« Trú en ekki tilfinningarSkírn í Heilögum Anda »

16.04.08

  08:25:35, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 304 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Maximilian (Max) Kolbe

Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar

Maximilian (Max) Kolbe
(14. ágúst)

Maximilian Kolbe fæddist 7. janúar 1894 í Zdunska-Wola í Póllandi. Hann lagði fyrst stund á nám í hinum litla prestaskóla Fransiskana í Lwów (Lemberg) og gekk ásamt með eldri bróður sínum í reglu Fransiskana þann 4. september 1911. Árin 1912–1919 dvaldist hann í Róm og lagði stund á kristilega heimspeki og guðfræði. Þar var honum einnig veitt prestvígsla 1918. Í Róm stofnaði hann árið 1917 trúarlegan félagsskap sem hann nefndi “Militia Immaculatae”, til þess að vinna að sinnaskiptum syndara og trúleysingja og fór sú hreyfing brátt vaxandi. Þess vegna byggði Kolbe klaustrið Niepokalanów í nágrenni Varsjár og varð fyrsti yfirmaður þess. Þaðan starfaði hann þrotlaust að útbreiðslu hreyfingar sinnar og mánaðarrits hennar “Riddara hinnar flekklausu meyjar”. Árið 1930 fór hann til Japans, samkvæmt beiðni Píusar XI páfa, og þar stofnaði hann ásamt með fjórum reglubræðrum sínum trúboðsstöð nálægt Nagasaki. Eftir sex ára árangursríkt trúboðsstarf hélt hann aftur heim til Póllands.

Þegar önnur heimsstyrjöldin var skollin á, kom séra Maximilian Kolbe flóttamönnum og fórnarlömbum styrjaldarinnar til hjálpar, meðal þeirra mörgum Gyðingum. Hinn 17. febrúar 1941 var hann tekinn til fanga ásamt með fjórum reglubræðrum sínum og eftir stutta dvöl í fangelsi í Varsjá var hann fluttur í fangabúðirnar í Auschwitz. Þar tók hann á sig sök annars fanga og dó 14. ágúst 1941.

Séra Maximilian Kolbe var tekinn í tölu hinna sælu 17. október 1971 og í ársbyrjun 1983 lét Jóhannes Páll II páfi taka hann í tölu heilagra.

***********
Grein þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í júlí / ágúst 2006.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Rétt eins og Albert Einstein lagði fram afstæðiskenningu sínu á tuttugustu öldinni, lagði fransiskanabróðirinn Maximilian Kolbe fram helgunarkenningu sína í eins konar reiknilíkani:

„ÞINN VILJI = minn vilji!“

Engin sköpuð vera hefur lotið vilja Guðs með jafn afgerandi hætti og hin sæla Mey og orð hennar „VERÐI MÉR EFTIR ORÐUM ÞÍNUM (Lk 1. 38) hafa verið herkvaðningarkall allra hinna heilögu kirkjunnar í aldanna rás. Við getum því hiklaust kallað hana fyrirmynd okkar í helgun.

Orðum sínum fylgdi Kolbe sjálfur eftir og gekk í fótspor Krists krossfests þegar hann fórnaði lífi sínu fyrir samfanga sinn. Klaustur það sam hann stofnaði í Nagasakí á Japansárum sínum starfar enn í dag. Það skemmdist ekki mikið þegar kjarnorkusprengjunni var varpað á Nagasakí.

Spakur maður sagði: „Ekki reynist unnt að dæma um heilagleika nokkurs hinna heilögu fyrr en að dauðastundinni lokinni.“ Hl. Maximilian Kolbe er sannarlega heilagur og biður fyrir okkur í hinni stríðandi kirkju á jörðu:

Hl. Maximillian Kolbe. Bið þú fyrir oss syndugum mönnum. Bið þú fyrir Tíbet og ráðamönnum Kína svo að þeir megi sjá hið óskapaða ljós Krists.!

16.04.08 @ 15:07