« „Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?“Og þarna tóku margir trú á hann »

07.04.06

  06:30:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1184 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða

Þriðjudaginn 31. janúar s. l., nánar til tekið klukkan 7. 45 um kvöldið, felldi Breska þingið útgáfu ríkisstjórnarinnar á svonefndum „Kynþátta og trúarhaturslögum“ (Religious Hatred Bill). Tvær atkvæðagreiðslur fóru fram. Fyrri atkvæðagreiðslan snérist um það hvort breyta ætti lögunum og ríkisstjórnin var lögð að velli með 10 atkvæða mun. Síðari atkvæðagreiðslan snérist um lögin eins og þau komu frá lávarðadeildinni. Sú tillaga var samþykkt með eins atkvæða mun. Tony Blair tók þátt í fyrri atkvæðagreiðslunni, en hvar af vettvangi áður en kom að þeirri síðari. Tillaga lávarðardeildarinnar fól í sér mikla réttarbót vegna þess að hún TRYGGÐI kristnum mönnum rétt til að predika fagnaðarerindið. Héðan í frá er erfitt að sjá að prestar sem predika út frá orði Guðs í góðri trú og huga á Bretlandseyjunum brjóti lögin. Þannig vóg þetta eina atkvæði þungt. [1]

En þetta gildir ekki um öll lönd í Evrópu og þar á meðal sum Norðurlandanna, meðal annars Ísland. 233 grein hegningarlaganna (a) hljóðar svo:

Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Í athyglisverðri grein um þessi ákvæði kemst Jón Magnússon, lögmaður, svo að orði:

Sjónvarpsmaðurinn hræðilegi Jerry Springer semur söngleik sem sýndur er fyrir fullu húsi í London þar sem Jesús frá Nasaret er með bleyju og viðukennir að hann sé dálítið öfugur. Sænskur prestur er á sama tíma sóttur til saka fyrir andstöðu við samkynhneigð á grundvelli sambærilegra fáránlegra refsiákvæða eins og eru í 233.gr. a íslenskra hegningarlaga. Afrýjunardómstóll í Svíþjóð hefur þó komist að annarri niðurstöðu í því máli en Hæstiréttur hér komst að í máli ákæruvaldsins gegn Hlyni Frey Vigfússyni en sá dómur er að mínu viti Hæstarétti Íslands og saksóknara til skammar . . . Hvernig á kristinn maður að geta haldið fram sínum skoðunum ef hann á það stöðugt á hættu í kristnu landi að vera sóttur til saka fyrir að andæfa skaðlegri hjátrú og hindurvitnum í öðrum trúarbrögðum. [2]

Nú er enn annað mál komið fram á Íslandi, það er að segja ákæra Samtakanna 78 á hendur Gunnari Þorsteinssyni sem víkur að öðru ákvæði 233. gr. a, það er að segja hvað áhærir „kynhneigð.“ Með hliðsjón af fyrri dómi Hæstaréttar í málinu gegn Hlyni Frey Vigfússyni ætti dómur Hæstaréttar að verða Samtökunum 78 í vil. Hér er í reynd mikil hætta á ferðum gagnvart öllu tjáningarfrelsi í landinu, sem jafnframt fæli í sér að leiðin yrði rudd fyrir Samtökin 78 til að koma í veg fyrir að kristnir menn geti haldið fram skoðunum sínum og í kjölfarið að láta dæma hl. Ritningu sem „hatursbókmenntir.“

Játa verður að framkoma margra talsmanna samkynhneigðra hefur fremur einkennst af „trúarofstæki á málstaðinn,“ afstöðu sem blómstrar á svo nefndu „Biblíubelti“ í Bandaríkjunum, þar sem skoðanakúgun er óspart beitt til að þvinga skoðunum upp á aðra. Í sem fæstum orðum felst hún í orðunum: „Ef þú trúir ekki, þá skýt ég þig! í háðungarskyni. Í reynd er þessi málsókn afar einkennandi fyrir ofsóknarkennd viðbrögð samtaka samkynhneigðra í öllum þeim löndum þar sem svo kölluð „hatursákvæði“ (hate legislation) hafa verið lögfest. Hins vegar hafa kristnir menn farið sér hægt í þessum efnum hér á landi. Minna má á að iðulega er vegið gróflega að kristnum gildum í fjölmiðlum á Íslandi, nú síðast með reglubundnum skopmyndabirtingum í „Pú og pa“ í Fréttablaðinu þar sem með „háði, rógi og smánun“ er ráðist að kristinni trú með einstaklega smekklausum hætti. Vafalaust ber þó framkoma sjálf fjölmiðils allra landsmanna, Ríkissjónvarpsins, höfuð og herðar yfir allt annað hér á landi í þessum efnum, þegar Spaugstofumenn fengu óáreittir að „hæða og smána“ kristindóminn í opinni dagsskrá, án þess að hið víðfræga útvarpssráð sæi ástæðu til að „ganga í málið.“ Kristnum mönnum til hróss var ríkissaksóknara ekki falið að framfylgja eftir ákvæðum 233 gr. a í hegningarlögunum. Slíkt bendir til umburðarlyndis, sem því miður fer lítið fyrir hjá Samtökunum 78.

Varúðar er þörf í lýðfrjálsum þjóðfélögum á Vesturlöndum þegar einstrengislegum kröfur fámennra þrýstihópa er beitt í þrengsta skilningi laga til að knýja viðhorf þeirra fram sem skoðanabindingu fyrir allt þjóðfélagið í heild. Rétturinn til skoðanamyndunar og tjáningarfrelsis hefur fram til þessa verið ótvíræður innan viðurkvæmilegra marka. Og eins og Jón Magnússon hefur bent réttilega á þá hefði Kristur „sennilega verið ákærður af ríkissaksóknara og dæmdur af Hæstarétti lýðveldisins Íslands í dag til refsingar fyrir brot á 233.gr. a almennra hegningarlaga“ (ibid). Því ættu Evrópuþjóðir, og þar með Lýðveldið Ísland, að hyggja að breytingarákvæðum þeim sem breska lávarðadeildinn gerði á „Religious Hatred Bill“ í janúar s. l.

[1]. Section 29B:
? (1) A person who uses threatening words or behaviour, or displays any written material which is threatening, is guilty of an offence if he intends thereby to stir up religious hatred.

Breytingartillgan sem var samþykkt: A person who uses threatening words or behaviour, or displays any written material which is threatening ... if he intends thereby to stir up religious hatred". Þetta breytingarákvæði afnam hugmyndina um „ummæli“ og krafðist verknaðar, en ekki einungis hugsanlegan möguleika til að kynda undir trúarlegt hatur sem byggist á huglægu mati. Ef slíkt hefur vakað fyrir Gunnari Þorsteinssyni, þá hlýtur islenskt dómskerfi að leggja sönnunarabyrðina á hendur ákærandans. Enn sem komið er hafa Íslendingar notið þeirra lýðræðislegu réttinda að mega andæfa hegðun og skoðunum annarra í ræðu og riti innan viðurkvæmilegra marka almenns siðferðis, án þess að eiga yfir höfði sér vistun á Litla Hrauni. Slík afstaða er aðalsmerki alræðisríkja.
Að öðrum kosti má jafnvel starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar fara að athuga sinn gang, ef ofþungir bindast samtökum um að ákæra það fyrir að gagnrýna hreyfingarleysi með „smánun“ eða „neikvæðum“ ummælum um það.
[2]. http://www.nyttafl.is/jm/jm_009.html

23 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Spurning hvaða ummæli Krists hann hefur haft í huga sem brytu í bága við grein 233a?

07.04.06 @ 16:25
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Framtak Spaugstofunnar hefur líklega endanlega rofið þá veikburða sátt sem með þjóðinni var um Ríkisútvarpið. Málið er að það hafa staðið deilur um stofnunina alla tíð. Ef t.d. Útvarpstíðindum er flett sést þetta. Þó hefur framlag Ríkisútvarpsins á stríðsárunum líklega verið það sem sætti þjóðina nokkurn veginn við þessa stofnun, a.m.k. þangað til á ofanverðum 10. áratugnum en þá hefur líklega mörgum orðið ljóst að tilkall stofnunarinnar til þess að eiga tilveru í sátt með þjóðinni og að vera talinn útvörður hámenningarinnar var úr sögunni.
Hvaða önnur ríkisútvarpsstöð ætli hafi t.d. birt kómíska slapstick útgáfu af atriðum úr guðspjöllunum á þessum tíma? Núna sér maður að þetta hefði alveg eins geta verið bein útsending frá árshátíð Vantrúarfélagsins! Allar götur síðan þetta gerðist hafa líkast til margir greitt afnotagjaldið af einni ástæðu aðeins: Þeir eru þvingaðir til þess. Látum vera þó skopast sé að því sem fólk trúir á, verra er að vera svo gott sem þvingaður til að horfa á „spaugið“. Þau rök að alltaf sé hægt að slökkva eru jafn gömul og útvarpið (koma fyrir aftur og aftur í Útvarpstíðindum) og þau eru ekki boðleg í þessu tilfelli.

07.04.06 @ 16:34
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Vafalaust á Jón Magnússon hér við hin sjö víðfrægu ámælisorð gegn faríseunum og fræðimönnunum. Já, Ragnar, það er hart að þurfa að greiða tæpar 3000 krónur á mánuði fyrir að horfa ekki á þá!

07.04.06 @ 17:22
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Varðandi pistil Jóns Magnússonar formanns lýðræðisflokksins „Nýs afls“ þá hlýtur að vera mikið áhyggjuefni að í einni og sömu greininni er Hæstiréttur skammaður fyrir dóm sinn yfir rasískum ummælum þjóðernissinna og jafnframt er farið mjög neikvæðum orðum um íslam og helgisögur Gyðinga. Athugið að hér er það stjórnmálaforingi sem talar. Þegar betur er að gáð þá er fátt „nýtt“ við þennan boðskap. Jafnframt er reynt að láta líta svo út sem hanskinn sé tekinn upp fyrir kristnina, sem greinarhöfundur hefur þó ekki of mikið álit á. Ummæli hans um að ekki þýði að bjóða nútímafólki upp á trúarhugsun Níkeuþingsins eru vart sæmandi kristnum manni og alls ekki stjórnmálaleiðtoga. Á Níkeuþinginu var trúarjátningin samþykkt og grundvöllur hefðbundinnar kristni lagður.

08.04.06 @ 05:15
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þó að vitnað sé í orð einhvers einstaklings, eða við þýðum jafnvel heila bók eftir hann, þýðir það ekki að afstaða hans sé okkar afstaða.

Hins vegar er ég fyllilega sammála Jóni Magnússyni um að 233 gr. a í hegningarlögunum má nota til að bæla frjálsa lýðræðislega umræðu og tjáskipti. Því voru viðbrögð lávarðardeildar breska þingsins skynsamleg þegar þau komu fram með breytingartillögu sína.

Þessi afgerandi ákvæði í íslenskum og sænskum lögum geta beinst gegn lýðræði viðkomandi lands í höndum óviturra manna, eins og dæmin sanna nú þegar.

Þannig hefur Efnahagsbandalagið sett slík ákvæði inn í hina nýju stjórnarskrá sína sem öðlast ekki gildi fyrr en hún hefur verið samþykkt af aðildarríkjunum. Að því loknu geta samtök eins og ILGA eða einhver önnur ákært páfa fyrir að meina samkynhneigðum að læra til presta meðal annars. Allt minnir þetta óhuggulega mikið á upphaf nasismans, fasismans og kommúnismans. Þeim sem notið hafa lýðræðis hættir til að glutra því niður, ef þeir halda ekki vöku sinni (sbr Þýskaland á s.l. öld)

08.04.06 @ 06:24
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hin sjö víðfrægu ámælisorð í garð faríseanna má finna í Mt. 23, 13-34. Vissulega eru þau hörð en þau verður að skoða í því samhengi sem þau eru sett fram í. Inngangurinn að þeim er í Mt. 23, 1-12 og þar kemur fram rökstuðningur og ástæða þessara hörðu orða. Í öllum guðspjöllunum má einnig finna orðaskipti og gildan rökstuðning Jesú fyrir einarðri og harðri afstöðu sinni gegn lögmálshyggju faríesanna. Ennfremur tekur Jesús mörg dæmi sem sýna að hann á við athafnir faríseanna en ekki boðun þeirra eða skoðanir sem er þó það sem einkennir þá sem heild. Ályktun Jóns Magnússonar að Jesús hefði í dag verið dæmdur samkvæmt grein 233a er því hæpin. Slíkar vangaveltur eru ennfremur ekki athyglisverðar í neinum skilningi og virðast fyrst og fremst settar fram í þeim eina tilgangi að afla fylgis við pólitískan málstað sem er m.a. sá að halda uppi vörnum fyrir dæmdan þjóðernissinna. Ef Jóni Magnússyni er tjáningarfrelsið svona umhugað þá ætti hann frekar að einbeita sér að málinu þar sem verslun var dæmd í hálfrar milljón krónu sekt fyrir að útbúa auglýsingu sem á stóð „Bestir í fiski“. Þetta málefnaval sýnir að hér er á ferðinni atkvæðaveiðari sem stefnir hraðbyri á sín kjörmið.

08.04.06 @ 06:28
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég endurtek einungis orð Voltaires gamla (eftir minni): „Ég er þér ekki sammála, en ég er tilbúinn að leggja lífið í sölurnar til að tryggja þér rétt til þess að hafa rangt fyrir þér.“

08.04.06 @ 06:42
Athugasemd from: Guðmudnur Jónsson
Guðmudnur Jónsson

Getur þú nefnt mér eitt dæmi úr opinberri umræðu þar sem ráðist er að börnum annara hópa en samkynhneigðra með viðlíka hætti og Gunnar Þorsteinsson gerði í umræddri blaðagrein (gyðinga, litaðra, kristinna, innflytjanda, já bara einhverra!)? Hvernig þætti þér, Jón Rafn, ef þú og þín fjölskylda og börn þyrftuð ítrekað að sitja undir slíkum rógi? Að setja sig í spor annara er greinilega ekki ykkar sterkasta hliða en mig langar þó að minna þig á reglu þá sem nefist gullna reglan og er ágætis leiðarljós í samskiptum fólks í siðuðu samfélagi.

08.04.06 @ 12:16
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Guðmundur! Mig langar að segja þér frá reynslu minni úr barnaskóla. Þar voru alltaf krakkar innan um sem voru „klögubósar“ og „frekjudollur“ um leið. Yfirleitt voru þetta krakkar frá „betri heimilum,“ gjarnan einbirni. Okkur hinum krökkunum sem ólumst upp í systkinahóp þótti þetta vera væluskjóður.

Ég vil yfirfæra þessa reynslu á talsmenn fóstureyðinga og samkynhneigðra. Sjálfir telja þeir sig geta „gossast“ fram og smánað og hætt lífsgildi annarra, en um leið og þeim er andæft, hlaupa þeir svo til „pabba ríkis“ til að klaga vegna þess að allir eru svo vondir við þá.

Í lýðfrjálsum samfélögum verður fólk að sætta sig við lýðræðislega umræðu og jafnvel að glíma með vopnum orðanna. Þetta er óaðskiljanlegur hluti lýðræðisins og iðulega aflvaki framfara. Ég hef ekkert yfirlit yfir það sem sagt hefur verið í allri þessari umræðu um samkynhneigð vegna þess að áhugasvið mitt beinist meira í aðra átt.

Það hefur hins vegar ekki farið fram hjá mér hvernig þjóðin hefur úthellt sér yfir blessaða framsóknarmennina að undanförnu. Ég tek fram að ég er ekki framsóknarmaður, fjarri því. En ég dáist engu að siður af því, af hversu miklu jafnaðargeði þeir hafa setið undir þessu öllu saman, án þess að væla og klaga.

Í klögubósasamfélagi yrði lögfræðingastéttin vafalaust enn fjölmennari en hún er þegar í dag. En fyrst og fremst yrði slíkt samfélag hundleiðinlegt, rétt eins og klögubósarnir í skólanum í gamla daga.
Meira hef ég ekki um þetta að segja.

08.04.06 @ 15:28
Athugasemd from: Guðmudnur Jónsson
Guðmudnur Jónsson

Enn á ný kemur í ljós hve erfitt þið eigið með að setja ykkur í spor annars fólks. Sem örlitla æfingu í slíkum hugsunarhætti, sem þó virðist ykkur svo framandi, ætla ég að endurtaka spurningu mína: Hvernig þætti ÞÉR, Jón Rafn, ef ÞÚ og ÞÍN fjölskylda og börn þyrftuð ítrekað að sitja undir rógi, níði og smánun eins og GÞ bar fram í umræddri blaðagrein? Það vill reyndar þannig til að margt samkynhneigt fólk á fjölskyldu og börn, börn sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér þegar á þau og fjölskyldur þeirra er ráðist. Andstaða ykkar við verndarákvæði í lögum til verndar minnihlutahópum, og í þessu tilviki okkar smæstu bræðrum og systrum þ.e sjálfum börnunum okkar, segir ef til vill sitt hvað um málstað ykkar og málflutning. Hugleiddu það Jón Rafn!

p.s þú átt líka alveg eftir að nefna dæmi um að ráðist sé að börnum annara minnihlutahópa en samkynhneigðra með viðlíka hætti og þér er svo velþóknanlegt gagnvart samborgurum þínum sem eru hommar og lesbíur. En kannski finnast þess engin dæmi, kannski er samfélag okkar siðaðar en svo.

08.04.06 @ 18:03
Athugasemd from: Guðmudnur Jónsson
Guðmudnur Jónsson

Á hvaða hátt hafa samkynhneigðir “smánað og hætt lífsgildi annarra"? Áttu hér ef til vill við sjálfan tilverurétt samkynhneigðra, að með honum séu lífgildi þín smánuð, eða hvað ertu hér að fara?

08.04.06 @ 19:08
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Svarið við lokaspurningu Guðmundar er að sjálfsögðu NEI. – Jón Rafn á þarna örugglega við árásir sumra (og ég undirstrika: sumra) samkynhneigðra og meðhaldsmanna þeirra á kristna trú, kristin gildi og biblíulega siðakenningu í heiminum, á kaþólsku kirkjuna og leiðtoga hennar o.fl. kristna trúarleiðtoga. Hafa menn t.d. gleymt árásum Hjartar Magna Jóhannssonar – sem einmitt tengdust baráttu hans fyrir kröfugerð samkynhneigðra – á hinn nýlátna páfa Jóhannes Pál II og hinn nýkjörna páfa Benedikt XVI í Mbl. vorið 2005? Jafnvel nefnt Morgunblað tók á sinn hátt þátt í þeim ósanngjörnu árásum í Reykjavíkurbréfi um sama leyti. Þá hefur t.d. einn félagsskapur samkynhneigðra, ÁST, talað harkalega og með virðingarlausum útúrsnúningshætti um herra Karl Sigurbjörnsson biskup í liðnum janúarmánuði.

En svo getur Guðmundur fjölyrt um, að hans hópur þurfi “ítrekað að sitja undir rógi, níði og smánun eins og GÞ bar fram í umræddri blaðagrein” – án þess þó, að Guðmundur þessi komi með nokkur rök fyrir því, í hverju meintur “rógur, níð og smánun” eigi að hafa verið fólgin hjá bróður okkar Gunnari Þorsteinssyni.

08.04.06 @ 23:30
Athugasemd from: Guðmudnur Jónsson
Guðmudnur Jónsson

Prófaðu að setja þig sjálfan í spor þeirra fjölskyldna og barna sem um ræðir, og reyndu svo að skilja í hverju sá rógur, níð og smánun felst. Það væri ágits æfing í mannlegum samskiptum fyrir þig líka Jón Valur Jensson.

09.04.06 @ 00:14
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er ekkert svar, Guðmundur. Ekki verður hér vart neinnar viðurkenningar þinnar á því, að vitaskuld var allt of langt hjá þér gengið að ýja að því, hvort Jón Rafn eða við hér efuðumst um tilverurétt samkynhneigðra. Og engin viðurkenning var hér heldur á því, að ég nefndi nokkur skýr dæmi um smánun samherja þinna á kristnum sið og kirkjunnar mönnum. En líklega neyðistu í þögn þinni til að viðurkenna þetta. Í 3. lagi gaztu ekki nefnt nokkur rök fyrir því, í hverju meintur “rógur, níð og smánun” ættu að hafa verið fólgin hjá Gunnari Þorsteinssyni.

Gunnar í Krossinum var sízt að gera lítið úr, rægja, smána né níða börn samkynhneigðra. Ég hef lesið texta hans nokkrum sinnum og finn engar forsendur þar fyrir slíkri ályktun né yfirhöfuð nokkurn flugufót fyrir kærunni allri, enda er satt að segja næsta erfitt að sjá, fyrir hvað Gunnar er kærður í reynd! – Sjá nánar nýja grein hér á Kirkjunetinu: ‘Kæra samkynhneigðra á hendur Gunnari Þorsteinssyni’ – http://www.kirkju.net/index.php/jon/2006/04/09/p373 – færum þessa umræðu þangað, hún á ekki hér heima.

10.04.06 @ 00:29
Athugasemd from: Guðmundur Jónsson
Guðmundur Jónsson

Með tilverurétti samkynhneigðra á ég að sjálfsögðu við þau mannréttindi að samkynhneigðir fái lifað frjálsu, stoltu lífi í þjóðfélagi sem ekki gerir greinarmun á fólki vegna kynhneigðar þess. Ég veit ekki betur en þið hafið barist á móti öllum þeim réttindum sem samkynhneigðir hafa öðlast og munu öðlast á næstunni. Ég veit heldur ekki til þess að stollt og sýnileiki samkynhneigðra sé ykkur mikið kappsmál, né heldur að þið grátið þann tíma þegar samkynhneigðir voru svo til ósýnilegur hópur sem ekki átti þess kost að lifa því frjálsa lífi lausu undan áreiti og fordómum sem þeir nú gera að mestu. Það var út frá þessum skilningi orðanna “tilveruréttur samkynhneigðra” sem ég velti innleggi nafna þíns fyrir mér hér að ofan en öðrum ekki.

10.04.06 @ 10:21
Athugasemd from: Guðmundur Jónsson
Guðmundur Jónsson

Getur þú virkilega ekki gert þér í hugarlund hvernig börnum líður að lesa um foreldra sína á síðum dagblaða að þeir séu siðlausir og verði helst ekki eldri en fertugir vegna eiturlyfjaneyslu og sjúkdóma? Hvernig hefði þér sem barni þótt að lesa slíkt um foreldra þína?

10.04.06 @ 10:26
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Gunnar sagði þetta ekki beinlínis (að þeir “verði helst ekki eldri en fertugir vegna eiturlyfjaneyslu og sjúkdóma"). Hann sagði orðrétt: “3. Þau eru í meiri hættu á að missa foreldri (alnæmi, lyfjaneysla, sjálfsvíg). Ævilíkur samkynhneigðra karla eru aðeins um fjörutíu ár.” – Þetta er kannski engin gleðifrétt, en ætli hitt sé ekki miklu meiri sorgarfrétt, ef barn samkynhneigðs manns uppgötvar það í reynd hjá föður sínum, að hann hafi fengið lífshættulegan kynsjúkdóm? Það er alltaf auðvelt að skammast út í boðbera slæmra tíðinda, en ætli orsakavalda heilsuleysisins sé ekki annars staðar að finna?

Áður en Guðmundur býsnast meira í þessum dúr, ætti hann að líta á upplýsingar frá merkri rannsóknar- og fræðslustofnun á Nýja-Sjálandi, Maxim Institute, í umsögn hennar um frumvarp í nýsjálenzka þinginu um umönnun barna – sjá einkum kaflann ‘Health issues in homosexual relationships’, á [Tengill] Þetta er afar fróðlegt skjal út í gegn, og ættu sem flestir að gefa sér tíma til að lesa það.

10.04.06 @ 10:54
Athugasemd from: Guðmudnur Jónsson
Guðmudnur Jónsson

Maxim Institute þetta sem gefur út “rannsóknina” hér að ofan er pólitískur þrýstihópur kristinna hægri manna sem hefur það m.a að markmiði að berjast gegn réttindum samkynhneigðra, kvennréttindum, kynfræðslu í skólum og íslömskum innflytjendum á Nýja Sjálandi. Stofnandi þess, Bruce Logan, hætti störfum fyrir stofnunina í fyrra þegar upp um hann komst ritstuldur (plagiarism), en slíkt er vitanlega litið alvarlögum augum í öllu vísindastarfi.

Maxim Institute hefur sterk tengsl við Bandarísk systursamtök og hefur m.a staðið að námskeiðum fyrir ungt fólk með “fræðimönnum” sem halda því fram (bókstaflega) að jörðin hafi verið sköpuð á sjö dögum fyrir ekki meira tíu þúsund árum…(!)

Hvað slík stofnun hinum megin á hnettinum hefur fram að færa í málefnum samkynhneigðra á Íslandi ætti að vera lesendum þessarar síðu nokkuð umhugsunarefni svo ekki fastar að orði kveðið!

10.04.06 @ 23:38
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Viltu ekki standa við þín orð, Guðmundur, og birta það nákvæmlega, hvar og með hvaða orðum Maxim Institute setur fram það meinta “markmið” sitt “að berjast gegn réttindum samkynhneigðra, kvenréttindum, kynfræðslu í skólum og íslömskum innflytjendum á Nýja Sjálandi.” –– Þú ert kannski sjálfur mjög hlynntur þessu síðastnefnda í sem mestum mæli til að vega upp áhrif barnadrápanna og til að klekkja á kristinni kirkju, sem þú hatast við? (Ertu ekki örugglega sá Guðmundur Jónsson, sem skrifað hefur í Morgunblaðið og á Vantrúarnetið?) – Ert kannski fylgjandi þvingaðri kynfræðslu í skólum til að efla og styrkja kynlífsbyltinguna, klám- og kynlífsiðnaðinn (þ.m.t. lyfja- og smokkaframleiðendur) og þá ófarsælu tízku, að unglingar megi nánast allt í kynlífi og það sem fyrst, hvað svo sem foreldrum þeirra kann að finnast um þá “kynfræðslu” (þ.m.t. leyndan og ljósan áróður fyrir kynhverfustefnunni)? – Áttu kannski við fósturdráp með orðinu þínu: ‘kvenréttindi’?! Ég hef, eftir allveruleg kynni af efni frá Maxim Institute og bréfasamskipti við Ruth Porter, Policy Analyst þar, enga ástæðu til að ætla, að sú stofnun hafi neitt á móti almennum réttindum kvenna. – Og með tali þínu um “réttindi samkynhneigðra” áttu ugglaust við ýmis ofréttindi þeirra, sem ég hlýt svo að kalla, og enn fleiri kröfur.

En svaraðu ekki þessu máli mínu, nema þú gangist við því að gera það, sem ég uppálagði þér með feitletraða textanum hér ofar. Ella falla orð þín, ef ekki eru studd rökum, dauð og ómerk.

Ef ritstuldur Brúsa Logan var ástæða frávikningar hans, er það þá ekki til marks um góðan standard stofnunarinnar?

Má engin stofnun hafa áherzlur, sem virðast hægra megin við miðju, án þess að vinstriöfgamenn úthrópi hana sem ómarktæka? Og skiptir ekki mestu máli, hvaða fræðileg rök voru kynnt í nefndri umsögn Maxim Institute? – Guðmundur tíðkar hér hliðstæðu við argumentum ad hominem í stað þess að ræða rök máls. Er vont að Maxim Institute hafi “tengsl við bandarísk systursamtök"? Hvað er svona vont við það? Er allt bandarískt tabú, nema það sé á vinstri vængnum?! Reyndu frekar rök, ekki svona brennimerkingaraðferðir.

11.04.06 @ 00:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Svo er týpískt, að Guðmundur svaraði ekki einu orði efnisinntaki innleggs míns (fyrri klausunni) í dag kl. 12:54.

Varðandi innlegg hans kl. 12.21: Hann túlkar orðið tilveruréttur allt öðruvísi um samkynhneigðra en það er yfirleitt notað um annað fólk (t.d. Gyðinga).

“Ég veit heldur ekki til þess að stolt og sýnileiki samkynhneigðra sé ykkur mikið kappsmál …” – Alveg rétt hjá þér, of mikið af svo góðu er mér ekki mikið ‘kappsmál’, ekki fremur en Platóni (sjá Lögin). Vissulega var það ekki gott, að sumum samkynhneigðum var strítt. Mér var líka strítt í barnaskóla, en ekki varð ég píslarvottur þess vegna. Og ekki hef ég séð það á þeim hommum og lesbíum, sem ég hef kynnzt (og flest kunnað vel við), að þau hafi verið neitt óframfærin eða inn í sig.

11.04.06 @ 00:55
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sá hugarheimur sem Guðmundur opinberar hér er vægast sagt undarlegur og mikið nýnæmi og vafalaust hluti af þeim „ofréttindum“ sem samkynhneigðir krefjast sér til handa. En fyrst og fremst er hér um hreina rökleysu að ræða þar sem sambandið á milli orsakar og afleiðingar er ekki til staðar.

Í þýska umferðarútvarpinu hikuðu þeir ekki við að birta lit, tegund og númer bifreiðar fyrir alþjóð öðrum til viðvörunar: „Rauðum BMW með númer þetta er ekið með ofsahraða á hraðbraut X milli A og B og eru ökumenn beðnir að aka út af hraðbrautinni við stað X þar til lögreglan hefur stöðvað ökumanninn.“

Að mati Guðmundar hefði fyrst átt að ganga úr skugga um, hvort ökumaðurinn væri giftur eða ekki til að smána hvorki konu hans eða börn.

Það sem Guðmundur er með öðrum orðum að boða er, að einstaklingum á að vera heimilt að „skáka sér fram í skjóli annarra,“ í þessu tilviki barnanna. Samkvæmt þessari „nýjung“ í réttarfarslegu mati ætti þingmanni þannig að bera skylda til að kanna heimilishagi annars þingmanns, áður en hann gagnrýndi hann svo að komið væri í veg fyrir það börnin hans yrðu ekki höfð að háði og spotti.

Hvað varðar þýska dæmið hér að ofan þá hringdi ég eitt sinn í Umferðarráð og spurði þá að því hvers vegna þetta væri ekki gert á Íslandi, til að mynda þegar stórri jeppabifreið væri ekið með ofsahraða yfir Holtavörðuheiði og stefndi þar með lífi fjölmargra saklausra vegfarenda í hættu. Svar þeirra var að þetta væri ekki æskilegt vegna þess að þetta væri svo „leiðinlegt“ fyrir ökumanninn (og væntanlega konu hans og börn).

Þetta er enn ein sönnun þess hversu rökþrota samkynhneigðir eru í öllum sínum málflutningi. Ég tók þýskt dæmi til hliðsjónar svo að ekki væri unnt að saka mig fyrir að vitna til „hægri sinnaðrar“ stofnunar í BNA sem virðist fara afar mikið í pirrurnar á þessu fólki.

Vafalaust er þetta sökum „eftirhrolls“ eftir að sálufélögum þessa fólks var sparkað út af vettvangi mannkynssögunnar.

11.04.06 @ 16:00
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sá sannleikur sem vikið hefur verið að hér að ofan endurspeglast í orðum Hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups, í viðtali við hann í Blaðinu fimmudaginn 13. apríl, en þar segir hann meðal annars:

Umræðan hefur lengi mótast af því að ef einhverjir hafa komið fram með mótbárur eða viljað horfa á hlutina út frá öðru sjónarmiði en því sem drifið er áfram af gríðarlegri hörku þá er strax hrópað: „Fordómar! Fáfræði! Mannahatur!

Hér víkur hann að samkynhneigðum og stuðningsmönnum þeirra.

14.04.06 @ 10:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Menn ættu að lesa viðtalið allt (það er t.d. miklu meira sagt um deilurnar og umræðurnar um kröfur og réttindi samkynhneigðra).

Það, sem Karl biskup sagði um þessi samkynhneigðramál, var mjög glöggt og skýrt, bæði leiðréttir mistúlkun orða hans og sýnir með skýrum hætti, að hann lætur hvergi hagga sér í þeirri varfærni sem hann þó hefur gagnvart ofurkröfum þessa hóps. Heiður sé honum fyrir það.

14.04.06 @ 23:05