynna Guðdómstign Heilags Anda. Í dag dvelur Andinn meðal okkar og opinberar sig með fyllri hætti. Það var ekki talið tímabært að opinbera Soninn meðan Guðdómur Föðurins var ekki viðurkenndur með beinum hætti, eða að leggja byrðar Andans á herðar okkar (ef ég má tjá mig með svo djörfum hætti) meðan Sonurinn hafði enn ekki verið meðtekinn . . . heldur var þetta gert í stigvaxandi mæli og eins og Páll sagði með vexti og framförum frá dýrð til dýrðar svo að ljós Þrenningarinnar mætti skína á þá sem voru betur upplýstir . . . Frelsari okkar sagði að um ýmislegt annað væri að ræða sem lærisveinar hans gætu ekki borið að sinni (þrátt fyrir að þeir væru margs vísir) . . . Og enn að nýju sagði hann að Andinn myndi uppfræða okkur um allt þegar hann kæmi til að dvelja með okkur. Meðal þessa tel ég að það hafi verið Guðdómur sjálfs Andans sem yrði ljósari þegar frá liði þegar slík þekking væri orðin tímabær og unnt væri að meðtaka slíkt eftir að Sonurinn hefði verið viðurkenndur og þannig yrði Guðdómstign hans kunn (Patrologia Greaca,“ XXXVI, 161-4.).

Með þessum sífellda vexti í guðdómlegri þekkingu hefur sjálf kirkjan aukið kærleiksríka þekkingu sína í aldanna rás á ráðsályktun Guðs undir leiðsögn Heilags Anda. Hinar trúfræðilegu skilgreiningar á þessum trúarleyndardóm hafa ekki verið settar fram fyrr en ytri aðstæður hafa krafist þess, þrátt fyrir að sannleikurinn að baki trúarsetninganna hafi lifað í hjarta kirkjunnar sem guðrækileg afstaða hennar og iðkun.

Besta dæmið um þetta er flekkleysi hinnar Alsælu Meyjar sem ekki var gert að trúarsetningu fyrr en árið 1851, þrátt fyrir að Tatían hafi þegar vikið að þessum leyndardómi um 150 í ritum sínum.

Það var Duns Scotus sem leysti hinn trúfræðilega grundvöll að flekkleysi Maríu Guðsmóður með því að benda á það um miðja þrettándu öld að endurlausn Krists væri svo altæk, að hún væri afturvirk í tíma, en þetta var sá guðfræðilegi grundvöllur sem Kirkjuþingið í Trent gerði að sinni.

30.06.06 @ 21:50