« Ritningarlesturinn 11. nóvember 2006Austurkirkjufeðurnir stóðu vörð um Páfadóminn »

10.11.06

  17:24:31, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 376 orð  
Flokkur: Vefrit Karmels

Logi lifandi elsku eftir Jóhannes af Krossi kominn út á íslensku

loginn

Nú er Logi lifandi elsku eftir Jóhannes af Krossi kominn út á íslensku á Vefrit Karmels. Jóhannes af Krossi semur Loga lifandi elsku sex árum áður en hann andast meðan hann gegnir enn stöðu svæðisstjóra í Andalúsíu. Hann stendur á hátindi sínum sem andlegur lærifaðir og leiðbeinandi. Með ritinu leggur hann grundvöllinn að guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú sem blásið er nýju lífi í með persónulegum opinberunum hinna heilögu kirkjunnar á komandi öld.

Hæst ber þar opinberun hl. Margaret Marie Alacoque (1647-1690) í Paray-le-Monial í Frakklandi. Jesúítaprestarnir Claude de la Columbière og Jean Croiset gegndu mikilvægu hlutverki í að gera guðrækni hins Alhelga Hjarta að óaðskiljanlegum þætti í hinni almennu guðrækni kirkjunnar á komandi öldum.

Loginn er ómissandi rit fyrir þá sem láta hrífast af kalli Guðs í djúpi mannshjartans til að ganga inn í innsta verundardjúp sálarinnar. Í ritinu má sjá einhverja þá bestu – ef ekki bestu – andlegu leiðsögn til þessa djúps verundarinnar í ritskýringunum við þriðja erindið (greinar 29-62). Loginn er vafalaust það fegursta fyrir utan ljóðin sem komið hefur úr penna þessa mikla ljóðskálds og djúphyggjumanns.

Margir láta hrífast af Hinni myrku nótt sálarinnar og Uppgöngunni á Karmelfjall, en þar talar guðfræðingurinn með skilgreinandi röksemdafærslum sínum. En í Ljóði andans og Loga lifandi elsku talar Jóhannes við hjartað. Frásögn hans er bæði hrífandi í ljóðrænni mýkt sinni, en ekki síður sökum þeirrar andlegu speki sem hann gefur lesandanum hlutdeild í. Það er því engin tilviljun sem býr því að baki að fremur er mælt með því að nýliðarnir lesi þessi tvö síðari rit hans fyrst, áður en ráðist er í að lesa hina rökkryfjandi guðfræði í Nóttinni og Uppgöngunni. Orð Teresu frá Avíla – hins mikla siðbótarmannsins innan Karmels – eiga því einkar vel við sem lokaorðin að þessum stuttu formálsorðum: „Ég skil ekki, Skapari minn, hvers vegna allir menn keppi ekki eftir því að sameinast þér í svona undursamlegri vináttu“ (Saga lífs míns 8, 6).

TENGILL

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Til hamingju Jón! Það er mikill fengur að fá þessa bók og aðrar sem þú hefur þýtt á íslensku og frábært að hægt skuli vera að sækja þær á pdf formi á netinu.

10.11.06 @ 20:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég tek undir þessar hamingjuóskir, Jón Rafn, elja þín og einstök ástundun hefur skilað miklu til hinna trúuðu. Gildi þess framlags mælist ekki fyrst og fremst af því, hversu margir komast í að lesa þessar þýðingar þínar og ritstörf núna eða vita yfirhöfuð af þessu á líðandi stund, því að á vefnum mun þetta varðveitast og vera aðgengilegt þeim, sem þess leita, á komandi árum og jafnveil nýtanlegt og gefandi sína ávexti svo lengi sem land þetta byggir íslenzkumælandi þjóð. Þar til viðbótar ertu með mikið efni á ensku (og spænsku?) og miklu meira sótt í Vefrit Karmels erlendis frá en frá Íslendingum. Með kærri kveðju, JVJ.

11.11.06 @ 01:06