« Fjallað um öfga-islamisma og ógöngur fjölmenningarhyggjunnarSamkynhneigðir vanhæfari en aðrir til barnauppeldis »

25.02.06

  05:03:41, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1269 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju, Lúthersk kristni

Lúther gegn hjónabandi samkynhneigðra

  Eftirfarandi grein var send DV 12. janúar, en fekkst þar ekki birt þrátt fyrir ítrekuð tilmæli. Þá var hún send Fréttablaðinu um 28. jan., en fekkst þar heldur ekki birt, þótt stytt væri niður fyrir 3000 slög til að fá þar inni. En hér er sagt aðeins frá viðhorfum Lúthers til kynmaka samkynja fólks, auk þess sem vikið er að svo ólíkum hlutum sem Gamla testamentinu, skrifum Platóns, ummælum Jesú um Sódómu og skriftaboðum Þorláks biskups helga.

Jón Einarsson, lipur fastapenni á DV, skrifaði pistil um mál samkynhneigðra 10. janúar sl. og ræddi þar viðhorf Karls biskups og ummæli Jónínu Bjartmarz alþm. á Stöð 2. Rétt var af Jóni að leiðrétta orð hennar um hjónabandið sem "sakramenti" í Þjóðkirkjunni, því að það er alls ekki lútherskur skilningur. Nú er hún lærður lögfræðingur og reyndur þingmaður. Það er því viss mælistika á þekkinguna á kristnum sið og trú á síðari tímum að slík frammámanneskja láti þvílík orð falla í sjónvarpsviðtali. Annað var þó ískyggilegra, sem nafni minn lét hjá líða að minnast á, þ.e. að í sama viðtali lagði hún til að trúfélög yrðu "skylduð til að blessa samkynhneigða". [Frh. neðar.]

Er þingmaðurinn staddur á Sovét-Íslandi? En jafnvel austan járntjalds, þar sem kristnir menn voru sviptir mannréttindum og þrengt að samvizkufrelsi, datt yfirvöldum aldrei í hug að leggja slíka nauðung á trúfélög. Nú hefur Þjóðkirkjan sjálfstæði um sín innri mál (trúar- og siðferðiskenningu, helgisiði o.fl.), eins og viðurkennt er með 2., 5. og 20. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar [1]. Því ættu þeir veraldlegu valdsmenn, sem virða ekki sjálfræði kirkjunnar meira en þetta, að hugsa sitt ráð. Þeir, sem telja að Þjóðkirkjan eigi að lúta ríkisboði í þessum efnum, eru að snúa á haus 1. gr. sömu laga, þar sem segir: "Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda Þjóðkirkjuna." Er það raunar alkunnugt stjórnarskrárákvæði (62. gr.).

Biblían, hornsteinn kristinnar kirkju (ekki sízt lúthersk-evangelískrar), talar skýrum rómi gegn því, að karlmaður leggist með karlmanni sem kona væri (1.Mós.19.4–29, 3.Mós.18.22 og 24–30, Róm.1.24–32, 1.Kor.6.9–11, 1.Tím.1.9–10, Júd.7 o.v.), sem og gegn lesbískum mökum (Róm.1.26); fellur það allt í flokk höfuðsynda. Þetta er skeleggur siðaboðskapur kirkjunnar á Íslandi frá elztu tíð, sbr. skriftaboð Þorláks biskups helga (sjá Íslenzkt fornbréfasafn I, 240–1, 243 [2], með ströngum viðurlögum). En það var líka eindregin kenning Lúthers, enda gat hann þar stuðzt við orð Jesú sjálfs sem staðfesta réttmæti dómsorðs Gamla testamentisins yfir synd Sódómu [3].

Um þessa afstöðu Marteins Lúthers er Jón Einarsson að vísu ófróður og telur sig geta réttlætt hjónavígslu samkynhneigðra með því, að Lúther hafi talið hjónabandið "veraldlegs eðlis". Það breytir engu um það, að hann hefði fordæmt þá hugdettu að gefa mætti saman karl við karl eða konu við konu. (Segja mætti mér, að hann hefði talið slíkt uppátæki “OF veraldlegs eðlis”!) – Í ritskýringu á 1.Mós.19 kallar Lúther ásókn karlmanna í Sódómu í kynmök með körlum “svívirðilega hegðun” og bætir við: “Þeir hafa snúið baki við eðlilegum hvötum karls til konu, sem Guð lagði í náttúruna, og tekið að girnast það sem er algjörlega andstætt náttúrunni. – Hvaðan kemur þessi rangsnúningur?” spyr hann og svarar sér sjálfur: “Efalaust frá Satan, því að þegar fólk ber ekki lengur óttablandna virðingu fyrir Guði, þá bælir Satan eðli okkar svo kröftuglega, að hann þurrkar út náttúrlegar þrár og æsir upp ástríður andstæðar eðli okkar” (LW 3:255). Ljóst er, að það var slysaskot hjá Jóni Einarssyni að réttlæta hjónabönd samkynhneigðra með tilvísun í föður lúthersku kirkjunnar.

Þótt hér hafi verið ítrekað, hver sé yfirlýstur vilji Guðs í Ritningunni, er ekki þar með sagt, að allir viðurkenni þann boðskap sem sannan. Um það, hvort niðurstöður mannlegra vísinda, m.a. félags- og læknisfræði, staðfesti eða mæli móti afstöðu Biblíunnar í þessu efni, geta menn fræðzt í greinum á vefsíðunni http://www.kirkju.net/index.php/jon?cat=51 .

JVJ.

Fleiri tilvísanir í heimildir (bætt við hér í þessari netútgáfu):

[1] Sjá www.althingi.is/lagas/130a/1997078.html

[2] Skriftaboðin eru talin frá árinu 1178. Vægi þessa banns við kynmökum karla hvers við annan sést bæði af því, að efst á blaði allra synda er þessari skipað strax í upphafi skriftaboðanna, og af alvöru hinna settu refsinga. En þar segir (með nútímastafsetningu; athugið: 'skriftir' þýðir hér yfirbótaverk): "Þessar skriftir bauð Þorlákur biskup fyrir hinar stærstu höfuðsyndir. 9 vetur eða 10 fyrir hórdóm þann, er karlmenn eigast við, eða þann er menn eiga við ferfætt kvikindi: að fasta gagnföstur þrjár á hverjum misserum, eina fyrir Jóhannesar messu baptistæ [skírara], aðra fyrir Mikjálsmessu, þriðju fyrir jólaföstu og fasta annan hvern dag í viku hverri. Og í tvær nætur bauð hann að falla 10 tugum sinnum á knébeð um langaföstu og jólaföstu hvern dag, er eigi eru 9 lectíur [lestrar], og syngja jafnoft Pater noster [Faðirvorið]; taka ráðning föstudag hvern um langaföstur, fimm högg hið fæsta af vendi eða ól, svo að sárt verði við, varna við fjaðurklæðum öðrum en hægindi [svo] og svo við línklæðum um langaföstu og svo jólaföstu – og falla nokkuð á knébeð föstudaga eða vigiliu daga [vigilia: bænavaka kvöldið fyrir stórhátíð] og taka eigi corpus Domini [líkama Drottins: altarissakramentið] um þrjá vetur hina næstu eftir." – Hliðstæður texti á við um konur: "Ef konur eigast við, þangað til er þeim leysir girnd, skal bjóða þvílíka skrift [þ.e. yfirbót] sem körlum þeim, er hinn ljótasta hórdóm fremja sín á millum, eða þann, er framdur er við ferfætt kvikindi" (Ísl. fornbréfasafn I, 243). – Þetta eru mjög strangar refsingar á þeirri tíð, miðað við ýmis önnur brot. Við erum þó ekki að tala hér um það Stóradómssiðferði lútherskra að refsa með dauðadómi fyrir vissar kynlífssyndir. Hitt er ljóst af öllu framansögðu, að Þorlákur biskup helgi og Marteinn Lúther voru sammála um það, að hér er um að ræða synd sem er andstæð náttúrunni. Í því efni voru þeir á einu máli með Páli postula (sjá sérstaklega Rómverjabréfið, 1.26–27) og gríska heimspekingnum Platón (sjá Lögin VIII, 836 og 841).

[3] Mt.10.15, 11.23–24, Lk.10.12, 17.29. Eins og guðfræðingurinn dr. James B. De Young, prófessor í Nýjatestamentisfræðum við Western Seminary prestaskólann í Portland, Oregon, Bandaríkjunum, segir í riti sínu Homo-sexuality: Contemporary Claims Examined in the Light of the Bible and Other Ancient Literature and Law (Kregel Publications, Grand Rapids, 2000), s. 219–221, þá er ljóst af ummælum Jesú um Sódómu, að hann gerir hvort tveggja: (1) að viðurkenna atburðina, sem Gamla testamentið (GT) greindi frá um Sódómu, sem sögulega rétta, og (2) að viðurkenna að synd Sódómu var af hinu alvarlegasta tagi, eins og reyndar GT segir líka (I. Mós. 13.13, 18.20, 19.13 og 15), og (3) að refsingin var verðskulduð. Samhengið hjá Jesú er reyndar það, að borgarbúar í Kapernaúm höfðu syndgað með iðrunarleysi við boðun hans þrátt fyrir kraftaverk hans þar, en hann segir, að hefðu þau kraftaverk, sem þar voru unnin, verið gjörð í Sódómu, þá "stæði hún allt til þessa dags." Þarna er hann að grípa eins langt til samlíkingar um syndsemi og framast varð gengið (þeir eru engu skárri en jafnvel Sódóma!), þannig að atriði (2) hér á undan blasir þar við. Enginn, hvorki við né Sódóma í eina tíð, getur ætlazt til kraftaverks af himnum ofan til að láta draga sig til iðrunar og snúast frá lögmálsbrotum; – jafnvel heiðingjarnir, sem eiga ekki siðalögmál Móse eins og Gyðingar og kristnir, gera gjarnan ósjálfrátt það, sem lögmálið býður – og þá sýnir sig, að þeir eru í reynd sjálfum sér lögmál, með því að samvizka þeirra og hugsun bera því vitni, hvað þeir eigi að gera (Róm. 2.14–15); og þær syndir, sem beinlínis eru "gegn náttúrunni," eru meðal þeirra, sem allur þorra manna veit með sjálfum sér að eru óeðlilegar og rangar. Því höfðu Sódómubúar enga afsökun fyrir lifnaði sínum. Það hafa heldur engar aðrar þjóðir, eins og dagljóst er fyrir hvern þann sem les III. Mós. 18.22 og framhaldið: 18.24–30, þar sem fram kemur, að jafnvel þær þjóðir, sem ekki höfðu þegið lögmálið, eru undir þessari siðferðisskyldu – einfaldlega vegna þeirrar almennu opinberunar Guðs, sem birt er í samvizku sérhvers manns (meðan hún hefur ekki myrkvazt af einhverju öðru).


9 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Við verðum sífellt að hafa í huga að um 90% kenninga Lúters hafði hann frá kirkjunni. Hitt er dapurlegt, bæði hjá honum og Kalvín. Í reynd varð ég furðu lostinn þegar ég kynnti mér kenningar hans um hjónabandið sem er í engri samhljóðan við hina heilögu arfleifð og bæði Vesturkirkjan og Austurkirkjan höfnuðu sem villutrú.

25.02.06 @ 08:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þórbergur Þórðarson skrifaði í “Rauða hættan” árið 1935:

“Bolsévikar hafa afsalað sér öllu þessu gelda hugarvingli um sáluhjálp sína og guð og annað líf. En þeir hafa endurfæðst til máttugrar trúar á réttlátt og mannúðlegt þjóðskipulag hér í heimi, og allar vélar og vinnandi hendur þessara 170 milljóna einbeita dag og nótt öllum kröftum að sköpun slíkrar sambúðar meðal mannanna". [Leturbr. RGB]

Tilv. “Rauða hættan", útg. Mál og menning, Reykjavík 1977. bls. 80.

25.02.06 @ 08:58
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, Ragnar, heimshyggjan reynir, hér sem í Sovét-Rússlandi, að endurmóta samfélagsskilninginn, þ.m.t. á hjónabandinu, en stefnir “óvart” óravegu frá heilbrigðum grunni kristins mannsskilnings og siðferðis – og frá því alþjóða-samsinni, sem víðast hvar ríkir um þessi mál. Kjánaleg bjartsýnishyggjan, sem birtist þarna í orðum Þórbergs (míns gamla gúrús), á sér nú þá hliðstæðu helzta, sem blasir við í ofurbjartsýni þeirra sem ímynda sér að hjónabönd homma og lesbía og ættleiðing þeirra á börnum sé réttlætis- og framfaramál.

25.02.06 @ 11:03
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hvað áhrærir fjölmiðlana, bróðir Jón, voru ummæli sem hrukku af vörum Egils í Silfri Egils fyrir hálfum mánuði þegar þeir voru að ræða myndbirtingarnar. Hann sagði eitthvað á þessa leið: Það þarf að ryðja þessu viðhorfi út úr umræðunni, eins og okkur hefur tekist að gera með kirkjuna hjá okkur. Forvitnilegt væri að vita hvort Blaðamannafélag Íslands hafi tekið þessa afstöðu sameiginlega. Miðað við fjölmiðlaumfjöllun síðustu mánaða mætti ætla svo, þar sem hómósexualistarnir og stuðningsmenn þeirra virðast hafa óheftan aðgang í samanburði við málsvara kristindómsins. Þannig mátti sjá stóra grein í Lesbók Morgunblaðsins um blessunarathafnir fríkirkjuprestsins orðglaða, Hjartar Magna. Dálætið og velþóknunin er augljós í greininni.

25.02.06 @ 11:13
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Satt segirðu, Jón, fjölmiðlar eru allt annað en óhlutdrægir í þessu máli. Blaðið hefur t.d. ekki birt hóflega litla grein sem ég sendi því 27. janúar [TENGILL], enda hefur það sýnt hug sinn í málinu með leiðara 4. janúar þar sem afstaða var í raun tekin með kirkjulegum hjúskap samkynhneigðra (sem er nokkurn veginn eins róttæk afstaða og hægt er að taka). Fréttablaðið fagnaði frumvarpi forsætisráðherra í leiðara 18. nóvember og kallaði það “mikið framfaraspor” (um þá fullyrðingu væri hægt að skrifa heila grein eða margar!). Mogginn stendur beinlínis í baráttu fyrir réttindakröfum samkynhneigðra, bæði með ritstjórnarskrifum sínum (leiðurum og Staksteinum margítrekað og nú nýlega með heilu Reykjavíkurbréfi 12. þ.m.) og einnig með almennri ritstjórn, sbr. Lesbókar-greinina sem þú nefndir, Jón, og fegrandi umfjöllun um sambýlismál homma og lesbía í Tímariti Mbl. nýlega, ennfremur má stundum greina afstöðu blaðsins í fréttavali þess, svo sem í forsíðufréttum 17. nóv. og 16. janúar sl., en hins vegar var nánast ekkert gert úr þeim fréttnæma atburði, að 20 trúfélög sendu frá sér mjög skorinorða yfirlýsingu, ekki aðeins með stuðningi við Karl biskup, heldur með algerri höfnun á frumættleiðingu, tæknifrjóvgun og hjónavígslu handa kynhverfum. Moggi birti þetta að vísu inni í blaðinu sem einfalda fréttatilkynningu, en þagði svo um þunnu hljóði um fréttina, þótt hann hlaupi eftir hverri rokunni á eftir annarri frá Hirti Magna Fríkirkjupresti, þegar honum þókknast að færa þessi mál í tal; eins sló Mogginn upp öllum asnalegu viðbrögðunum frá dvergfélaginu ÁST, smáfélaginu FAS og formanni og stjórn Samtakanna ‘78 í liðnum mánuði, meðan hann þegir sem kirfilegast um afstöðu langflestra kristnu utanþjóðkirkju-trúfélaganna í landinu með á 13. þúsund safnaðarmeðlimi. Fréttablaðið birti þó viðtal við Vörð Traustason eftir yfirlýsingu trúfélaganna 20, þannig að í þeim samanburði sýndi Mogginn sig með þögninni að hafa staðið sig mun verr í fréttahlutverkinu, sem þýðir í raun, að hlutdrægni hans bitnar á málstað hinna kristnu vitnisbera – málstað sem umfram allt tekur þó mið af hag og heill barna og unglinga í landinu, auk hlýðni við vilja Guðs.

25.02.06 @ 12:01
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fyrir utan allt þetta hafa blaðamenn á nefndum blöðum viðrað sínar skoðanir með kynhverfu-stefnunni (oft afar illa grundaðar, þótt gjarnan fylgi yfirlýsingar um fordóma og fáfræði þeirra sem gegn þeim standa) í föstum dálkum á síðum dagblaðanna. Má þar nefna sem dæmi greinar eftir Sigmund Erni Rúnarsson, Guðmund Andra Thorsson og Súsönnu Svavarsdóttur í Fréttablaðinu, Jón minn Gnarr í sama blaði, Hönnu Katrínu Frederiksen, Örnu Schram*, Bergþóru Jónsdóttur (Mbl.27/1), Sveinbjörn I. Baldvinsson (22/1) o.fl. í Morgunblaðinu.

*[Viðbót 27/2:] Í fréttaskýringarpistlinum ‘Hvað er hjónaband?’ 4. jan. 2006, s. 8, ræðir Arna einungis við fjóra (og örstutt við tvo) aðila, sem allir eru í hópi lausungarmanna (róttækra eða ‘frjálslyndra’) varðandi kirkjulega vígslu kynhverfra og/eða blessun samvistar þeirra. Morgunblaðið hefur aldrei rætt við einn einasta þeirra, sem í forsvari hafa verið fyrir yfirlýsingu trúfélaganna tuttugu, en margítrekað hefur hann hampað sjónarmiðum mesta lausungarmannsins, Hjartar Magna Fríkirkjuprests, sem fær að tóna lokasönginn í nefndri grein Örnu – sem vel að merkja er þingfréttaritari blaðsins.

25.02.06 @ 13:12
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ef kristindómsuppfræðsla þessa fólks nær ekki meiri hæðum en hjá háttvirtum alþingismanni, Jónínu Bjartmarz, sem allt bendir til að sé nú raunin, þá er það einungis þetta sem búast má við, ekki satt, nafni? Og Jón okkar Gnarr er nú einu sinni nýgenginn í kirkjuna, ekki satt, og á eftir að læra margt? En stefna Framsóknarflokksins í trúmálum virðist vera jafn-samkvæm sjálfri sér og í pólitíkinni. Fyrir nokkrum árum síðan kynntu þeir sig sem hinn græna flokk landbúnaðar, kusu, pútna og kinda. Eitthvað hefur skolast til á þessum bænum. Það skondnasta sem ég hef heyrt af vörum eins ráðherra þessa flokks voru hinar nýju mengunarvarnir þarna í Reyðarfirðinum: 70 metra hár strompur! Voru það ekki stromparnir sem voru að drepa allt og kæfa í Englandi forðum?

25.02.06 @ 13:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það bezta, sem sagt verður um hlutverk Moggans í þessu máli, verður samt ekki frá honum tekið: að hann er þó það blað, sem flestar greinar birtir frá lesendum sínum, þ.á m. um þetta mál. Ég veit ekki um greinar, sem hann hefur hafnað í þessu máli, aðrar en þá sem þú varst gerður afturreka með, Jón Rafn, og birt er hér á vefsetrinu: http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/02/12/p188 – grein sem í hreinskilni sinni og vitundaropnandi glöggskyggni átti mikið erindi í Mbl., þótt ekki hafi fengið þar inni. – En ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á þremur greinum í Mbl. í dag: eftir Ragnhildi Kolka: ‘Frummælendur, andmælendur, fjandmælendur’, Guðmund Pálsson lækni: ‘Enn um hagsmuni barna’, og Gunnar Þorsteinsson í Krossinum: ‘Bréf úr Kópavogi’. Enn ein grein og ekki síðri en allar þessar birtist föstudaginn 24. febr. í sama blaði: ‘Reykjavíkurbréfi svarað’ eftir Guðjón Braga Benediktsson. Þá má heldur ekki gleyma góðri grein í Mbl. í gær, 25/2, eftir Snorra Óskarsson í Betel, með snjallri og nauðsynlegri áminningu til vígðra presta landins. Ekki er öll nótt úti enn, meðan Íslendingar eiga slíkt baráttufólk fyrir sannleika og réttlæti.

Hins vegar hefur Mogginn oft og lengi hafnað greinum um ljótasta siðleysið, sem viðgengst á þessu landi okkar, þ.e.a.s. fósturdrápin*, sem nú og á næstu áratugum koma illilega niður á þjóðum Vesturlanda. En er það ekki það sem þessar þjóðir vildu? Eða gerðist þetta bara óvart? Sannarlega ekki, það gerðist nefnilega fyrir óbilgjarna baráttu rauðsokkna og óverjandi undanlátssemi alþingismanna. En vissulega má segja, að sinnuleysi annarra hafi gert þar útslagið. Já, sinnuleysi og aðgerðaleysi getur svo sannarlega verið dýrkeypt, eins og menn eiga eftir að finna fyrir á eigin skinni, nagandi sig í handarbökin vegna þess, að þeir leyfðu ekki fleiri börnum að lifa á síðasta aldarfjórðungi 20. aldar og lengi fram eftir þeirri 21. Kvartað geta menn svo árið 2030 (þegar ástandið á þó enn eftir að versna) yfir því, að Vesturlönd séu að fara í hundana, séu klemmd milli þeirra vondu valkosta að búa við vinnuaflsskort og efnahagsstöðnun eða að dæla inn miklu fleira fólki frá umheiminum á sama tíma og andstæður hafa magnazt milli fjölmenningar- og þjóðernishyggju, óánægja láglaunaðra útlendinga kraumandi á sama tíma og fáeinir þeirra (en þó allt of margir) eru farnir að beita sér sem fimmta herdeild hryðjuverkaafla í Evrópu. Og hann dæsir, blessaður maðurinn, en getur ekki tjáð sig við þjónustuna á elliheimilinu, af því að þar tala fæstir orðið íslenzku lengur. Hann þakkar þó sínum sæla fyrir, að enn á hann séns á að komast inn á sjúkrahús án langrar biðar, en horfir með hryllingi fram á það, þegar eftir verður einungis einn vinnandi maður til að sjá fyrir hverjum lífeyrisþega, bæði með framfærslu, rekstur spítala, aðra heilbrigðisþjónustu o.fl. “Við hefðum betur hlustað á þau þarna í Lífsvon um árið, þegar við héldum að fóstureyðingar væru mannréttindi og fussuðum og sveiuðum yfir þessu ofstækisfólki,” tautar hann fyrir munni sér, um leið og hann sendir enn einum heyrnarlausa útlendingnum varfærið bros, vongóður um að hann tilheyri ekki þessum ónefnda, útlenzka trúarhópi sem upp á síðkastið hefur verið til vandræða ….

26.02.06 @ 15:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

*) Ég var farinn að kalla ‘fóstureyðingar’ (sem mér finnst óverðugt heiti, þar sem það minnir einna helzt á meindýraeyðingu) fósturvíg, sem var þýðing mín á latneska orðinu fœticidum. ‘Morð’ hef ég hins vegar ekki viljað nota um verknaðinn, þar sem það orð var að réttu viðhaft um þann höfuðglæp sem menn héldu leyndum eða vildu ekki við kannast (sbr. orðið ‘myrða’ í fornu máli = fela). Víg voru það aftur á móti, þegar menn lýstu drápi á hendur sér. Það gera læknar að vissu leyti í tilfellum hinna ófæddu (með því að vera skráðir í kladdann í kerfinu sem vinnandi verkið) – og þó ekki, því að þeir kjósa heldur að ganga um sem heiðvirðir borgarar, segjandi helzt engum frá þessu utan skurðstofunnar. En alls óverðugir væru þeir að gefa slíkum verknaði nafnið ‘víg’, því að auvirðileg er staða þeirra að gera þetta við lítilmagna, okkar minnstu bræður og systur, sem á engan hátt geta varið sig. Dráp skal það því heita. Slík óheillaverk vinna læknar þvert gegn sínum læknaeiði og siðferðisskyldu. Athugið líka, að Heilbrigðisskýrslurnar íslenzku höfðu lengi vel (um og fyrir miðja 20. öld) þessa ensku yfirskrift á upplýsingatöflum um fjölda s.k. fóstureyðinga: “Abortions according to the Feticide Act” – en ‘feticide’ (fœticidum) er ekkert annað né minna en fósturdráp.

26.02.06 @ 15:28
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software