« Ef vondur maður snýst frá illskuFasta »

03.03.06

  09:48:21, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1401 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Manngerðirnar þrjár

Í grein minni um heimspekinginn og stærðfræðinginn Blaise Pascal (Blaise Pascal og eldurinn) gaf ég hálfpartinn loforð um að fjalla um manngerðirnar þrjár í riti hans Pensées (§ 66). Þar víkur hann að dýrð holdsins, dýrð vitsmunanna og dýrð andans. Við skulum íhuga þetta örlítið nánar.

Dýrð holdsins: Þau Jón og Gunna eru fyrirmyndar hjón og lifa sátt við hlutskipti sitt. Þau vinna bæði úti og hún stundar heilsuræktina af kappi og mætir reglulega í saumaklúbb vinkvennanna þar sem þær ræða um daginn og veginn og þau hneykslismál sem eru efst á baugi hverju sinni. Fótboltinn og enska deildarkeppnin skipa öndvegissess í lífi Jóns og svo er hann heltekinn af jeppadellu. Þær eru ekki svo fáar stundirnar sem hann hefur varið í jeppann sinn og nú getur hann ekki á heilum sér setið fyrr en hann hefur eignast nýju þokuluktirnar sem komu í Bílabúð Benna í síðustu viku og kosta ekki nema fimmtíuþúsund kall. Að vísu er Gunna ekki hrifin af þessu vegna þess að þá hefur hann varið 300.000 krónum í jeppann á hálfu ári. Hún er hrædd um að þetta gæti orðið til þess að þau yrðu að slá ferðinni um páskana til Kanarí á frest. En í það heila tekið eru þau ánægð með líf sitt og verðbréfin sem þau keyptu í fyrra hafa margfaldast í verði. Grundvallarregla þeirra í lífinu er að skipta sér ekki af því sem þeim kemur ekki við. Þau hafa ekki farið í kirkju síðan hún Pálína frænka dó í fyrra og kjósa fremur að sofa út á sunnudögum.

Dýrð vitsmunanna: Snúum okkur þá að honum Pétri. Hann kennir sem stundakennari við háskólann, en vinnur þar fyrir utan á tilraunastofu út í bæ. Hann er heillaður af raunvísundunum og hefur þar fyrir utan gaman að því að fara á sinfóníutónleika, nokkuð sem Jón og Gunna létu sér ekki til hugar koma því að þau eru ekki „snobbuð.“ Síðustu vikuna hefur hann verið hugfanginn við lestur nýrrar bókar um skammtafræðina, en hún Stína konan hans er orðin þessu vön. Þetta er ekkert nýtt vegna þess að hann er áskrifandi að nokkurum tímaritum um stjarneðlisfræði og náttúrufræði. Stína er því vön að horfa ein á sjónvarpið á kvöldin. Verst hvað hann er hirðulaus um útlit sitt og það var ekki fyrr en hún rak hann með harðri hendi til Guðsteins sem hann drattaðist af stað til að kaupa sér nýja skyrtu, bindi og jakka fyrir afmælið hennar Steppu frænku. Pétur er hæstánægður með hlutskipti sitt í lífinu því að vísindin eru honum allt.

Dýrð andans: Fyrstan skal telja Jesú Krist sem var svo snauður, að hann átti engan stað höfði sínu að að halla – en hann var HEILAGUR.

Þá kemur hann blessaður Frans frá Assisí sem drakk vatnið eftir að hafa þvegið sár holdsveikrasjúklinganna úr því. Það var hann sem sagði bróðir Úlf að skammast sín þegar hann var að hrella íbúana í þorpinu. Hann tók í lobbu hans og gerði við hann samning um að haga sér betur í framtíðinni. Sú varð raunin og hann varð svo elskaður að útförin var fjölmenn við fráfall bróðir Úlfs. Það runnu tvær grímur á fræðimenn þegar ítalska vegagerðin var að sprengja fyrir nýjum vegi og fann helli með líkamsleifum afar stórs úlfs við þorpið sem greinilega hafði verið lagður þar til af mikilli umhyggjusemi. Þessi aðalsmannssonur, Frans, blásnauður – en afar HEILAGUR.

Eða þá sóknarpresturinn í Ars (Curé de Ars). Eitt sinn hrökk upp úr honum að hann gæti svo sem sagt að hann og skrattinn væru í vissum skilningi „kunningjar.“ Skrattinn reið húsi hjá honum, kveikti jafnvel í rúminu hans og kvartaði sáran yfir predikunum hans: „Hvers vegna þarftu alltaf að haga þér eins og fífl? Hvers vegna geturðu ekki predikað eins og menntuðuð prestarnir í borgunum hérna í kring? Veistu, að ef tveir aðrir eins og þú væru á jörðu mynduð þið leggja ríki mitt í rúst? Þrátt fyrir að Curé de Ars væri svo „illa gefinn“ að honum auðnaðist ekki að læra latínu og var á undanþágu frá páfa, urðu þeir að leggja sérstaka járnbraut til þorpsins hans vegna alls þess fjölda skriftabarna sem komu til hans víðs vegar úr heiminum – HEILAGUR.

Pascal segir að óbrúanlegt djúp sé á milli þessara þriggja manngerða. [1] Hl. Silúan frá Aþos orðaði þetta dálítið öðruvísi. Hann kom með dæmisöguna af hananum og erninum. Í einni næturvaka sinna í Pantoleimonsklaustrinu skrifaði hann:

„Örn nokkur sveif um hátt í loftsölum himnanna og naut fegurðar heimsins og hugsaði með sjálfum sér: „Ég flýg um víðáttur himins og sé dali og fjöll, höf og fljót, akurlendi og skóga. Ég sé sæg dýra og fugla. Ég horfi niður á borgir og þorp og sé hvernig mennirnir haga lífi sínu. En haninn á bæjarhlaðinu þekkir ekkert annað en kotbýli sitt, örfáar mannhræður og búpeninginn. Nú er best að ég fljúgi niður til hans og segi honum hvað ber fyrir augu í heiminum.“

Örninn settist á þakmæninn og gaf hananum gætur þar sem hann gekk rígsperrtur um á meðal hænanna sinna og hugsaði með sjálfum sér: „Hann er sáttur með sitt hlutskipti. En engu að síður ætla ég að greina honum frá því sem mér hefur borið fyrir augu.“

Og örninn tók að greina hananum frá fegurð heimsins og auðlegð. Í fyrstu hlustaði haninn á hann af athygli, en í rauninni botnaði hann ekki upp né niður í neinu sem örninn sagði. Það tók að síga í örninn og samræður hans við hanann urðu þvingaðri. En þar sem haninn bar ekkert skyn á það sem örninn hafði fram að færa tók hann að ókyrrast og það reyndist honum erfitt að hlusta á örninn.

Þannig hagar þessu einnig til þegar lærður maður talar við óupplýstan mann, og miklu fremur þegar andlegur maður talar við þann sem hneigist ekki að andlegum hugðarefnum. Manni andans má líkja við örninn, en hinum svipar til hanans. Maður andans íhugar lög Drottins á nóttu sem degi og hefur sig upp til Guðs í bæninni. En hugur hins skeytingarlausa er jarðbundinn og hugfanginn af rótleysi fallvaltleikans. Sál manns andans nýtur friðar, en sál hins er innantóm og þjökuð af einbeitingarskorti. Líkt og örninn beinir maður andans för sinni til hæða og sál hans skynjar nærveru Guðs og hann öðlast yfirsýn yfir heiminn, jafnvel þegar hann biður í svartnætti næturinnar. Holdleg sál leitar sér hins vegar gleði í hégómaskap, ríkidæmi eða fullnægju holdlegra girnda. Þegar fundum manns andans og andhverfu hans ber saman reynist þeim erfitt að halda uppi samræðum.“ [2]

Þess vegna er svo tilgangslaust að reyna að tala við strákana á Vantrúarnetinu um guðfræði. Það er himinn og haf á milli dauðs og lifandi „hypoþesis.“ Þeir standa í sömu sporum og blindur maður sem ætlar sér að semja verk um málverk Gunnlaugs Schevings. Þeim manni mun reynast slíkt erfitt, ef ekki óframkvæmanlegt.

[1]. Hér víkur Pascal að sjálfsögðu að hinni náttúrlegu tilhögun. Í Kristi verður það brúað eins og ég mun víkja að síðar með hliðsjón af þróun bænalífsins í vextinum til Krists fyllingar (Ef 4. 13).

[2] Úr handriti sem nú er í prófarkalestri og verður gefið út á komandi hausti.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Kristinn Ásgrímsson
Kristinn Ásgrímsson

Kæri Jón.
Þakka frábæra grein, sem uppörvaði anda minn í dag. Guð blessi þig.

03.03.06 @ 16:35
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þessir leyndardómar eru svo djúpstæðir að hún kallar þá með réttu háa hella. Þeir eru háir sökum þess hversu háleitir þessir leyndardómar eru og hellar sökum dýptar speki Guðs í þeim. Þar sem hellar eru djúpir með fjölmörgum afkimum, þannig eru allir leyndardómarnir í Kristi einstæðir í dýpt spekinnar og fela í sér fjölmarga afkima huldra dóma, ráðsályktunar og forþekkingar hvað áhrærir börn jarðarinnar. Því bætir hún við:

Sem eru svo vel huldir.

Þeir eru svo vel huldir, að hversu margir sem þeir leyndardómar og stórmerki eru sem hinir heilögu kirkjufræðarar hafa uppgötvað og heilagar sálir skilið í þessu lífi, þá er það miklu meira að vöxtum sem enn á eftir að segja og skilja. Dýptirnar í Kristi eru miklar vegna þess að hann er eins og náma full af gersemum með ótöldum afkimum fjársjóða. Hversu djúpt sem menn kunna að ganga hér inn ná þeir aldrei til botns, heldur uppgötva þeir sífellt nýjar æðar með nýjum gersemum. Af þessum sökum komst hl. Páll svo að orði um Krist: En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir (Kól 2. 3),

Jóhannes af Krossi, Ljóð andans 37, 4.

03.03.06 @ 21:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Einn skrifaði hér aths. í dag og gaf upp dulnefni, en það gengur ekki, menn eru beðnir að skrifa hér undir fullu nafni – með þeim hætti er mönnum velkomið að tjá sig. Ég geymi þó athugasemdina.

JVJ, p.t. umsjónarmaður.

15.06.06 @ 09:24