« 57% Íslendinga telja sig trúaða, 17% fækkun síðan 2005Hl. Jóhann María Vianney verndardýrlingur sóknarpresta »

06.08.12

  18:41:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 224 orð  
Flokkur: Helgir menn, Altarissakramentið, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Maríulegíónin og Frank Duff stofnandi hennar

Áðan horfði ég á fróðlegt viðtal á EWTN sjónvarpsstöðinni við andlegan leiðtoga Maríulegíónarinnar sem er heiti samtaka sem störfuðu hérlendis, fyrst á 6. áratugnum líklega og svo aftur á 8.-10. áratugnum. Í síðara skiptið var helsta verkefni samtakanna að aðstoða föður Róbert Bradshaw og þá einkum við uppbyggingu Maríukirkjusóknar í Breiðholti en það starf náði hámarki um og eftir miðjan 9. áratuginn.

Auk þess að stofna Maríulegíónina árið 1921 stofnaði Frank Duff tvö athvörf í Dublin á Írlandi. Eitt fyrir utangarðsfólk og annað fyrir einstæðar mæður. Hann stofnaði einnig tvö félög, eitt sem hafði samkirkjulegar viðræður við aðra kristna söfnuði að markmiði og annað sem hafði viðræður við gyðinga að markmiði.

Guðfræði Frank Duff bar á góma. Hann aðhylltist guðfræði hl. Montforts og einnig hugmyndina um mögulegan heilagleika allra manna, sem er hugmynd sem síðar kom fram á 2. Vatíkanþinginu. Rit Franks "Can we be Saints?" var gefið út í Dublin árið 1958. Í þessu sambandi minnti viðmælandinn á að Jesús Kristur sjálfur tók fyrstur mann í heilagra manna tölu en það var góði ræninginn sem hann sagði að yrði með sér í Paradís. Fyrst ræninginn gat átt von á heilagleika hví ættu þá aðrir ekki að eiga von?

Viðmælandinn minnti einnig á að í gangi er ferli sem hefur viðurkenningu á heilagleika Frank Duff að markmiði. Upplýsingar um Frank Duff má finna hér og heimasíða Maríulegíónarinnar er hér: http://www.legionofmary.ie/

2 athugasemdir

Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Frank Duff dó haustið 1980. Þeir séra Robert Bradshaw hittust fyrst 1955. Frá 1961 og meðan Duff lifði rakti hann endurminningar sínar fyrir séra Bradshaw, sem hljóðritaði samtölin og skráði síðan ævisögu hans: Frank Duff, Montfort Publications 1985, 268 bls, imprimatur Henricus Frehen. Þetta finnst mér vera mjög góð bók. Vingjarnleg kveðja.

06.08.12 @ 22:19
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Sigurður. Já, þetta er athyglisverð bók og vel skrifuð. Ég fann tengil á hana hér:

http://www.montfortpublications.com/Frank_Duff_p/b-39.htm

Á þessari síðu má sjá fleiri góðar bækur á lágu verði.

Vingjarnleg kveðja sömuleiðis.

07.08.12 @ 17:33