« Hversu margar hafa opinberanir Guðsmóðurinnar verið síðustu aldirnar?LA SALETTE Í FRAKKLANDI 1846: HIN GRÁTANDI GUÐSMÓÐIR Í MIÐJU HRINGS (3) »

02.01.07

  09:45:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2488 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

LOURDES Í FRAKKLANDI 1858: DROTTNING OG UPPSPRETTA ALLRAR NÁÐAR (4)

Lourdes_1

GUÐSMÓÐIRIN FRÖNSKUM YFIRVÖLDUM TIL AMA

Þetta var ekki í eina skiptið sem franska Dóms- og menningarmálaráðuneytið sá ástæðu til að blanda sér inn í opinberanir Guðsmóðurinnar á jörðu. Þetta gerðist tólf árum síðar og nú í hlíðum frönsku Pýreneafjallanna. Það var Massy greifi, amtmaður í Tarbes, sem var ábyrgur fyrir allri reglu í héraði því sem Lourdes tilheyrði og það var bæjarstjórinn sjálfur sem leitaði ráðlegginga hans. Greifnn varð dálítið pirraður þegar bæjarstjórinn ónáðaði hann vegna þess að fólk var tekið að safnast saman við einhvern helli í Lourdes þar sem sagt var að sjálf Guðsmóðurin hafði opinberast einhverjum telpuhnokka sem hét Bernadetta Soubirous. En viðbrögð amtsmannsins voru fremur vinsamleg. Meðan „almenn lög og reglur eru virtar“ sá hans háæruverðugheit enga ástæðu til að grípa til sérstakra aðgerða. Ef til vill tæki fólkinu að fækka eftir páskana?

FYRSTA OPINBERUNIN

Það var hinn 11. febrúar árið 1858 eða fimmtudaginn fyrir öskudag sem þrjár franskar telpur fóru til að safna saman eldiviðarsprekumm. Bernadetta varð aðskila við hinar telpurnar og var stödd ein við helli nokkurn þegar hún heyrði einhvern gný líkt og í stormviðri:

Ég leit bæði til hægri og vinstri og eins til trjánna við ána, en allt var með kyrrum kjörum. Ég hélt að mér hefði skjátlast. Ég hélt áfram að klæða mig úr skónum og sokkunum (hún ætlaði sér að vaða yfir ána), en þá heyrði ég þennan gný að nýju, eins og í fyrra skiptið. Ég varð hrædd og reis á fætur. Ég varð orðlaus og sem bergnumin þegar mér varð litið til hellisins. Í einni klettasprungunni sá ég rósarunna – aðeins einn rósarunna – sem bærðist eins og fyrir vindi. Á sömu stundu var eins og gullið ský kæmi út úr hellinum og skömmu síðar kona, ung og fögur sýnum út úr honum. Ég hafði aldrei séð slíka fegurð þar sem hún kom þarna og nam staðar í hellismunnanum við rósarunnann. Hún leit þegar í stað til mín, brosti til mín og gaf mér merki um að koma til sín, rétt eins og hún væri móðir mín. Mér var horfinn allur ótti en ég virtist ekki lengur vita hvar ég væri stödd. Ég néri mér um augun og blikkaði þeim, en konan stóð þarna enn og hélt áfram að brosa til mín og gefa mér til kynna, að mér hefði ekki skjátlast. Án þess að hugleiða nánar hvað ég væri að gera tók ég upp rósakransinn minn og kraup niður. Konan gaf mér í skyn að henni væri þetta að skapi með því að kinka og tók sjálf rósakrans sem hékk á hægri handleggi hennar. Þegar ég ætlaði að fara að biðja rósakransinn og reyndi að lyfta hendinni upp að enninu var eingu líkara en að handleggurinn hefði lamst og það var einungis eftir að konan hafði signt sig sem ég gat einnig gert það. Konan lét mig biðja aleina og lét perlurnar renna um fingur sér án þess að segja aukatekið orð. Það var einugis að hverri deild lokinni sem hún bað Dýðrarbænina með mér. Þegar róskakransbæninni var lokið hvarf konan inn á milli klettanna og gullna skýið hvarf ásamt henni.

FREKARI OPINBERANIR

Þegar þetta atvik átti sér stað var Bernadetta fjórtán ára gömul og opinberanirnar stóðu yfir í um fimm mánaða skeið þar sem Guðsmóðurin birtist henni alls átján sinnum. Opinberanirnar gjörbreyttu lífi hennar eins og þær hafa gjörbreytt lífi milljóna annarra manna. Í fimmtu opinberuninni kenndi Guðsmóðurin henni bæn sem hún bað daglega allt sitt líf og ljóstraði aldrei upp. Í sjöttu opinberuninni bauð hin blessaða Mey henni að biðja fyrir syndugum mönnum, í þeirri sjöundu trúði hún Bernadettu fyrir „þremur undursamlegum leyndardómum“ sem hún hélt alla tíð leyndum og í þeirri áttundu þríendurtekna áminningu um iðrun.

UPPSPRETTULINDIN

Daginn eftir eða þann 25. febrúar var henni boðið að „drekka úr lindinni og lauga sig úr henni.“ Þetta olli Bernadettu miklum heilabrotum, en þegar hún kraup niður og tók að þreifa fyrir sér uppgötvaði hún rakablett og því næst spratt fram uppsprettlindin. Hún drakk af lindarvatninu og laugaði andlit sitt og veitti því jafnframt athygli, að vatn seitlaði úr klettinum. Daginn eftir var þessi vatnstraumur orðin að raunverulegri lækjarsprænu. Það var einnig við þetta sama tækifæri sem Guðsmóðurin bauð henni að „kissa jörðina vegna syndaranna“ og mannfjöldinn sem var viðstaddur gerði slíkt hið sama. Í elleftu opinberuninni bað Guðsmóðurin hana um að greina prestunum frá þeirri ósk sinni að kapella yrði reist við hellinn. Þegar hún lagði leið sína til sóknarprestsins í Lourdes sem hún óttaðist mjög, þá sagði hann henni hreint út, að hann hefði ekki til siðs að eiga nein samskipti við framandi dularverur og ef konun vildi láta reisa kapellu, þá yrði hún að gera grein fyrir sjálfri sér.

„ÉG ER HINN FLEKKLAUSI GETNAÐUR“

Það var einmitt þetta sem átti sér stað á Boðunardegi Maríu þann 25. mars eða í sextándu opinberuninni. Þetta átti sér stað við hellinn eins og Bernadetta hafði vænst, en hún skyldi alls ekki til fulls merkingu orðanna sem voru: „Que soy era Immacaluda Conceptiou – Ég er hinn Flekklausi getnaður.“ Einungis fjórum árum áður hafði Píus páfi IX lýst því yfir að þetta væri trúarsetning, en það fólk sem Bernadetta umgekkst daglega hafði hvorki skilið þetta né rætt frekar. Það er þessi trúarsetning um hin Flekklausa getnað sem opinberar hina takmarkalausu miskunnsemi Guðs í tilhögun Þrenningarinnar: Sá fagnaðarboðskapur að líf náðarinnar sé manninum eðlislægt en ekki syndin! Hl. Tómas frá Akvínó útskýrði þennan leyndardóm sem fyrstu kærleiksviðbrögð hins skapaða, þegar hann fjallaði um fall paradísarengillsins (Esk 28. 13):

Hjá englunum birtust fyrstu viðbrögðin í gæsku. En síðan snéru sumir þeirra sér til Orðsins í lofgjörð, en aðrir lokuðust inn í sjálfum sér í takmarkalausu stærilæti. Í upphafi brugðust þeir allir við með sama hætti. Það var hið síðara sem greindi þá í sundur. Á einu andartaki voru þeir allir algóðir, á einni sekúndu greindust þeir í gott og illt [1]

Það sem hin sæla Guðsmóðir opinberar okkur í Lourdes með hinum Flekklausa getnaði er sú staðreynd, að frá fyrsta andartaki sköpunar sinnar var hún full náðar og hún brást við með nákvæmlega sama hætti og hinar himnesku tignarraðir gæskunnar, að gefast lofgjörðinni á vald. Lofgjörðin er samofin fullsælunni og fullsælan hrífur hið skapaða frá sjálfu sér til hinnar æðstu gæsku: Hún opinberar okkur leyndardóm Þrenningarinnar þar sem Sonurinn og Heilagur Andi lúta Föðurnum að eilífu. Þetta er hinn dýrmæti boðskapur hennar til Bernadettu og allrar kirkjunnar! Það er þessi sannleikur sem Guðsmóðirin lagði einnig áherslu á í opinberuninnni í Knock á Írlandi árið 1879 (sjá síðar). Þessi viðbrögð eru uppspretta hennar eigin dýrðar sem felst í því að sjá Guð auglitis til auglitis á himnum með óhjúpuðu andliti í eðlislægri elsku á Guði, sem hin blessaða Mey mun sannarlega gefa okkur hlutdeild í. Þetta er hlutverk hennar sem hinnar nýju Eva: Að opinbera hina „tvíþættu“ endurlausn Sonar síns, eins og Duns Scotus (d. 1308) komst að orði. Hann frelsar þá úr fjötrum syndarinnar sem féllu en varðveitti Maríu frá flekk syndarinnar. Frumsynd hinnar fyrstu Evu sem leiddi til falls hennar var stærilætið, andhverfa lofgjörðarinnar: Að lokast inn í sjálfri sér, að reisa vegg milli sín og Guðs, rétt eins og verndarkerúbinn mikli gerði sig sekan um. En fá upphafi var Guðsmóðirin opin fyrir Guði og drakk í sig elsku hans.

TÁKNRÆN MERKING LINDARINNAR Í LOURDES

Lindin í Lourdes sem Guðsmóðirin opinberaði Bernadettu veitir okkur djúpstæða innsýn inn í leyndardóm elsku Drottins. Lindin – uppspretta allrar líknar og miskunnar er til staðar í okkar eigin hjörtum eftir skírnina: Við þurfum einungis að snúa okkur inn á við og grafa niður í djúp hjartans og þá tekur hún að vella fram. Í reynd skírskotar hún til óræðisdjúps hins Alhelga Hjarta Jesú sem uppsrettu hins lifandi vatns (Jh 7. 34-41).

Það er þessi sannleikur sem fornkirkjan tjáði með íkonu Krists sem ástmögurs mannkynsins (Philanthropia) og við þekkjum einnig sem íkonu Krists „Pantokrator.“ Eða með orðum hl. Ambrosíusar (d. 397):

Drekkið af Kristi vegna þess að hann er klettur og uppsretta vatnsins. Drekkið af Kristi vegna þess að hann er uppsprettulind lífsins. Drekkið af Kristi vegna þess að hann er fljótið sem með straumi sínum veitir borg Guðs gleði. Drekkið af Kristi vegna þess að hann er friðurinn. Drekkið af Kristi vegna þess að úr líkama hans streymir fram lind hins lifandi vatns. [2]

Þetta var sú áhersla sem Efesusskólinn lagði sífellt áherslu á, sannleikur sem sjá má í skrifum Hippolýtusar frá Róm (d. 235). En kennari hans var einmitt Íreneus (d. 202) sem fyrir sitt leyti var lærisveinn Polykarpusar frá Smyrnu (69-156) sem var lærisveinn Jóhannesar guðspjallamanns. Þetta er sá sannleikur sem þeir hl. Íreneus, hl. Justin píslarvottur (d. 165), hl. Kýprían frá Karþagó (d. 258), Appolinaríus frá Hieropolis (d. 258), Maríus Victorínus (d. 363), hl. Gregoríos frá Nyssa (d. 395), hl. Hieronýmus (d. 419), hl. Kýrillos frá Alexandríu (d. 444), hl. Gregor páfi mikli (d. 604) og hl. Ísidor frá Sevilla (636) viku að í skrifum sínum og var sjálfri Guðsmóðurinni svo hjartfólgin á þeim árum sem hún dvaldi hjá Jóhannesi guðspjallamanni í Efesus.

Það er þessi sannleikur sem brýst ætíð fram í kirkjunni sem eldur í guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú og endurómar í orðum hans sjálfs meðan hann dvaldi með okkur á jörðu:

Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður (Lk 17. 21).

Í Lourdes áminnir Guðsmóðirin okkur á þessi sannindi: „Grafið eftir upppsrettulind hins lifandi vatns lífsins í ykkar eigin hjörtum!“ Og lindin er ekki einungis sálinni til hjálpræðis, heldur líkamanum til líknar vegna þess að maðurinn er heildarsköpun líkama, sálar og anda. Í dag er því rekin mikilvæg líknarþjónusta til líkamlegrar og andlegrar græðslu í Lourdes. [3]

ÁGRIP AF LÍFI BERNADETTU SJÁLFRAR

Sem barn hafði Bernadetta smitast af kóleru og var sárþjökuð af astma. Sumir þeirra sem yfirheyrðu hana eftir opinberanirnar töldu hana einfeldning. En þrátt fyrir strangar yfirheyrslu bæði af hálfu embættismanna kaþólsku kirkjunnar og franskra stjórnvalda kvikaði hún aldrei frá frásögn sinni. Framkoma hennar á þessu tímaskeiði varð að fordæmi fyrir kirkjuna þegar hún rannsakar yfirskilvitleg atvik og opinberanir.

Bernadettu var ekkert um þá athygli gefið sem hún hafði vakið og gerðist nunna í klaustri Kærleikssystra kristinnar trúfræðslu og settist að í móðurhúsi reglunnar í Nevers 22 ára gömul. Þar varði hún öllu sínu lífi, fyrst sem sjúkrasystir og síðar sem skrúðhússystir og útsaumur hennar og altarisklæði voru annáluð. Eitt sinn þegar hún fékk alvarlegt astmakast bað hún um að sér yrði fært vatn úr lindunum í Lourdes og einkennin hurfu og astamakastanna gætti aldrei framar. En hún leitaði sér ekki lækningar með sama hætti þegar hún fékk berkla í hægra hnéið. Hún fylgdist náið með vexti Lourdes sem pílagrímsstaðar og heilsugæslumiðstövar en var ekki viðstödd vígslu basilíkunnar árið 1876.

Lourdes_3

Mynd tekin af Bernadettu
skömmu eftir andlátið

Bernadetta andaðist af völdum sjúkdóms síns þann 16. apríl 1879, þrjátíu og fimm ára gömul. Líkami hennar var fyrst rannsakaður þann 2. september 1909 af rannsóknarnefnd kirkjunnar áður en hún yrði tekin í tölu heilagra, af tveimur læknum og fulltrúum systranna. Í ljós kom að líkami hennar hafði varðveist óskemmdur, þrátt fyrir að róðukross sem hún hélt á í hægri hendinni og rósakrans hennar höfðu látið á sjá. Litið var á þetta sem kraftaverk og var ein ástæðanna að hún var tekin í tölu heilagra. Líkami hennar var laugaður og klæddur upp að nýju áður en honum var komið fyrir í helgiskríni.

Lourdes_2

Nýleg mynd af
Bernadettu

Skrínið var opnað að nýju þann 3. apríl 1919 og ástand hans var en óaðfinnalegt. Smávegis litarfarsbreytinga gætti á andliti hennar sem rakin var til þess að það hafði verið þvegið árið 1909. Vaxmaski var lagður yfir andlitið og síðan var líkamanum komið fyrir í nýju helgiskríni sem varðveitt er í kapellu heil. Bernadettu í móðurhúsinu í Nerves. Hún var tekin í tölu heilagra árið 1933, ekki sökum þess hversu vel líkami hennar hafði varðveist, heldur sökum einfalds og heilags lífernis síns. Hún er verndardýrlingur hinna sjúku við heilsulindirnar í Lourdes.

[1]. Summa theologiae 1. q. 63, a. 6.
[2]. Útskýringar við sálmana, 1. 33.
[3]. http://www.lourdes-france.com/index.php?texte=1&langage=en
Frásögnin er byggð á: Delaney, John J., A Woman Clothed with the Sun, Doubleday, New York, 1990 og http://www.biocrawler.com/encyclopedia/Bernadette_of_Lourdes

No feedback yet