« Ritningarlesturinn 21. ágúst 2006Ritningarlesturinn 20. ágúst 2006 »

20.08.06

  10:04:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2469 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Meira um Evkaristíuna

Í dag, sunnudaginn 20. ágúst, er það evkaristían sem er predikun kirkjunnar. Ég vék að henni þann 16. ágúst s. l. í greininni: „Vald kirkjunnar á jörðu – skriftavaldið.“ Þetta vald fól Kristur kirkju sinni í hendur með orðunum: „Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni,“ Þetta er úr textanum í Mt 18. 15-20 þar sem Kristur fjallar um þetta vald hinnar postulegu arfleifðar. Það grundvallast á hlýðni við BOÐORÐ Krists. Þeim sem afneitar þessari hlýðni við boðorðin er ekki heimilað að meðtaka Evkaristíuna vegna þess að sá hinn sami vill ekki játa synd (ir) sínar og segja skilið við fyrri breytni sína.

Ákveðin öfl innan mótmælendakirkjunnar útbreiða statt og stöðugt þá ósannsögli, að ekki ríki eining innan rómversk kaþólsku kirkjunnar og Orþodoxakirkjunnar um þennan skilning. Rómversk kaþólskum lesendum til fróðleiks birti ég því hér skrif hl. Kallistosar patríarka [1] í Austurkirkjunni. Þau má sjá í rússnesku Fílokalíunni (Dobrotolubije) í „Leiðsögn til hjartakyrrðar í eitt hundrað greinum.“ Í grein 91 fjallar patríarkinn „Um heilaga bergingu og þá blessun sem það felur í sér þegar slíkt er gert af hreinni samvisku,“ það er að segja eftir skriftir. Því næst heldur hann áfram:

92. Það er nauðsynlegt að bera skyn á kraftaverk hinna Heilögu Leyndardóma – hvað þeir eru, hvers vegna þeir voru gefnir og til hvers þeir leiða

Heilagur Jóhannes Chrysostomos skrifar: „Það er nauðsynlegt að bera skyn á kraftaverk hinna Heilögu Leyndardóma – hvað þeir eru, hvers vegna þeir voru gefnir og til hvers þeir leiða. Einn er líkaminn, er sagt, því að vér erum limir á líkama hans, af holdi hans og beinum. (Ef 4. 4; 5. 30). Hinir innvígðu skulu halda sér við þessi orð! Til þess að vera þannig limir á þessum líkama, ekki einungis í kærleika, heldur í verki, skulum við sameinast þessum líkama. Þetta gerum við með þeirri næringu sem Kristur gaf okkur sem tákn um þá miklu elsku sem hann ber í brjósti til okkar.

Með þetta í huga sameinaðist hann okkur með því að samtengja okkur líkama sínum, þannig að við yrðum eitt með honum, rétt eins og höfuðið og líkaminn eru eitt. Þetta eru ummerki þessarar mestu hugsanlegu elsku. Job benti á þetta þegar hann vék að þeim sem tilheyrðu tjaldbúð Guðs og og elskuðu hann svo heitt, að þeir þráðu að verða eitt með líkama hans: Ó, ef við mættum einungis nærast á holdi hans! Aldrei myndum við seðjast (Job 31. 31, Septuagintan). Þannig töluðu þeir til þess að tjá hina miklu elsku sína á Guði. Kristur brást við með hið sama í huga: Til að leiða okkur til fyllri sameiningar við sig og til að tjá elsku sína. Hann gaf þeim sem slíkt þrá ekki einungis möguleika til að sjá sig, heldur að snerta sig, að smakka, að eta af holdi sínu, til þess að sameinast sér og þannig að uppfylla sérhverja þrá.“ (Ritskýringar við Jóhannesarguðspjall, 46). Og: „Þeir sem neyta þessarar fæðu standa ásamt englunum og erkienglunum og öðrum himneskum tignum íklæddir konungsskrúða Krists og vígbúnir himneskum vopnum. Og hér hef ég ekki kveðið of sterkt að orði: Þeir eru íklæddir sjálfum Konunginum. Jafn háleitur og undursamlegur sem þessi Leyndardómur er, þá getur þú nálgast hann í fullvissu þess, að þegar þú nálgast hann í hreinleika, gerir þú það þér til hjálpræðis. En ef samviska þín er slæm, muntu uppskera refsingu og þjáningar. Því að skrifað stendur: Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms (1Kor 11. 29).

Ef þeir sem saurga kyrtil Konungsins kalla yfir sig sömu refsingu og þeir sem rifu hann í sundur, kemur ekki á óvart að þeir sem meðtaka líkama Krists verðskuldi sömu refsingu þegar þeir meðtaka hann í saurgaðir sál, eins og þeir sem kvöldu hann með nöglunum. Sjáðu að hversu skelfilegri refsingu heilagur Páll víkur með orðum sínum: Sá sem að engu hefur lögmál Móse, verður vægðarlaust líflátinn, ef tveir eða þrír vottar bera. Hve miklu þyngri refsing ætlið þér þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fótum treður Son Guðs og vanhelgar blóð sáttmálans, er hann var helgaður í, og smánar Anda náðarinnar (Heb 10. 28, 29). Og: „Við skulum minnast þess með áþreifanlegum hætti þegar við meðtökum líkama Drottins og bergjum af blóði hans, að við öðlumst hlutdeild í þeim líkama sem situr í hæðum og englarnir vegsama, líkama sem stendur nærri hinum ófallvalta mætti – það er þessi sami líkami sem við neytum. Ó, hversu margar eru ekki þær leiðir sem okkur eru fyrirbúnar til hjálpræðis! Hann gerði okkur að sínum líkama, hann gaf okkur eigin líkama. En ekkert af þessu fær okkur til að snúa baki við illskunni. Ó blinda, ó, skynleysi!“ (3 umfjöllunin um Bréfið til Efesusmanna).

Og enn og aftur: „Öldungur nokkur sem er einstæður í sinni röð sagði mér, að sér hefði gefist að sjá og heyra, að ef þeir sem væru í þann vegin að kveðja þennan heim meðtækju hina Helgu Leyndardóma af hreinni samvisku, myndu englarnir taka á móti þeim og bera til himna sökum þessa náðarmeðals eftir dauðann.“ Og hinn guðdómlegi Jóhannes Damaskos segir („Um Rétttrúnaðinn, IV., kafli 13): „Þar sem við erum gæddir tveimur eðlum og erum tvískiptir, verðum við að nærast með tvenns konar hætti, og fæði okkar er því fjölþætt. Það er vatnið og Andinn sem elur okkur, og fæða okkar er brauð lífsins, Drottinn okkar Jesús Kristur, sem steig niður af himnum.“ Og enn síðar: „Rétt eins og menn lauga sig úr vatni og smyrja með olíu, þannig sameinaði hann náð Andans í skírninni í vatni og olíu og gerði að laug hins eilífa lífs. Og rétt eins og við erum vanir að eta brauð og drekka vatn og vín, þá sameinaði hann þetta Guðdómi sínum og gerði að líkama sínum og blóði, þannig að við gætum risið upp yfir okkar eigið eðli í krafti þess sem er okkur eðlilegt og venjubundið. Líkaminn er sannarlega sameinaður Guðdóminum – þeim líkama sem hin Blessaða mey ól, ekki sökum þess að sá líkami sem steig upp til himna komi sjálfur til jarðar, heldur sökum þess að brauðið og vínið ummyndast í líkama og blóð Drottins Guðs. Ef þú vilt vita hvernig slíkt getur átt sér stað, þá er nægilegt fyrir þig að leggja við eyra: í Heilögum Anda, rétt eins og sjálfur Drottinn skóp sinn eigin líkama í Heilögum Anda í hinni Blessuðu mey sjálfum sér til handa og í sjálfum sér. Meira vitum við ekki, annað en að Orð Guðs er sannleikur, kröftugt og almáttugt. Um annað getum við ekkert vitað.“

Og skömmu síðar: „Hin Heilaga máltíð afmáir syndir þeirra og miðlar þeim eilífu lífi sem meðtaka hana með verðugum hætti í trú og er líkama þeirra og sálum til verndar. En hún er þeim sem neyta hennar óverðuglega í vantrú til fordæmingar og tjóns, eins og dauði Drottins sjálfs. Brauðið og vínið eru ekki einungis tákn líkama og blóðs Drottins. Megi aldrei koma til slíks! Þetta er hinn guðdómlegi líkami hans sjálfs og hið raunverulega blóð hans, því að hann segir: Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur. Og enn síðar: „Hold og blóð Krists styrkir líkama okkar og sál og gengur aldrei til þurrðar né verður eyðingunni að bráð og er ætlað að vernda okkur og hreinsa af öllum óhreinleika. Þegar hún [evkaristían] hefur hreinsað okkur sameinumst við líkama Krists og Anda hans og verðum að líkama Krists. Þetta brauð er upphaf hins komandi brauðs sem er yfirskilvitlegt. Því að orðið „yfirskilvitlegt“ skírskotar annað hvort til hins væntanlega brauðs, það er að segja brauð hins komandi lífs, eða til þess brauðs sem við meðtökum nú okkur til varðveislu vegna þess að hold Drottins er Andi lífsins vegna þess að Andi lífsins gat það. Og það sem Andinn fæðir er andi. Ég segi þetta ekki til að afneita eðli líkamans, heldur til að sýna fram á að hann er lífgefandi og guðdómlegur.“ Og við lok kaflans: „Þessi líkami og þetta blóð leyndardómanna er nefnt tákn hins komandi, ekki sökum þess að þetta sé ekki raunverulega líkami og blóð Krists, heldur sökum þess að nú öðlumst við hlutdeild í Guðdómi Krists í útdeilingunni, en í hinum komandi lífi munum við gera það með andlegum hætti með því einfaldlega að njóta ásæis hans.“

Og hinn guðdómlegi Makaríos segir: „Rétt eins og vín streymir um alla limi líkamans, þannig að vínið er í manninum og maðurinn í víninu, á hið sama við um þann sem drekkur blóð Krists og fyllist Anda Guðdómsins sem streymir um alla sálina, þannig að sálin er að öllu leyti í honum og helgast með þessum hætti og verður verðug Krists Drottins, eins og postulinn segir: Og allir fengum vér einn anda að drekka (1Kor 12. 13). Með sama hætti veitist öllum þeim sem sannarlega öðlast hlutdeild í brauði kvöldmáltíðarinnar hlutdeild í Heilögum Anda, og þannig veitist verðugum sálum líf um aldir. Rétt eins og líf líkamans sprettur ekki upp af honum sjálfum, heldur kemur að utan, það er að segja af jörðu, hefur Guð hagað því svo til að sálin öðlast hold, drykk og klæði sem veita henni sannarlega líf, sem ekki má rekja til hennar eigin eðlis, heldur hans eigin Guðdóms, er frá hans eigin Anda og lífi. Guðdómseðlið felur í sér brauð lífs þess er sagði: Ég er brauð lífsins. (Jh 6. 35) og lifandi vatn, vín sem gleður hjartað og olíu allrar gleði.“

Og heilagur Ísidór segir: „Kvöldmáltíðin táknar hlutdeild í hinum guðdómlegu Leyndardómum vegna þess að hún sameinar okkur Kristi og gerir að hluttakendum í konungsríki hans.“ Og heilagur Nilos: „Það er með öllu útilokað að hinn trúaði frelsist, öðlist fyrirgefningu syndanna og gangi inn í konungsríki himnanna, öðru vísi en hann meðtaki hina hreinu Leyndardóma líkama og blóðs Krists í ótta, trú, og kærleika.“ – Heilagur Basil hinn mikli kemst eins að orði í bréfi til hinna göfugu Sesareumanna: „Það er hollt og gagnlegt að ganga til altaris daglega og meðtaka líkama og blóð Krists, sökum þess að Kristur segir sjálfur berum orðum: Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf (Jh 6. 54). Hver getur efast um að þegar lífið er meðtekið í sífellu, að það leiði þá ekki til lífs í gnægtum. Við neytum kvöldmáltíðarinnar fjórum sinnum í viku: Á sunnudögum, miðvikudögum, föstudögum og laugardögum, eins og aðra þá daga sem eru minningardagar hinna heilögu“ (VI., bréf 89).

Ég trúi því að þessi helgi maður hafi hafi gengið til altaris þessu ákveðnu daga sökum þess að hann var svo störfum hlaðinn, að honum var það ekki unnt á hverjum degi. Og heilagur Apollos segir: „Munkar ættu að neyta kvöldmáltíðarinnar á hverjum degi ef unnt er að koma slíku við vegna þess að sá sem fjarlægist hina Heilögu Leyndardóma fjarlægist jafnframt Guð, en sá sem meðtekur kvöldmáltíðina í sífellu meðtekur í sífellu sjálfan Drottinn í sjálfum sér. Og sjálfur segir Frelsarinn: Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum (Jh 5. 56). Þetta er munkum afar hollt vegna þess að með þessum hætti minnast þeir stöðuglega písla Krists okkur til hjálpræðis. Auk þess verða þeir að vera reiðubúnir daglega og undirbúa sig eins og ávallt til þess að vera þess verðugir að meðtaka hina Heilögu Leyndardóma og öðlast syndafyrirgefningu.“ Þessi regla var ávallt höfð í heiðri í bræðrasamfélagi hl. Apollos.

Heilagur Jóhannes af Stiga segir: „Ef líkami sem kemst í snertingu við annan líkama verður fyrir áhrifum frá honum, hvernig getur maðurinn þá komist hjá því að ummyndast, ef hann snertir við líkama Guðs með hreinum höndum?“ (Kafli 28). Í Lífi eyðimerkurfeðranna lesum við einnig: „Jóhannes Vostros, heilagur maður, sem hafði öðlast vald yfir illum öndum, spurði djöfla nokkra sem höfðu sest að í andsetnum stúlkum: „Hvað er það sem þið óttist í kristnum mönnum?“ Þeir svöruðu: „Þið búið yfir þremur máttugum vopnum: Hið fyrsta er það sem þið berið um hálsinn, hið annað það sem þið laugið ykkur úr í kirkjunni, hið þriðja, það sem þið meðtakið í altarisgöngum.“ Því næst spurði hann þá: „Hvað af þessu þrennu óttist þið mest?“ Þeir svöruðu: „Ef þið varðveitið vel það sem þið leggið ykkur til munns gætum við aldrei framar misboðið kristnum manni.“ Það þrennt sem þessir lífshættulegu óvinir okkar óttast mest er: Krossinn, skírnin og evkaristían.“

[1]. Kallistos frá Xantopoulos, hinn heilagi patríarki af Konstantínópel, var uppi á tímum Androníkosar, hins síðari Paleologoi (1360 e. Kr). Hann var nemandi hl. Gregoríosar frá Sínai (Palamas).

No feedback yet