« Mál tengt Margréti komið til ákæruvaldsinsSvar Innanríkisráðherra við bréfi Biskups »

24.06.11

  15:25:50, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 251 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Mætum í messur - sýnum samstöðu

Í kjölfar nýlegra og fram kominna alvarlegra ásakana um meint afbrot starfsfólks Kaþólsku kirkjunnar má gera ráð fyrir að tíminn framundan verði erfiður mörgum. Hann verður erfiður öllum þolendum kynferðisofbeldis, án tillits til trúfélags, lífs- eða trúarskoðana.

Hann verður einnig erfiður þeim aðilum sem nú hafa stigið fram og sagt sínar sögur, jafnvel þó að þessir aðilar njóti nafnleyndar. Hann verður erfiður fyrir vini og ættingja þeirra aðila sem bornir eru sökum. Síðast en ekki síst verður þessi tími erfiður fyrir Kaþólsku kirkjuna á Íslandi. Mörg okkar þekktu þá einstaklinga sem um er rætt og allir munu fara yfir samskipti sín við þá í huganum. Slík sjálfsskoðun er ekki alltaf sársaukalaus.

Á meðan þessar aðstæður eru til staðar er nauðsynlegt að við mætum í messur, hittumst og tölum saman til að sýna að við viljum sýna samstöðu með öllum aðilum sem hlut eiga að máli og við viljum fá skýra heildarmynd af því sem gerðist. Þetta er nauðsynlegt í því ferli að græða þau sár sem þegar hafa myndast og til að hægt sé að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi, einelti eða skírlífisbrot. Það er án efa vilji allra og það er það sem fólk getur sameinast um. Ekki yfirgefa vandræðin þau hverfa ekki við það. Mætum í messur og sýnum með því að við viljum horfast í augu við erfiðleikana, takast á við þá og leggja okkar af mörkum til betra samfélags.

Endurbirtur pistill sem birtist áður hér á vefsetrinu 22.06.2011 kl. 10.24

5 athugasemdir

Athugasemd from: Hjalti Rúnar
Hjalti Rúnar

Ef þessar ásakanir eru sannar, þá er hræðilegt að ekki komst upp um þetta fyrr, því þá hefði verið hægt að flytja viðkomandi aðila eitthvert annað og leysa þannig málið.

22.06.11 @ 09:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hjalti, skrifaðu vinsamlegast pistil á Vantrúarnetið ef þú vilt nota þetta tækifæri til að hæðast að okkur. Ef þú hefur eitthvað málefnalegt fram að færa komdu þá með það hingað.

22.06.11 @ 20:23
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Góður pistill, Ragnar, afar góður. Laukrétt hjá þér að hvetja fólk til að mæta í messur við þessar erfiðu aðstæður “og sýn[a] með því að við viljum horfast í augu við erfiðleikana, takast á við þá og leggja okkar af mörkum til betra samfélags.”

23.06.11 @ 20:22
Athugasemd from: Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson

Þetta er góður pistill. Slík mál eru sársaukafull fyrir marga. Fyrst og fremst fyrir fórnarlömbin og aðstandendur en einnig fyrir alla þá sem eru velviljaðir krikjunni.

24.06.11 @ 13:40
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kærar þakkir fyrir innlitið Jón og Hrafn og athugasemdirnar. Já rétt er það, þetta snertir að sjálfsögðu aðstandendur fórnarlambanna líka. Við hugsum til þeirra sem og allra velunnara kirkjunnar. Þetta er þung byrði að bera fyrir alla og lætur engan ósnortinn.

Nú hefur það gerst síðan pistillinn var skrifaður að tvær konur hafa stigið fram undir nafni. Í öllu þessu ferli er mikilvægt að fara ekki út í deilur um trúverðugleika og hver trúir hverju heldur hlusta á og íhuga það sem fólk hefur að segja.

24.06.11 @ 15:37