« Metnaðarfullt framtak Sigur Rósar á tónlistarsviðinuHátíðahöld í tilefni stofnunar hinna fornu biskupsdæma »

18.07.06

  14:52:45, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 144 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Merki krossins 1. hefti 2006 komið út

Fyrsta hefti af tímaritinu „Merki krossins“ árið 2006 er komið út. Meðal efnis er viðtal við Jóhannes Pál II. páfa: „Einhver stýrði kúlunni..“, grein eftir Kára Bjarnason „Ljómur herra Jóns Arasonar biskups?“ og grein eftir Edward Booth O.P.: „María mey frá Guadalupe: Vísindalegt mat á mynd hennar“.

Merki krossins er gefið út af kaþólsku kirkjunni á Íslandi og prentað hjá GuðjónÓ ehf. Ritstjóri er Þorkell Örn Ólason. Í ritnefnd eru: Torfi Ólafsson, Kári Bjarnason, Gunnar F. Guðmundsson, Pétur Urbancic og Edward Booth O.P. Afgreiðsla ritsins er á Biskupsstofu, Hávallagötu 14, 101 Reykjavík, sími 552 7991, og er þar einnig tekið á móti áskriftargjöldum sem og tilkynningum um breytt heimilisföng. Áskriftargjald er 1200 kr. fyrir tvö blöð árlega og kostar hvert blað 700 kr. í lausasölu.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Alltaf gott að fá Merki krossins, og í hinu nýja broti tímaritsins hefur það enn tekið ágætum framförum. Kári Bjarnason er góður höfundur, gagnfróður um trúarlegan kveðskap miðalda og a.m.k. fram á 17. eða 18. öld og hefur lagt blaðinu margt gott til; – einnig séra Edward Booth í Stykkishólmi, nú þegar allmikið við aldur, en bráðhress og hefur þegar auðgað kirkjuna hér að ýmsu efni, bæði í Merki krossins og á fræðslufundum m.m. Auk þessara má nefna Örn Bjarnason lækni, sem skrifað hefur merkilegar greinar um pílagrímaferðir Íslendinga á miðöldum o.fl., Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðing, sem alltaf skrifar hágæðagreinar, Þorkel Ólason ritstjóra, sem þýtt hefur margt gott t.d. úr þýzku og gert það afar vel, auk Torfa Ólafssonar, okkar elzta, en afkastamikla fræðara. Auk fjölmargra blaðagreina og innleggja í útvarps- og sjónvarpsþætti, sem og fjölda efnisgóðra greina í Merki krossins í nokkra áratugi, er Torfi eitt albezta sálmaskáld landsins, næmur, gæddur fagurri, kjarnmikilli og meitlaðri málvitund og segir oft ótrúlega mikið og hrífandi í fáum orðum. Þótt sálmar hans séu flestir þýðingar, verður þessi heiður ekki frá honum tekinn að vera með þeim fremstu í röð núlifandi sálmaskálda. Kaþólsku söfnuðirnir þekkja það bezt, eftir að hafa sungið hans texta í flestum messum og lifað sig inn í innilega trúrækið andrúmsloft þeirra.

18.07.06 @ 16:03