« Þrýstingur samtaka samkynhneigðra á Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðannaFaðirvorið og fastan í hinni fornu íslensku bænaarfleifð »

04.04.06

  13:36:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 526 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Með eldrúnum þíns Heilags Anda, Drottinn!

Guðspjall Jesú Krists þann 5. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 8. 31-42

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Þeir svöruðu honum: „Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir'?“ Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, Sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef Sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir. Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður. Ég tala það, sem ég hef séð hjá Föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá Föður yðar.“ Þeir svöruðu honum: „Faðir vor er Abraham.“ Jesús segir við þá: „Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams. En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei. Þér vinnið verk föður yðar.“ Þeir sögðu við hann: „Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð.“ Jesús svaraði: „Ef Guð væri Faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.“

Hugleiðing
Hugmyndir heimsins eiga ekkert sameiginlegt með því frelsi sem Jesús heitir okkur. Hverjar eru hugmyndir heimsins um frelsið? AÐ GERA ÞAÐ SEM MÉR ÞÓKNAST! Þegar betur er að gáð er þetta ekkert annað en gríma til að leitast við að leyna hömlulausum ástríðum sínum og græðgi eftir þessa heims gæðum. Jesús býður lærisveinum sínum hið sanna frelsi, frelsi frá skaðlegum og varhugaverðum ástríðum og undan valdi syndarinnar. Fagnaðarerindið felst í því að Kristur hefur frelsað okkur undan valdi syndarinnar. Hvernig? Með náðargjöfum og krafti Heilags Anda getum við gengið VEG LÍFSINS við hlið Jesú í elsku og heilagleika. Þessi vegur á ekkert sameiginlegt með vegi DAUÐAMENNINGARINNAR miklu sem lifir í stjórnleysi eða anarkisma höfundar síns: Satans. Undir leiðsögn Heilags Anda er Vegur lífsins auðrataður og enginn mun villast, „JAFNVEL EKKI FÁRÁÐLINGAR“ (Jes 35. 8). Þessum sannleiksorðum verða margir sárreiðir, rétt eins og Gyðingarnir: Sannleikanum verður hver sárreiðastur sem ekki iðrast gerða sinna.

„Drottinn! Skrifa þú orð elsku þinnar og sannleika á hjartaspjöld okkar sem þú hefur skapað úr lifandi holdi með eldrúnum þíns Heilags Anda. Amen.“

No feedback yet