« Hl. Gregoríos frá Nyssa – um þá hinna kristnu sem bregðast kærleiksinntaki skírnarnáðarinnar og ákalli Heilags AndaHl. Jóhannes af Krossi – um hreinsandi mátt hins guðdómlega ljóss Heilags Anda. »

30.04.08

  06:36:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1563 orð  
Flokkur: Bænalífið

María Guðsmóðir – Lifandi sáttmálsörk hins Nýja sáttmála

Ákallið Maríu, hina síðari Evu, konuna sem sigraði höggorminn sem tældi hina fyrri Evu (1 M 3. 15). Hún vann sigur á þessum höggormi fyrir tvö þúsund árum (sjá Opb 12) og að nýju í Mexíkó árið 1531, og enn að nýju í Þýskalandi árið 1945 og aftur í Rússlandi árið 1989. Þennan sigur getur hún fullkomnað að nýju meðal þjóða sem guðræknir múslimar kalla „hinn mikla Satan,“ menningu sem úthellir blóði milljóna saklausra barna árlega fyrir gráðugan munn Móloks. Það er einungis Drottning englanna og himneskar hersveitir hennar sem megnar að sigra þennan engil illskunnar og umbreyta menningu okkar úr „dauðamenningu“ í lífsmenningu ljóss og elsku. [1]

Í herbúðarskipun hins Gamla sáttmála var það sáttmálsörkin sem fór fyrir Ísraelsmönnum í eyðimörkinni og veitti þeim vernd og skjól. Í Nýja sáttmálanum er það hin blessaða Mey – María Guðsmóðir – sem gegnir þessu sama hlutverki. Þetta er ekki ný kenning, heldur hluti hinnar heilögu arfleifðar kirkjunnar. Hlýðum á orð hinna heilögu feðra:

Heil. Hippólýtus (um 170-236):
„Á þessum tíma birtist Frelsarinn frá Meyjunni, örkinni, opinberaði sinn eiginn líkama í heiminum úr örkinni, en Orðið huldi hana hið innra með skíra gulli og hið ytra með Heilögum Anda. Þannig blasti sannleikurinn við sjónum, örkin varð sýnileg“ –  (S. Hippolytus, In Dan.vi., Patr. Gr., Tom. 10, p. 648).

Heil. Gregoríos Thaumaturgus (um 213-270):
Örkin er sannarlega hin heilaga Mey, skrýdd hið innra og ytra sem meðtók gersemar hinnar alheimslegu helgunar – (Orat. in Deip. Annunciat.  Int. Opp. S. Greg. Thaumaturg).

Heil. Aþanasíus (c. 296-373):
Þú sem ert full náðar, Frú vor, Drottning, Þjónustumey, Móðir Guðs og Örk helgunarinnar“ – (Orat. In Deip. Annuntiat, nn. 13, 14. Int. Opp. S. Athanasii).

„Ó göfuga Mey! Sannarlega ert þú meiri allri annarri hátign. Hver jafnast á við þig af mikilleika. Ó dvalarstaður Orð Guðs. Ó Meyja, get ég borið þig saman við nokkuð annað af hinu skapaða? Þú ert því öllu meira ó örk sáttmálans sem íklædd ert hreinleika í stað gulls. Þú ert örkin þar sem kerið með hinu sanna manna er hulið, holdið sem Guðdómurinn hefur íklæðst“ – Hugvekja í Torínóhandritinu.

Hesychíus (um 300):
„Örkin er sannarlega Meymóðir Guðs. Ef þú [Drottinn] ert gimsteinninn, er hún örkin með fullum rétti vegna þess að þú ert sólin og því er Meyjan óhjákvæmilega himininn“ –  (Hesychius, Orat. De Virginis laudib.   Biblioth. PP. Græco-Lat. Tom. ii. p. 423).

„Drottinn, rís upp til hvíldar þinnar, þú og Örk helgunar þinnar sem augljóslega er Meymóðir Guðs. Ef þú ert sannarlega perlan, þá er hún örkin“ –  (Serm. V. De S. Maria Deip. Patr. Gr. Tom. 93, pp. 460-4).
 
Heil. Ephraim (um 306-373):
Því að í þessari örk, Maríu, var bók hulin sem kunngerði og boðaði sigurvegarann“ – (S. Ephrem, Rhythm iii, On the Nativity, Morris, p.20).

„Ó Meymóðir Guðs, himnahlið, örk, í þér öðlast ég öruggt hjálpræði. Bjarga mér í hreinni miskunn þinni, ó Frú mín“ – (Precat.  ix. Opp. Gr. et Lat. Tom. iii. P. 522).

Heil. Kýrillos frá Jerúsalem (315-387?):
Það er í musteri Meyjarinnar, sem orð Guðs gerði sér bústað rétt eins og í örkinni. „Í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa“ (Kol 1. 19), eins og Ritningin kemst að orði. En vitnisburðurinn í örkinni var Orð Guðs og viðurinn var óforgengilegur og hulinn skýru úrvalsgulli innst sem yst“ – (De ador. In Spir. Et Verit, p. 293).

Heil. Hieronýmus (c. 345-420):
„Sjáið sannleiksvottinn, ambátt Drottins. Heilög er hún sem er án allra saurgunar, sjálfur einfaldleikinn . . . Brúður Krists er Örk sáttmálans hið innra sem hið ytra, skrýdd gulli, sú sem hlýðnast lögmáli Drottins. Rétt eins og gegndi um örkina var ekkert í henni nema sáttmálstöflurnar og þannig átt heldur ekki þú að huga að neinu hið ytra. Yfir þessu náðarsæti er Drottni þóknanlegt að sitja, eins og uppi yfir kerúbunum. Postularnir viku þannig að meyju að hún eigi að vera heilög líkamlega og í anda“ – (Epist. Xxii., Ad Eustoch. Nn. 18, 19, 21, 24).

Heil. Ambrosíus (um 330-397):
„Spámaðurinn Davíð dansaði frammi fyrir örkinni. Hvað getum við þá sagt annað en að örkin sé heilög María? Í örkinni voru sáttmálstöflurnar, en María bar í lífi sínu erfingja þessa sama sáttmála. Sú fyrri geymdi lögmálið, sú síðari fagnaðarerindið. Önnur endurómaði orð Guðs, hin Orð hans. Örkin huldi dýrðarljóma hið innra, en heilög María ljómaði innst sem yst af dýrðarljóma meydómsins. Önnur var skrýdd jarðnesku gulli, hin því himneska“ –  (Serm. xlii. 6, Int. Opp., S. Ambrosii).

Heil. Próklús (d. 446 eða 477):
„María er heiðruð vegna þess að hún varð Móðir og ambátt, ský og bústaður, örk Drottins . . . Af þessum sökum skulum við segja við hana: ‚Blessuð ert þú á meðal kvenna’“  – (Orat.iv.and v. In Natal. Dom. P.G. Tom. 65, p.710).

Heil. Venantius Fortunatus  (um 530-610):
„Hversu blessuð er ekki þessi Móðir, að hinn mikli himnasmiður sem felur jörðina og himininn í höndum sínum, þóknaðist að hvíla í henni sem örk sinni! Blessuð í þeim boðskap sem Gabríel bar henni, blessuð sökum áhrifa Andans“ –  (Blessed Virgin, bls. 458).

Heil. Meþodius (815-885):
„Háleitur er sá leyndardómur sannarlega sem lýtur að þér, Ó Meymóðir, þú hið andlega hásæti, vegsamleg gjörð sem verðskuldun Guðs . . . Og dúkbreiðurnar fyrir innganginum lukust upp sökum ákalla hrópendanna. Með þessu er skírskotað til forhengis musterisins sem skyggði á sáttmálsörkina sem táknar þig . . . Þar sem Guð auðsýndi örkinni sem var ímynd þín og forgildi heilagleika þíns svo mikla tign, að enginn nema æðsti presturinn gat nálgast hana eða var heimilt að bera hana augum handan forhengisins . . . Hversu mikinn heiður og virðingu ber okkur þá ekki að auðsýna þér sem stöndum þér langt að baki, þér sem sannarlega ert Drottning, þér sem sannarlega ert Lifandi örk Guðs, lögmálsgjafans, þér sem sannarlega hefur orðið að himni sem skartar þeim sem ekkert getur rúmað?“ – (St. Methodius, Orat. de Simeone et Anna ii. Patr. Graec. Tom. 18, p. 332.

Þegar við ákallum Maríu, hina síðari Evu, sem meðlimir kirkju Sonar hennar eiga kraftaverkin sér stað. Eitt slíkt átti sér stað í fyrrum Júgóslavíu meðan landið var enn á valdi marx-lenínista í Medjogorje. Það var einmitt að undirlagi öryggislögreglunnar sem tveir félagsfræðingar voru fengnir frá Sarajevo til að bjóða sjáendunum í ökuferð um nærliggjandi sveitir til að hindra þá í að komast upp á Krossfjallið á réttum tíma. Ungmennin tóku boði þessu fegins hendi eftir álag undanfarinna daga. Ökuferðin dróst á langin og það var ekki fyrr en klukkan tæplega sjö um kvöldið sem sjáendurnir voru komnir til þorpinu Cerno gagnstætt Krossfjallinu.

Þeir báðu um að numið yrði staðar svo að þeir gætu beðist fyrir. Á þessari sömu stundu var mikill mannfjöldi staddur á Krossfjallinu og skyndilega sást ljós líða hjá og nálgast ungmennin þar sem þau báðust fyrir við vegbrúnina. „Ég leit upp,“ sagði einn sjáendanna síðar, „og sá hvernig ljósið nálgaðist okkur. Báðar konunrnar sem voru með okkur sáu það líka, ég spurði þær sérstaklega að því og þær játtu því. Ég horfði statt og stöðugt á ljósið og skyndilega stóð Guðsmóðirin hjá okkur.“ Einn sjáandanna, Mírjana, ávarpaði Maríu og sagði við hana: „Þeir hafa bannað okkur að fara upp á Krossfjallið. Hefur þú eitthvað á móti því að hitta okkur næst í kirkjunni?“

Guðsmóðirin hikaði dálitla stund en kinkaði síðan kollinum til samþykkis. Eftir að hafa gefið sjáendunum þetta loforð hvarf Guðsmóðirin að nýju. 

Eftir að hún var horfin á brott skein ljósið enn um stund yfir Krossfjallinu. Báðir félagsfræðingarnir voru miður sín eftir þennan atburð og felmtri slegnir. Þeir fóru með börnin beint til Medjugorje til fundar við föður Jozo, sóknarprest í Jakobskirkjunni á staðnum. Hann yfirheyrði allan hópinn mjög ítarlega (segulbandsupptökurnar eru enn til) og var sjálfur afar undrandi. Ástand ríkistarfsmannanna tveggja hafði einnig djúp áhrif á hann. „Þeir voru miklu betri sönnun þess sem gerst hafði en sjálfir sjáendurnir.“

Kenningar herskárrar efnishyggju marx-lenínismans gera ekki ráð fyrir slíkum atvikum fremur en herská veraldarhyggja dauðamenningar nútímans og því voru félagsfræðingarnir miður sín. Eftir þennan atburð dró mjög úr fjölda fundarmanna í Félagi sósíalista í Medjugorje.

[1]. Peter Kreeft, Angels and Demons, bls. 126.

SJÁ ENNFREMUR: http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn?cat=110
og hinar 17 greinarnar.

No feedback yet